STUNDUM er sagt að hundaeigendur bindist ferfætlingunum óvenjusterkum böndum, þeir verði nánast eins og þeirra eigin afkvæmi.

STUNDUM er sagt að hundaeigendur bindist ferfætlingunum óvenjusterkum böndum, þeir verði nánast eins og þeirra eigin afkvæmi. Hundarnir veita húsbændum sínum ekki aðeins góðan félagsskap og nærveru, því þeir hjálpa nútímamanninum að slaka á í hröðum erli lífsgæðakapphlaupsins, að því er haldið er fram í nýrri rannsókn.

Vísindakonan dr. Deborah Wells við Queens-háskóla í Belfast fann þannig út að hundaeigendur hefðu minna magn kólesteróls í blóðinu, lægri blóðþrýsting og væru ólíklegri en aðrir til að þróa með sér alvarlega geðsjúkdóma, að því er breska dagblaðið The Daily Telegraph skýrði frá á vefsíðu sinni í gær.

Wells veltir því jafnframt fyrir sér í skýrslu sinni um rannsóknina hvort aukin hreyfing og samskipti við annað fólk í gegnum hundana kunni að vera orsakavaldar. Meginniðurstaða hennar er hins vegar sú, að fólk sem tók að sér hunda eða ketti, sem höfðu verið yfirgefnir, var hraustara en aðrir. Heilsubótin af köttum entist út fyrsta mánuðinn en var langvarandi af hundahaldinu.