Verk eftir Zelenka, Telemann og Sjostakovitsj.

Verk eftir Zelenka, Telemann og Sjostakovitsj. Kammerhópurinn Camerarctica (Hildigunnur Halldórsdóttir & Bryndís Pálsdóttir fiðla, Svava Bernharðsdóttir víóla, Sigurður Halldórsson selló, Hallfríður Ólafsdóttir flauta, Eydís Franzdóttir óbó, Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagott og Guðrún Óskarsdóttir semball). Sunnudaginn 7. janúar kl. 20.

SEINNI helmingur 50. starfsárs Kammermúsíkklúbbsins hófst sunnudaginn 7. janúar við að venju góða aðsókn. Dagskráin spannaði á þriðju öld með verkum eftir síðbarokkhöfundana Georg Philipp Telemann (1681–1767) og Jan Dismas Zelenka (1679–1745) ásamt Dmitri Sjostakovitsj (1906–75); dálítið í anda Sumartónleika í Skálholti er sérkennzt hafa af svipaðri blöndu af forntónlist og nútímamúsík.

Barokkverkin voru útvíkkuð afsprengi tríósónötunnar, höfuðkammergreinar síns tíma; hér fyrir 3 (í stað 2) laglínuhljóðfæri og "fylgirödd" eins og kallað var í tónleikaskrá og enn má heyra notað af gömlum vana í kynningum Rásar 1. Því miður er orðið vandræðaleg og jafnvel villandi prentsmiðjuþýðing á "[basso] continuo" – þ.e. sembal + bassahljóðfæri (oftast selló) er barokkmenn litu á sem eina rödd og væri betur þýdd sem fylgibassa, enda miðuð við nóteraða bassalínu hljómsetta eftir tölustöfum. Fylgiraddarheitið væri hins vegar brúklegt fyrir obbligato eða fyrirskrifaða aukasólórödd, sbr. "flauto obbligato".

En þó undirrituðum þyki mál að hreinsa til í téðu hugtakarugli er ólíklegt að það hafi staðið mörgum nærstöddum fyrir þrifum. Tónleikarnir voru nefnilega glettilega vel heppnaðir, þrátt fyrir að nokkra nýgræðinga væri að finna meðal hljómlistarmanna á þessum virta vettvangi í tónlistarlífi höfuðborgarsvæðisins. Hvort þær kringumstæður hafi sérstaklega hvatt til vandaðs undirbúnings er ekki gott að segja. En vissulega benti heyranleg útkoman til þess, því í mínum eyrum hljómaði flest afar frambærilegt, einkum þó strengjakvartettinn í lokin.

G-dúr kvartett Telemanns (Fl./F./Óbó/Fb.) úr bálki hans "Musique de table" frá 1733 var m.ö.o. "dinnertónlist" að upplagi, og því á sinn hátt skondið að hlýða á hann með jafnóskiptinni einbeitingu og þegar tónsköpunarhátindar seinni og athyglifrekari tíma eru í boði. Miðað við lygileg afköst þessa fjölskylduvinar J. S. Bachs er lagrænn frjóleiki hans með ólíkindum og því síður ótrúanlegt að yfir 150 stef hans skyldu rata í ýmis verk hins fjölþreifna Händels.

Camerarctica lék afþreyingarverkið af hæfilegu áreynsluleysi, og gilti það einnig um alvarlegri 3. sónötu hins bæheimska Zelenkas frá 1722 (F./Óbó/Fag./Fb.). Þótt kröfurnar til óbósins hafi hvatt óbósnillinginn Holliger til að vekja 6 sónatna bálkinn frá gleymsku fyrir 30 árum, vöktu ekki síður athygli linnulausu fagottrúllöðurnar í II. þætti í furðuþjálli meðferð Kristínar Mjallar.

4. strengjakvartettinn í D-dúr frá 1949 kann e.t.v. að vera einn af meðfærilegri kvartettum Sjostakovitsjar, m.a. fyrir hvað verkið útheimtir tiltölulega litla hóprúbatótúlkun (aðalhænginn á dæmigerðum íslenzkum "ad hoc" kammerleik) til að virka. Það skýrði þó ekki alveg þau óvæntu undur og býsn sem áheyrendur upplifðu í þrælinnlifaðri túlkun fjórmenninganna sem á köflum jaðraði við heimsmælikvarða. Hér dugði fegurðin ekki til ein, heldur bættist líka við aðkenning af hressandi sálarbót sem tónhollustufrömuður á við Charles Ives hefði örugglega kunnað að meta.

Ríkarður Ö. Pálsson