Bólginn Svona leit ökklinn á Loga út.
Bólginn Svona leit ökklinn á Loga út. — Ljósmynd/Günter Schröder
Eftir Ívar Benediktsson í Dortmund iben@mbl.

Eftir Ívar Benediktsson í Dortmund

iben@mbl.is

"LOGI er allur að koma til en hvort hann verður með á morgun veit ég ekki, en meiðslin eru ekki alvarleg að ég tel," sagði Brynjólfur Jónsson, læknir íslenska landsliðsins í handknattleik, spurður um meiðsli Loga Geirssonar landsliðsmanns.

Logi tognaði á ökkla eftir 19 mínútur í viðureigninni við Frakka í fyrrakvöld á heimsmeistaramótinu. Hann kom aftur við sögu síðar í leiknum. Í leikslok sagðist Logi vera mjög aumur í ökklanum. Hafði þá ísmolapoki verið límdur um ökklann.

Logi æfði með íslenska landsliðinu í íþróttahöllinni Halle Westfalen í gærkvöldi, átti reyndar aðeins að skokka léttilega og ekki taka sérstaklega á með liðinu.

Liðið æfði í gærkvöldi og sagðist Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari ætla með hópinn á æfingu klukkan níu árdegis í dag. "Það reyndist vel fyrir Frakkaleikinn að taka hörkuæfingu að morgni leikdags og við ætlum að endurtaka leikinn núna," sagði Alfreð. Ef Logi getur ekki leikið í dag kemur Arnór Atlason inn í hópinn.

Fyrsta viðureign Íslands í milliriðlakeppninni verður við Afríkumeistara Túnis í Westfalen-íþróttahöllinni í Dortmund í dag og hefst hún klukkan 15.30. | Íþróttir og miðopna