Margrét
Margrét
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is ÞAÐ eina sem getur komið í veg fyrir klofning Frjálslynda flokksins er að Margrét Sverrisdóttir fái afdráttarlausa kosningu í varaformannssætið.

FRÉTTASKÝRING

Eftir Agnesi Bragadóttur

agnes@mbl.is

ÞAÐ eina sem getur komið í veg fyrir klofning Frjálslynda flokksins er að Margrét Sverrisdóttir fái afdráttarlausa kosningu í varaformannssætið. Margrét lýsti því yfir í gærkvöldi að hún stæði við þau áform sín að bjóða sig fram til varaformanns Frjálslynda flokksins á laugardag og fara þannig gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni varaformanni flokksins. Margrét hefur hugleitt að bjóða sig fram til formanns gegn Guðjóni A. Kristjánssyni, frá því að hann lýsti yfir stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson í síðustu viku. Með kosningu Margrétar yrði a.m.k. plástur settur á stærstu svöðusárin.

Á það er bent, að með Margréti sem varaformann dragi úr hinni karllægu einsleitni sem einkenni forystusveit og þingflokk Frjálslynda flokksins.

Margrét greindi frá þessu í gærkvöldi í Kastljósi Sjónvarpsins þar sem hún og Magnús Þór tókust á, en fyrr um daginn höfðu þessi áform hennar þó kvisast út.

Margrét sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld: "Ég treysti því að þetta verði til þess að efla samheldni í flokknum og sameina fylkingar."

Mikil smölun hefur verið í gangi

Talið er að Margrét hafi mjög styrkt stöðu sína í baráttunni um varaformannssætið eftir að borgarstjórnarflokkur Frjálslynda flokksins hét henni fullum stuðningi til forystustarfa í flokknum í fyrradag. Þetta er mat viðmælenda, jafnvel þótt það liggi fyrir að Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslyndra, hafi ekki verið nema hálfvolgur í stuðningi sínum. Eindreginn og afdráttarlaus stuðningur Guðrúnar Ásmundsdóttur, Kjartans Eggertssonar, Ástu Þorleifsdóttur og Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, er sagður gera gott betur en vega upp á móti hálfvelgju Ólafs.

En ekki er þar með sagt að sigurinn sé unninn, því mikil smölun hefur átt sér stað að undanförnu, í báðum fylkingum. Flokksmönnum hefur fjölgað um eitthvað á fimmta hundraðið á undanförnum þremur mánuðum, eða yfir 30%. Það eina sem þarf til þess að fá að mæta og kjósa á landsþingi Frjálslynda flokksins er að vera skráður félagi í flokknum og er líklegt að smölun haldi áfram fram á síðustu stundu. Fyrst verður formannskosning kl. 15.00 á laugardag og strax í kjölfar hennar verður kosið um varaformann.

Guðjón fullyrti í gær í samtali við Morgunblaðið, að enginn klofningur í Frjálslynda flokknum væri í uppsiglingu, óháð því hver niðurstaðan yrði í varaformannskosningunni. "Við sem erum kosin til forystu eigum að vinna saman að kosningu lokinni. Það liggur beint við og ég ætlast til þess að sú verði niðurstaðan, hver sem í hlut á."