— Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is HÆSTIRÉTTUR hafnaði í gær aðalkröfu verjenda sakborninga Baugsmálsins, að rannsókn ríkislögreglustjóra skuli dæmd ólögmæt.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

HÆSTIRÉTTUR hafnaði í gær aðalkröfu verjenda sakborninga Baugsmálsins, að rannsókn ríkislögreglustjóra skuli dæmd ólögmæt. Hann samþykkti hins vegar hluta varakröfu verjendanna um að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, skuli vegna vanhæfis víkja sæti við rannsókn málsins er varða ætluðskattalagabrot og hegningarlagabrot sakborninga.

Er Haraldur dæmdur vanhæfur vegna ummæla sem hann lét falla í fréttatímum sjónvarspsstöðvanna í október árið 2005 en í fréttum Stöðvar 2 sagði hann m.a.: "Það er hægt með rökum að halda því fram að ríkislögreglustjóraembættið sé orðið of innvolverað í þetta mál til þess að geta litið hlutlaust á þær ákvarðanir sem þarf að taka í framhaldinu." Verjendur ákærðu fóru einnig fram á að allir starfsmenn ríkislögreglustjóra vikju sæti, en á það féllst Hæstiréttur ekki. Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði þar sem hann rökstyður þá skoðun sína að hafna eigi öllum kröfum varnaraðila, þ.e. Baugsmanna, í málinu. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að auk Haraldar bæri Jóni H.B. Snorrasyni saksóknara að víkja sæti. Þar sem Jón hefur látið af störfum telur Hæstiréttur ekki þörf á því að taka sérstaklega afstöðu til hæfis hans.

Báðir aðilar kærðu til Hæstaréttar

Báðir málsaðilar skutu málinu til Hæstaréttar. Ríkislögreglustjóri krafðist þess að felld yrði úr gildi niðurstaða héraðsdóms um að ríkislögreglustjóri og saksóknari skyldu víkja sæti en að úrskurðurinn yrði að öðru leyti staðfestur. Varnaraðilar kröfðust þess aðallega að dæmt yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra í málinu væri ólögmæt. Til vara að úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur en jafnframt að allir aðrir starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra skyldu víkja sæti.

Varnaraðilar byggðu aðal- og varakröfur sínar á því að með ummælum ríkislögreglustjóra í fréttum Stöðvar 2 og ríkissjónvarpsins og ummælum sem höfð voru eftir honum í Blaðinu í október 2005, hefðu forsvarsmenn embættis ríkislögreglustjóra lýst sig vanhæfa til að fara með málið. Ummælin voru sett fram í tilefni af dómi Hæstaréttar 10. sama mánaðar, en þar var 32 af 40 ákæruliðum samkvæmt ákæru ríkissaksóknara gegn varnaraðilum vísað frá héraðsdómi. Af gögnum málsins mætti ráða að þegar ummælin voru viðhöfð hefði ríkissaksóknari ákveðið að beiðni ríkislögreglustjóra að taka þau gögn málsins, sem lágu að baki ákæruliðunum sem vísað hafði verið frá dómi, til athugunar í því skyni að ganga úr skugga um hvort efni væru til að höfða mál að nýju á grundvelli þeirra.

Endurspegla huglæga afstöðu

Ríkislögreglustjóri hafnaði því að með ummælunum hefði hann lýst yfir vanhæfi sínu eða embættis síns til að halda áfram meðferð málsins.

Hæstiréttur telur að ummæli ríkislögreglustjóra í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna skírskoti með ákveðnum hætti til sjónarmiða um sérstakt hæfi. Verði að líta svo á að þau endurspegli huglæga afstöðu ríkislögreglustjóra til málsins. Þar sem þau hafi verið viðhöfð opinberlega í fjölmiðlum verði sérstaklega að líta til þess hvernig þau horfi við almenningi og hvort varnaraðilar geti í ljósi þeirra með réttu dregið óhlutdrægni hans í efa. Verði ummælin ekki skilin á annan hátt en að ríkislögreglustjóri telji að með réttu megi álíta að embætti hans sé ekki treystandi til að líta hlutlaust á málavexti.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að sé ríkislögreglustjóri talinn vanhæfur skv. lögreglulögum beri dómsmálaráðherra að setja sérstakan ríkislögreglustjóra til að fara með viðkomandi rannsókn. Víki ríkislögreglustjóri sæti beri honum að gera allar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að halda máli í réttu horfi þar til sérstakur ríkislögreglustjóri hefur verið skipaður. "Ákæra verður ekki reist á rannsókn vanhæfs ríkislögreglustjóra, en eftir að settur ríkislögreglustjóri tekur við máli fer rannsókn fram í skjóli valdheimilda hans," segir í niðurstöðu Hæstaréttar. Á settur ríkislögreglustjóri mat um það að hvaða marki framhald rannsóknarinnar verði reist á gögnum sem þegar liggja fyrir í málinu.

Aðrir starfsmenn hæfir

Hæstiréttur telur að vanhæfi Haralds Johannessen eigi að leiða til þess að fallast eigi á þá kröfu varnaraðila að rannsókn málsins sé ólögmæt. Þá hafnar dómurinn því að aðrir starfsmenn ríkislögreglustjóraembættisins hafi orðið vanhæfir til að rannsaka ætluð skatta- og hegningarlagabrot varnaraðila og eigi að víkja sæti við rannsókn málsins og geti ekki unnið áfram að henni undir stjórn setts ríkislögreglustjóra. Þá verði að leggja til grundvallar að ríkislögreglustjóri hafi aðeins verið að lýsa eigin afstöðu til málsins undir sinni stjórn.

Sé því aðeins efni til að fallast á varakröfu varnaraðila að því er lýtur að hæfi ríkislögreglustjóra.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Í hnotskurn
» Verjendur sakborninga í Baugsmálinu kröfðust þess að rannsókn Ríkislögreglustjóra á ætluðum skattalagabrotum þeirra yrði dæmd ólögmæt en til vara að allir starfsmenn embættisins vikju sæti við rannsóknina.
» Talið var að með ummælum sínum hefði ríkislögreglustjóri orðið vanhæfur í málinu og var því fallist á varakröfu sakborninganna að því leyti.
» Ekki var hins vegar talið að röksemdir sakborninganna ættu að leiða til þess að aðalkrafa þeirra næði fram að ganga.