Samstarf Adolf Friðriksson og dr. Andreas Vasilopoulos ræða landbrot og minjaeyðingu þar sem þeir eru staddir á suðurströnd Samos.
Samstarf Adolf Friðriksson og dr. Andreas Vasilopoulos ræða landbrot og minjaeyðingu þar sem þeir eru staddir á suðurströnd Samos.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is "ÞESSI samningur er góð staðfesting á því að allur undirbúningur sem við höfum verið að vinna að í mörg ár er að skila árangri núna.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

"ÞESSI samningur er góð staðfesting á því að allur undirbúningur sem við höfum verið að vinna að í mörg ár er að skila árangri núna. Við höfum í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á að vera opin og trúverðug í samstarfi við erlenda aðila, en þessi samningur skapar okkur farveg fyrir markvissara samstarf en verið hefur," segir Adolf Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands, en stofnunin gerði nýverið rammasamning um vísindasamstarf við Háskólann í Aþenu á sviði fornleifafræði.

Aðspurður segir Adolf samstarfssamninginn hafa verið í undirbúningi síðan 2005. Bendir hann á að á síðustu misserum hafi íslenskir og grískir vísindamenn unnið að frumathugunum og samanburði á áhrifum eldgosa í löndunum tveimur á mannlíf til forna, en eyjarnar tvær eiga það sameiginlegt að vera eldvirk svæði. "Við hefðum áhuga á að vinna enn frekar að því í samstarfi við Grikki að afla nýrra upplýsinga um menningarlandslagið og þróun þess á eldfjallasvæðum. Einnig hefðum við áhuga á samstarfi um rannsóknir á þingminjum, en í báðum þessum löndum eru til fornleifar sem eru leifar um þinghald. Það hefur ekki verið reynt áður að velja út einn tiltekinn minjaflokk til rannsókna sem er sameiginlegur mörgum löndum, bera saman svæðin og reyna að læra eitthvað nýtt af samanburðinum," segir Adolf og bendir á að samanburður við betur þekktar þingminjar sunnar í álfunni muni hjálpa Íslendingum til að skilja betur hlutverk og eðli þessa tiltekna minjahóps.

Spurður hvaða þýðingu samningurinn hafi svarar Adolf: "Þetta mun auðvelda okkur að fá til liðs við okkur snjalla vísindamenn frá öðrum löndum. Menn sem hafa tækjabúnað sem við eigum ekki eða aðra sérþekkingu sem við Íslendingar höfum ekki getað komið okkur upp smæðar landsins vegna. Auk þess býður samningurinn upp á bæði starfsmanna- og nemendaskipti," segir Adolf og bendir á að sl. 8–9 sumur hafi Fornleifastofnun tekið við háskólanemendum að utan til þjálfunar og kennslu. "Þessir nemar hafa í sínu doktorsnámi oft valið að vinna með íslenskan efnivið til frekari rannsókna."

Inntur eftir því hvað Ísland hafi fram að færa innan fornleifarannsókna bendir Adolf á að miklar framfarir hafi orðið hérlendis á sviði fornleifarannsókna sl. 10 ár. "Allar grundvallaraðferðir eins og fornleifauppgröftur og fornleifaskráning eru á mjög háu gæðastigi hérlendis. Grikkir hafa þannig mikinn áhuga á því að fá okkur til samstarfs við að kortleggja fornleifar, af því að við höfum lagt mjög mikla áherslu á að vinna fornleifaskráningu á mjög markvissan hátt, bæði hratt og vel í stafrænu formi."