Setustofa flugmanna Magnús Gunnarsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (fyrir miðju), sýnir fjölmiðlum sameiginlega setustofu í fjölbýlishúsi á varnarsvæðinu.
Setustofa flugmanna Magnús Gunnarsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (fyrir miðju), sýnir fjölmiðlum sameiginlega setustofu í fjölbýlishúsi á varnarsvæðinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar er í stakk búið til að taka við hugmyndum um notkun mannvirkja á fyrrum varnarsvæði Bandaríkjahersins á Miðnesheiði. "Hér eru endalaus tækifæri," segir stjórnarformaður félagsins.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

Tæplega þrjú hundruð byggingum verður komið úr hernaðarlegri í borgaralega notkun á næstu fjórum árum nái markmið Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (ÞK) fram að ganga. Félaginu sem stofnað var í október sl. og tók við eignunum í desember hefur þegar borist hátt í hundrað hugmyndir frá íslenskum sem og erlendum aðilum, s.s. um alþjóðlega háskólastarfsemi, kvikmyndaver, orku- og auðlindagarða og fríverslunarsvæði.

Magnús Gunnarsson, stjórnarformaður ÞK, segir nauðsynlegt að koma eignum á svæðinu í borgaraleg not án þess að jafnvægi samfélagsins á Suðurnesjum verði raskað. "Í því felst m.a. að við munum ekki setja allar þessar íbúðir á markað en fylgjumst hins vegar með því hvaða möguleikar eru fyrir hendi til að nýta eignirnar til þróunarvinnu," segir Magnús. Íbúðirnar eru alls yfir tvö þúsund auk þess sem á svæðinu er fjögur þúsund fermetra sjúkrahús, tveir grunnskólar, íþróttamiðstöð með 25 metra yfirbyggðri sundlaug, kirkja, iðnaðarhúsnæði svo fátt sé nefnt.

"Þetta er vandmeðfarið og við þurfum að fara eins varlega og hægt er, en auðvitað verður svona stórt verkefni ekki framkvæmt nema einhversstaðar verði titringur. Framtíðin er að hér verði aftur líflegt samfélag og við gerum okkur vonir um að með því að færa þessar eignir til borgaralegra nota munum við auðga mannlífið á þessu svæði, umsvifin og atvinnulífið," segir Magnús.

Eignir skoðaðar með tilliti til byggingareglugerða

Vinna ÞK er ekki langt á veg komin og ljóst að margt þarf að gera á næstu vikum og mánuðum. Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri FK, segir að eitt af fyrstu viðfangsefnunum sé að koma skipulagsmálum í eðlilegt horf. "Skipulagið er komið á hendur sameiginlegrar skipulagsnefndar sveitarfélaganna Garðsins, Sandgerðis og Reykjanesbæjar og bíður verðugt viðfangsefni. Það þarf að taka út eignirnar, afmarka lóðirnar og setja á hvert hús hitaveitu- og rafmagnsmæla," segir Kjartan og einnig á eftir að skoða mörg tæknileg atriði, s.s. raflagnir. "Við erum að skoða eignirnar með tilliti til byggingareglugerða og þeirra staðla sem þarf að uppfylla. Grunnrannsóknir okkar hafa leitt í ljós að ekki þarf að gera miklar breytingar."

Hann segir að vonast sé til að hægt verði að leysa öll slík mál á tiltölulega auðveldan hátt og bendir á að eignirnar séu yfirhöfuð byggðar samkvæmt íslenskum stöðlum.

Kjartan tekur fram að við skipulagsvinnuna gildi sömu viðmið og þegar verið er að þróa ný hverfi innan sveitarfélaga, s.s. hvaða starfsemi menn vilja sjá á hverjum stað. "Það er einn af okkar grunnþáttum að línurnar séu skýrar í skipulagsmálum. Sumt gengur og verður svipað og nú er en aðra hluti þarf að aðlaga nýjum forsendum." Hann segir allan aðbúnað við húsnæðin til fyrirmyndar en stefnt er að því að auka trjágróður.

Stórfé í að reka svæðið

Í nóvember sl. urðu töluverðar skemmdir á 106 íbúðum í þrettán húsum á svæðinu sökum vatnsleka og var um verulegt tjón að ræða. Þrátt fyrir það segir Magnús tjónið ekki jafn mikið og látið var af, enn er þó óvitað um fjárhagslegt tjón vegna lekans. Magnús segir eignirnar almennt mjög vel með farnar og að auðvelt ætti að vera að koma þeim í almenna nýtingu ef verkefnin eru fyrir hendi.

"Markmiðið er að leggja okkur niður eins fljótt og hægt er," segir Magnús og bætir við að stórfé kosti að halda bæjarfélaginu gangandi, þó svo enginn sé þar íbúi. "Við erum ekki alveg komnir niður á upphæðina en það skiptir tugum milljóna króna á mánuði."

Þróunarfélagið tók við þeim skyldum sem ríkið tók á sig vegna mengunarmála en áhyggjur hafa verið. s.s. vegna hugsanlegrar mengunar í grunnvatni. Magnús segir að úttektir verði gerðar á mengunarmálum. "Það var gert ráð fyrir verulegum upphæðum til að vinna þessa mengun og koma í veg fyrir hana, færa jarðveg eða hvað sem þarf til." Það sem skoðað verður helst er olíumengun auk gamalla urðunastaða. "Í leiðinni munum við fara í gegnum eignirnar allar og sjá hvað af þeim eru í því horfi að við munum þurfa að láta fjarlægja þær. Það eru nokkur hús sem eru með asbest í klæðningu sem verður að laga eða breyta."

Erlendir aðilar sýna áhuga

Nýverið var tekin í notkun vefsíða Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, www.kadeco.is, þar sem settar verða inn upplýsingar um eignir til sölu og leigu. Nafnið er skammstöfun félagsins á enska tungu, sbr. Keflavík airport development corparation. "Þessu er svona komið þar sem við erum ekki eingöngu að miða við íslenskan markað heldur ennig erlenda og hafa töluvert margir erlendir aðilar þegar sýnt áhuga á ýmiskonar starfsemi," segir Magnús en staðfesti þó ekki áhuga, s.s. vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík.

Magnús áréttar að ef menn hafa skynsamlegar hugmyndir um nýtingu eigna þá sé félagið tilbúið til viðræðna. "Það sem við viljum undirstrika er að hér eru endalaus tækifæri," segir Magnús.

Í hnotskurn
» Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar var stofnað í október sl. og tók við eignum varnarliðsins í desember.
» Eitt af verkefnum félagsins er að koma eignunum úr hernaðarlegri í borgaralega notkun.
» Undirbúningur hefur gengið vel og er félagið nú tilbúið til viðræðna við þá sem hyggjast nýta sér eignir á svæðinu.
» Bæði verður um að ræða sölu eigna og leigu en íbúðahúsnæði verður ekki sett á markað, að sinni.
» Tryggja á að jafnvægi samfélagsins á Suðurnesjum verði ekki raskað með verkefninu.
» Vefsíðu félagsins má finna á www.kadeco.is.