Valgerður Sverrisdóttir
Valgerður Sverrisdóttir
Áhugamenn um stjórnmál velta mjög fyrir sér stöðu Valgerðar Sverrisdóttur um þessar mundir. Það er eins og hún sé laus úr álögum. Frammistaða hennar í embætti utanríkisráðherra er til fyrirmyndar.

Áhugamenn um stjórnmál velta mjög fyrir sér stöðu Valgerðar Sverrisdóttur um þessar mundir. Það er eins og hún sé laus úr álögum.

Frammistaða hennar í embætti utanríkisráðherra er til fyrirmyndar. Hún breytti stefnu Íslendinga í friðargæzlumálum og beindi henni í réttan farveg.

Hún hefur vakið athygli fyrir að svipta hulu leyndardómsins af gömlum skjölum. Hún hefur gert flest rétt frá almannasjónarmiði séð frá því að hún tók við hinu nýja ráðherraembætti.

Hvað er að gerast?

Sumir telja að Valgerður sé markvisst og úthugsað að skapa sér sérstöðu. Hún geri ráð fyrir því að Framsóknarflokkurinn verði í stjórnarandstöðu eftir kosningar og vilji gjarnan að flokkurinn endurnýist þannig.

Hún telji að Jón Sigurðsson verði ekki langlífur sem formaður Framsóknarflokksins ef fram fer sem horfir og til hennar verði leitað.

Öll háttsemi hennar um þessar mundir beinist að því að undirbúa jarðveginn.

Það kann vel að vera að sitthvað sé til í þessum vangaveltum áhugamanna um stjórnmál. Og það kann vel að vera, að frammistaða Valgerðar Sverrisdóttur í embætti utanríkisráðherra geri það að verkum, að til hennar verði leitað um að taka við forystu Framsóknarflokksins. Vorið og sumarið 2006 var það óhugsandi. Nú er þetta vel hugsanlegt.

Vegna þess að Valgerður er laus úr álögum.