Eftir Bjarna Bjarnason bjarnibjarnason@hotmail.com !Auglýsing Kaupþings með John Cleese vekur upp spurningar varðandi tengslin milli forms og innihalds.

Eftir Bjarna Bjarnason

bjarnibjarnason@hotmail.com

!Auglýsing Kaupþings með John Cleese vekur upp spurningar varðandi tengslin milli forms og innihalds. Allir vita að sumir eru ekki fyndnir þótt þeir segi góðan brandara en aðrir eru fyndnir þótt þeir segi lélegan brandara.

En spurningin er, hvar liggja mörkin? Hvað er svo ófyndið að það er sama hver segir, það verður aldrei fyndið? Nú eru sumir búnir að segja svo margt fyndið um dagana að þótt þeir panti bara kaffibolla á kaffihúsi þá á einhver til að fara skella uppúr. Hann er orðinn skilyrtur af forminu og hlær, eins og hundur í búri slefar við það eitt að fá merki um mat, án þess að fá neitt að borða. Og þá kemur maður að orðinu Kaupþing. Er til það góður húmoristi í heiminum að hann geti sagt þetta orð þannig að maður fari að hlæja? Og ef hann er til, hvað mundi hann þá kosta? Ef maður fer ekki að hlæja að honum, er það þá af því maður hefur ekki verið nógu vel skilyrtur, eins og hundurinn, til að hlæja að forminu einu, eða hefur maður ekki húmor? Húmorsleysi er eitt það versta sem hægt er að hugsa sér, er ekki best að hlæja þá til öryggis? Að orðinu Kaupþing? Ef maður hlær, er Kaupþing þá búið að gera það sem margan hefur dreymt um, að eignast fyndni í sjálfu sér? Er það ekki mjög jákvætt fyrir Ísland, að fyndni hefur verið keypt til landsins? Það er heppilegt að eiga fyndni og geta notað hana sem umbúðir um hvað sem manni dettur í hug. Tökum orðið vextir, eigum við ekki að gera það orð broslegt? Væri ekki munur ef allir færu að brosa við tilhugsunina um vexti, og hlæja við tilhugsunina um okurvexti? Gæti John Cleese ekki séð til þess, og vakið upp Pavlovhundahlátur hjá íslensku þjóðinni? Eða liggja öll þessi orð utan við mörkin? Kaupþing hvetur okkur til að hugsa lengra með John Cleese sem er góð áskorun sem við tökum enda í boði hússins. Í auglýsingunni fara saman frægð og peningar sem eru kannski æðstu gildi samfélagsins í dag. Undirliggjandi spurningin er þá; hvort er æðra, frægð eða peningar? Á það má láta reyna með því að reyna að kaupa frægt fólk og fá það til að gera eitthvað algerlega í andstöðu við það sem það stendur fyrir. Til dæmis má athuga hvort hægt sé að kaupa John Cleese sem stendur fyrir innihaldsríkan gáfumannahúmor og sjá hvort maður geti látið hann gera eitthvað ófyndið, innistæðulaust og heimskulegt sem hann hefur litlar forsendur til að skilja fyrir peninga. Ef það tekst eru peningar allavega öflugri en frægð Johns Cleese.

Ef okkur tekst að draga John Cleese út í þetta getur virst sem við höfum sannað að peningar séu máttugri en frægð, forn frægð allavega. Höfum við jafnvel sannað: John Cleese hefur lítið innihald og segir það sem maður vill ef maður á næga peninga til að borga honum fyrir það? Ef svo er, höfum við þá sannað að karakter og gildi, sem koma fram í húmor, er einskis virði og það eru peningar sem skapa karakter og gildi en ekki öfugt? Höfum við sem sagt sannað að peningar eru æðsta gildið, og þar með í vissum skilningi, allt? Eða hefur maður, þegar maður hefur sýnt fram á að John Cleese er falur fyrir nægan pening og að maður hafi efni á frægð hans og gæti þess vegna haft hann eins og stofustáss segjandi brandara í partíum ef maður borgaði vel, að þá hafi maður sýnt fram á eigið taktleysi og afhjúpað kúltúrleysi nýríkra sem eru ekki færir um að hugsa lengra í margræðum heimi merkingarinnar og gera því óvart grín að sjálfum sér? Það er fyndið, en var það meiningin að sýna fram á nýju föt bankastjóranna? Það er allavega róttækur húmor að láta þá gera sig að athlægi og borga fyrir það sjálfa. Að því má hlæja óskilyrtum hlátri, ef maður tekur boði Kaupþings og hugsar lengra.

Höfundur er rithöfundur.