80 ár Sæluhús Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi. Húsið var reist árið 1930 og er elsta sæluhús FÍ.
80 ár Sæluhús Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi. Húsið var reist árið 1930 og er elsta sæluhús FÍ. — Ljósmynd/FÍ
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

STÓRAUKIN þjónustu við ferðafólk á hálendinu, miklar framkvæmdir og endurbætur á skálum Ferðafélags Íslands ásamt fjölbreyttu ferðaúrvali er meðal þess sem FÍ býður upp á á þessu ári sem markar stór tímamót í sögu félagsins en félagið er 80 ára á þessu ári.

Félagið var stofnað 27. nóvember árið 1927 og var Jón Þorláksson kosinn fyrsti forseti félagsins. Aðeins þremur árum síðar var fyrsta sæluhús FÍ reist við Hvítárnes og hefur það verið í notkun allar götur síðan. Á afmælisárinu verður staðið fyrir gagngerum endurbótum á húsinu með sérstökum stuðningi frá Alþingi til að friða húsið. "Húsið er í upprunalegri mynd frá byggingarárinu 1930 og er af mörgum talið einskonar vörumerki Ferðafélagsins," segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti FÍ.

"Þetta er þó aðeins hluti af fyrirhuguðum framkvæmdum á vegum félagsins, því við stefnum einnig að því að byggja smáhýsi fyrir ferðafólk í Þórsmörk og í Landmannalaugum verður þjónustan aukin verulega frá því sem nú er. Frá 10. febrúar verður gæsla og hiti hafður á í skálanum í Landmannalaugum og rennandi vatn fyrir sturtuaðstöðu og salernin. Þarna verður því allt önnur og manneskjulegri aðstaða í vetur. Jafnframt verður bætt salernisaðstaðan í Emstrum, við Hagavatn, Hlöðuvelli og víðar. Til viðbótar þessu verður staðið að gagngerum endurbótum í skála FÍ í Nýjadal í samvinnu við Ferðaklúbbinn 4x4. Þetta eru mestu framkvæmdir á vegum FÍ í langan tíma og rótin að þeim eru vaxandi kröfur ferðafólks um þægindi í vinsælustu skálunum þótt ekki sé á neinn hátt verið að hrófla við upplifunum þeirra sem kjósa ögn frumstæðari skilyrði í öðrum fjallaskálum."

Fornbílaferð og sigling á Hvítá

Ferðir FÍ á afmælisárinu eru fjölbreyttar og finna má hefðbundnar Ferðafélagsferðir á Hornstrandir, Laugaveginn, Fimmvörðuháls og fleiri rótgrónar ferðir. "Á þessu ári munum við einnig efna til fræðslu- og dagsferða með sérfræðingum þar sem heimsótt verða svæði sem eru mjög í brennidepli um þessar mundir. Þessar ferðir eru m.a. í Brennisteinsfjöll, Langasjó, Þjórsárver og Ölkelduháls.

Meðal annarra nýjunga má síðan nefna ferð þann 16. júní í samstarfi við Fornbílaklúbb Íslands, í tilefni af því að 100 ár verða liðin frá komu Friðriks VII Danakonungs 1907, leið hans um Kóngsveginn svonefnda um Þingvelli, Gjábakka og Tungur. Hægt verður að kaupa sér far með fornbílunum og á leiðinni verður stansað á Þingvöllum og Laugarvatni og minjar Kóngsvegarins skoðaðar. Þá erum við að skipuleggja siglingu niður Hvítá, sem verður rólegheitasigling með traustum flúðabát, og ekki er gerð krafa um að þátttakendur þurfi að róa eins og í hefðbundinni ævintýrasiglingu. Siglt verður frá Brúará til móts við Skálholt og lýkur ferðinni með grillveislu í Þrastarskógi."

Að sögn Ólafs Arnar hefur félögum í FÍ fjölgað mikið undanfarin misseri og eru nú um 7 þúsund manns félagar. "Það er því mikið líf í félaginu og það er mikið fagnaðarefni. Síðast en ekki síst skal nefnt að Árbók Ferðafélagsins kemur út á næstunni og höfundur hennar að þessu sinni er Jón Torfason sem fjallar um A-Húnavatnssýslu."

Ný heimasíða FÍ hefur verið tekin í notkun og má finna ítarlega ferðadagskrá á vefnum félagsins á slóðinni www.fi.is.