3. febrúar 2007 | Íþróttir | 250 orð

Hannes Jón kominn til Elverum

Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is HANNES Jón Jónsson, handknattleiksmaður, hefur haft vistaskipti.
Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

HANNES Jón Jónsson, handknattleiksmaður, hefur haft vistaskipti. Hann er genginn til liðs við norska úrvalsdeildarliðið Elverum frá danska liðinu Ajax Köbenhavn sem hann gekk til liðs við fyrir einu og hálfu ári síðan. Hannes Jón var samningsbundinn Ajax til 2008 en samningnum var rift og gerði Hannes samning við Elverum sem gildir út leiktíðina.

Fjárhagserfiðleikar hjá Ajax

,,Þetta gerðist mjög hratt. Þegar við komum til baka eftir jólafríið vorum við kallaðir á fund með stjórninni þar sem okkur var tilkynnt að félagið ætti í miklum fjárhagserfiðleikum. Við vorum ekki búnir að fá laun fyrir desember og sú krafa var sett á okkur af stjórninni að við tækjum á okkur launalækkun. Menn í liðinu tóku misjafnlega í það og ég og nokkrir aðrir í liðinu, sem höfum spilað mest og vissum að við ættum möguleika á að komast annað, sögðum þvert nei. Það hefur margt annað verið í ólagi í félaginu og þegar þetta kom upp var ekki annað að gera en að fá sig lausan," sagði Hannes Jón við Morgunblaðið.

Hannes Jón hefur verið í lykilhlutverki með Ajax frá því hann gekk í raðir liðsins frá ÍR. Hann varð markahæsti maður liðsins á síðustu leiktíð og er markahæstur á yfirstandandi tímabili með 61 mark í 14 leikjum.

Hjá Elverum hittir hann fyrir fjóra Íslendinga sem eru á mála hjá liðinu. Axel Stefánsson er þjálfari liðsins og með því leika Sigurður Ari Stefánsson, markvörðurinn Hörður Flóki Ólafsson og Ingimundur Ingimundarson sem lék með Hannesi Jóni hjá Ajax.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.