Í frumvarpi Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, er gert ráð fyrir að meginreglan verði sú að tekið verði gjald fyrir afnot auðlinda í jörðu og vatnsafls, sem er í eigu almennings, þ.e.
Í frumvarpi Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, er gert ráð fyrir að meginreglan verði sú að tekið verði gjald fyrir afnot auðlinda í jörðu og vatnsafls, sem er í eigu almennings, þ.e. í þjóðlendum og á jörðum í ríkiseigu. Þetta er merkur áfangi í að viðurkenna það grundvallarsjónarmið, sem núorðið ríkir um nokkuð almenn sátt, að þeir sem nýti auðlindir í almenningseigu greiði fyrir þau afnot. Auðlindagjald í sjávarútvegi hefur verið innleitt, þótt enn sé það afar lágt. Ef Alþingi samþykkir frumvarp iðnaðarráðherra á það sama við um vatnsafl, jarðhita og aðrar auðlindir í jörðu, sem eru í eigu almennings. Þetta er í samræmi við tillögur auðlindanefndar forsætisráðherra, sem skilaði skýrslu árið 2000. Sú skýrsla var ekki sízt mikilvæg vegna þess að hún lagði grunn að sátt um gjaldtöku í sjávarútvegi. Það skref, sem iðnaðarráðherra stígur nú, styrkir þá sátt enn frekar, því að sjávarútvegurinn á að sjálfsögðu heimtingu á að aðrar atvinnugreinar, sem nýta sameiginlegar auðlindir, sitji við sama borð.

Enn hefur löggjafinn hins vegar ekki fengið færi á að taka afstöðu til þeirra tillagna auðlindanefndarinnar að taka eigi gjald fyrir aðgang að tíðnisviði til fjarskipta og sjónvarps- og útvarpssendinga. Enn er sömuleiðis óklárt hvernig á að verðleggja aðgang að umhverfisgæðum í víðum skilningi, t.d. í þágu ferðamennsku, eins og um var fjallað í skýrslu auðlindanefndarinnar.

Auðlindanefndin velti á sínum tíma upp þeim möguleika að auðlindagjöld yrðu lögð í "sjóð sem almenningur eigi aðild að og varið yrði til að efla þjóðhagslegan sparnað og uppbyggingu."

Umræður um slíkan sjóð hafa farið vaxandi að undanförnu. Fyrir skömmu lagði Víglundur Þorsteinsson iðnrekandi til að allar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar yrðu lagðar í slíkan sjóð, sem almenningi yrði úthlutað hlutabréfum í. Sjóðurinn myndi síðan greiða arð út til hluthafanna.

Jón Sigurðsson ræddi svipaðar hugmyndir í ræðu sinni á svokölluðu Sprotaþingi í síðustu viku og vitnaði, eins og Víglundur, til fordæma frá Alaska. "Ég tel að auðlindasjóður eigi að geta tekið virkan þátt í eflingu þess nýsköpunar- og sprotakerfis sem íslenska þjóðin þarf á að halda. Þá væri arðinum af auðlindum Íslendinga varið til að byggja hér undir framtíðarárangur, og auk þess geta beinar greiðslur til almennings, þegar þannig ber undir, orðið öflug samfélagsstoð," sagði iðnaðarráðherra.

Það er full þörf á umræðum um þessi mál og of snemmt að kveða upp úr um það hver eigi nákvæmlega að vera verkefni auðlindasjóðs. Mestu máli skiptir að þessar umræður fara fram á grundvelli víðtækrar samstöðu, sem orðið hefur til um að arðurinn af auðlindum þjóðarinnar renni til hennar sjálfrar.