7. febrúar 2007 | Aðsent efni | 558 orð | 1 mynd

Frýjunarorð Morgunblaðsins

Árni Finnsson svarar leiðara Morgunblaðsins

Árni Finnsson
Árni Finnsson
Árni Finnsson svarar leiðara Morgunblaðsins: "Náttúruverndarsamtök Íslands munu að sjálfsögðu halda áfram að berjast af öllu afli gegn skemmdum á náttúru miðhálendisins."
Morgunblaðið bendir réttilega á í leiðara sínum þann 5. febrúar að "... enginn efnislegur munur [sé] á því, hvort miðhálendi Íslands er eyðilagt með virkjanaframkvæmdum, vegaframkvæmdum eða hótelbyggingum. Það gildir einu hver framkvæmdin er. Framkvæmdir sem hafa áhrif á hina ósnortnu náttúru miðhálendisins eiga ekki að vera til umræðu."

Þessi afstaða blaðsins er lofsverð og til marks um þær breytingar sem orðið hafa á umræðu um náttúruvernd frá því Náttúruverndarsamtök Íslands voru stofnuð fyrir tæpum tíu árum síðan.

Morgunblaðið studdi Kárahnjúkavirkjun með ráðum og dáð en segir nú í umræddum leiðara að "Í kjölfar hinna miklu umræðna um Kárahnjúkavirkjun má segja að það hafi skapazt nokkuð víðtæk samstaða um að miðhálendi Íslands yrði látið í friði. Andstaða gegn framkvæmdum í Þjórsárverum var og er mjög almenn. Það fer ekki á milli mála að Þjórsárverin verða ekki snert."

Heimamenn í Gnúpverjahreppi og náttúruverndarhreyfingin á Íslandi geta þakkað sér þann sigur. Við bíðum nú eftir að umhverfisráðherra lánist að stækka friðlandið í Þjórsárverum með myndarlegum hætti.

Tilefni leiðara Morgunblaðsins eru hugmyndir Kaupfélags Eyfirðinga, Jóhannesar Jónssonar í Bónus og fleiri fjársterkra aðila um lagningu Kjalvegar. Leiðarahöfundur blaðsins áréttar að "Morgunblaðið hefur lagzt mjög eindregið gegn slíkum framkvæmdum og vakið athygli á því, að þar með yrði hin ósnortna náttúra þessa landshluta eyðilögð. Morgunblaðið hefur líka barizt hart gegn hugmyndum um byggingu hótels við jaðar Langjökuls."

Morgunblaðið hefur á undanförnum misserum tekið æ framsæknari afstöðu í umhverfismálum. Miklu framsæknari en sá flokkur sem blaðið styður, Sjálfstæðisflokkurinn, sem enn hefur ekki sett fram neina trúverðuga stefnu í umhverfismálum. Fyrir utan stuðning við verndun hálendisins gagnvart vega- og virkjanagerð hefur Morgunblaðið lýst andstöðu sinni við hvalveiðar, áréttað nauðsyn ábyrgrar fiskveiðistefnu og varað við loftslagsbreytingum af mikilli einurð.

Það kemur því á óvart að Morgunblaðið kjósi nú að agnúast út í þau samtök og einstaklinga sem hafa um lengri eða skemmri tíma unnið að verndun hálendis Íslands. Blaðið spyr:

"Hvar er Framtíðarlandið nú? Hvar eru náttúruverndarsamtökin nú? Skilja þessir aðilar ekki sinn vitjunartíma? Þeir töpuðu slagnum um Kárahnjúkavirkjun en þeir geta unnið þessa orrustu, sem nú er augljóslega að hefjast. Hvar er Andri Snær nú? Hvar er Ómar Ragnarsson nú? Snýst barátta þessa fólks bara um virkjanir? Er þeim alveg sama þótt hálendi Íslands verði eyðilagt með malbikuðum vegum?"

Í tilefni af þessum orðum vilja Náttúruverndarsamtök Íslands upplýsa að samtökin hafa alla tíð barist gegn lagningu vega á hálendi Íslands. Það kom fyrst fram í ítarlegri umsögn samtakanna um svæðisskipulag miðhálendisins. Náttúruverndarsamtökin beittu sér gegn lagningu Vatnaheiðavegar á Snæfellsnesi, samtökin lögðust gegn lagningu Háreksstaðaleiðar, þau lögðust gegn Gjábakkavegi og þau lögðust gegn vegi um Teigsskóg. Síðast en ekki síst hafa Náttúruverndarsamtök Íslands beitt sér í umræðu um loftslagsmál, auk þess að árétta mikilvægi frjálsra félagasamtaka í umræðu um umhverfismál.

Þó að Náttúruverndarsamtökum Íslands hafi ekki gefist enn ráðrúm til að svara vel undirbúinni kynningu hagsmunafélags um lagningu vegar yfir Kjöl, sunnudaginn 4. febrúar áður en Morgunblaðið gerir það í leiðara daginn eftir, er ekki þar með sagt að þau séu að gefa hugmyndunum þegjandi samþykki sitt. Náttúruverndarsamtök Íslands munu að sjálfsögðu halda áfram að berjast af öllu afli gegn skemmdum á náttúru miðhálendisins svo sem þau hafa gert svikalaust frá upphafi. Morgunblaðið varð í þetta sinn fyrst til að andmæla fyrirhugaðri vegalagningu um Kjöl. Það gefur blaðinu hins vegar ekki rétt til þeirra frýjunarorða sem það viðhafði í fyrrgreindum leiðara.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.