8. febrúar 2007 | Daglegt líf | 678 orð | 4 myndir

Alíslensk hænsni vappa um hlaðið á ítalska bóndabænum

Landnámshani Hænsnin undu sér hið besta í heitri sólinni á Ítalíu.
Landnámshani Hænsnin undu sér hið besta í heitri sólinni á Ítalíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elísa Sigurðardóttir er búsett í Friuli-héraði á Ítalíu. Þegar hún var í heimsókn hér á landi í lok síðasta sumars datt henni í hug að taka með sér hænuegg yfir hafið. Þremur vikum síðar spígsporuðu um hlaðið hjá vinkonu hennar níu alíslenskir ungar.
Þetta er frekar furðuleg tilraun vegna þess að eggin fékk ég beint úr ísskápnum hjá frænku minni og frænda sem eru með alíslenskar landnámshænur og náttúrlega fullkominn íslenskan landnámshana úr 5 stjörnu hænsnakofa Hagakots í Hafnarfirði.

Ég var búin að gæla við þessa hugmynd lengi og lét til skarar skríða nú í lok síðasta sumars þegar ég skrapp í heimsókn til Íslands. Ég byrjaði á því að athuga hvernig væri nú best að koma eggjunum heilu og höldnu alla leið til Ítalíu. Þeir sem best vissu og voru fróðastir um hænsnaræktun sögðu að ég þyrfti fyrst og fremst að útvega mér hitakassa og síðan ætti að raða eggjunum varlega í hann og alls ekki að gleyma að snúa þeim við á þriggja tíma fresti, sem mér fannst eiginlega einum of tímafrekt.

Eftir lendingu á Ítalíu þyrfti síðan að koma eggjunum strax til hænsnabónda sem ætti allar þær græjur er tengjast hænsnabúskap þ.m.t. útungunarvél.

Bölvað rugl

Þegar frænka mín, Guðný Gunnarsdóttir, húsfreyja í Hagakoti í Hafnarfirði, frétti af þessum ráðagerðum hringdi hún í mig og útskýrði að þetta væri bara bölvað rugl, það þyrfti ekkert allar þessar græjur undir eggin.

Ráðin hennar Guðnýjar frænku urðu ofan á og hún safnaði 26 eggjum sem hún setti jafnóðum inn í ísskáp. Daginn fyrir brottför fórum við hjónin að sækja eggin í Hagakot og þar við eldhúsborðið voru eggin tínd ofan í tvo venjulega pappaeggjabakka beint úr ísskápnum.

Síðustu nóttina á Íslandi fóru eggin aftur í ísskáp hjá systur minni í Keflavík og svo snemma morguninn eftir beint upp á Leifsstöð.

Ég hélt á eggjunum í handfarangri alla leið til Ítalíu og snerti ekki við þeim á leiðinni.

Þegar eggin voru loksins lent á Ítalíu var ferðalaginu þó ekki lokið, þar sem ég þurfti að stoppa í Lignano Sabbiadoro sem er í héraðinu þar sem ég bý og þar fóru eggin enn eina ferðina inn í ísskáp í sólarhring.

Eggin komin á ítalska býlið

Loksins rann svo upp sá dagur að eggin kæmust á leiðarenda, það er á hænsnabýlið í Udine hjá þeim Clocchiatti-hjónunum.

Þegar ég mætti þar með fulla körfu af ísköldum alíslenskum hvítum eggjum og svo auðvitað íslenska fánann, hristu Clocciatti-hjónin bara höfuðið og töldu að það væri enginn möguleiki á því að það væri eitthvert líf í þessum eggjum eftir hið mikla ferðalag auk allrar þessarar kælingar.

Á hænsnabýlinu þeirra Clocchiatti-hjóna voru tvær myndarlegar ítalskar hænur nýlagstar á sín egg og leist þeim nú ekkert sérlega vel á það þegar þeirra egg voru fjarlægð og snjóhvítum, ísköldum eggjunum frá norðurslóðum skellt undir þær.

Eftir hagræðingu og smágagg var allt orðið ljúft og rólegt í hænsnakofanum á Clocchiatti-bæ.

Nú var bara að bíða og vona næstu þrjár vikurnar að íslenskir kjúklingar fengju að líta dagsins ljós.

Pottþéttar hænur

Það er sko satt að ítalskar mömmur eru alveg pottþéttar og þessar tvær hænur sem tóku að sér móðurhlutverkið lágu grafkyrrar og stóðu ekki einu sinni upp til að næra sig. Bóndakonan varð að færa þeim fóður og vatn alveg upp að gogg og þannig átu þær liggjandi í 21 dag.

Nákvæmlega þá fékk ég sms-skilaboð snemma morguns sem hljóðuðu svo: "Iceman is born." Þetta tókst. Fyrsti unginn var skriðinn úr egginu. Ég dreif mig á hænsnabýlið og þegar þangað var komið voru fjórir ungar komnir í heiminn. Eggin höfðu verið 26 en tvö brotnuðu á leiðinni svo nú voru þau 24. Ungarnir urðu níu talsins.

Nokkrum dögum seinna kom í ljós að þetta voru fimm hanar og fjórar hænur sem undu sér hið besta í heitri sólinni á Ítalíu og hænsnamamman ítalska var alveg ótrúlega þolinmóð og upptekin að kenna þeim ítalska hætti og siði.

Þegar ungarnir voru mánaðargamlir völdum við hjónin úr hópnum einn hana og tvær hænur sem í dag mynda stofninn að íslenskri landnámshænsnarækt á Ítalíu og búa við mjög gott atlæti hjá þeim Clocchiatti-hjónum.

Hinir ungarnir sex tóku lífinu létt og blönduðu sér í félagsskapinn með þeim ítölsku og njóta einnig lífsins í góðu yfirlæti.

Þegar mig vantar alíslensk snjóhvít egg í baksturinn skrepp ég bara í heimsókn á Clocchiatti-bæ. Þvílíkur lúxus.

Höfundur er búsettur á Ítalíu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.