9. febrúar 2007 | Minningargreinar | 6213 orð | 1 mynd

Hallgerður Gísladóttir

Hallgerður Gísladóttir, cand. mag., fagstjóri Þjóðháttasafns á Þjóðminjasafni Íslands, fæddist í Seldal í Norðfirði 28. september 1952 og ólst þar upp. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 1. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Gísli Friðriksson bóndi í Seldal, f. 1909, d. 1998, og Sigrún Dagbjartsdóttir, f. 1918. Börn þeirra voru níu, Hallgerður var miðjubarnið í hópnum. Guðríður var elst, f. 1940, d. 2006, Elsa Sæný, f. 1942, d. 1974, Páll, f. 1946, d. 1990, Ína Dagbjört, f. 1949, Friðrik, f. 1953, Jóhanna, f. 1956, Hulda, f. 1958, og yngst er Stefanía Guðbjörg, f. 1959.

Eiginmaður Hallgerðar er Árni Hjartarson jarðfræðingur. Þau eignuðust þrjú börn; Sigríði, f. 1975, d. 1997, Guðlaug Jón, f. 1979, og Eldjárn, f. 1983.

Eftir skyldunám og landspróf á Norðfirði hélt Hallgerður til Danmerkur og sat í Silkeborg Husholdningsskole 1969–70. Síðan settist hún í MR og varð stúdent þaðan 1974. Þá hélt hún til Kanada og nam mannfræði og sögu við Manitóbaháskóla í Winnipeg 1974–75, tók síðan BA-próf í sagnfræði við HÍ árið 1981 og lauk þaðan cand. mag.-prófi 1991. Sérgrein Hallgerðar var saga íslenskrar matreiðslu og matarhátta og þróun eldhússins. Árið 1999 kom út bók hennar Íslensk matarhefð en fyrir það verk fékk hún viðurkenningu Hagþenkis, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut fleiri viðurkenningar. Hún hefur ritað fjölda fræðigreina í innlend og erlend tímarit og bækur sem of langt er upp að telja. Í samvinnu við Steinunni Ingimundardóttur gerði hún þáttaröð fyrir Sjónvarpið um matargerð í eldri tíð og aðra þáttaröð gerði hún um jól á Íslandi fyrr og nú. Einnig kom hún að gerð heimildamyndar um manngerða hella á Íslandi með Árna Hjartarsyni og Guðmundi J. Guðmundssyni. Hún sá um fjölmarga þætti í útvarpi um matarhætti og hefðir og oft leituðu fjölmiðlar til hennar um slíkan fróðleik, einkum á þorra og jólaföstu.

Hallgerður starfaði lengst af á Þjóðminjasafninu, varð deildarstjóri þjóðháttadeildar 1995 og síðar fagstjóri þjóðháttasafns. Hún kom að ýmsum sýningum safnsins s.s. Hvað er á seyði? Eldhúsið fram á okkar daga og brúðkaupssýningunni Í eina sæng. Hún var ein af þeim sem byggðu upp hinar nýju og rómuðu sýningar Þjóðminjasafnsins, var þar ritstjóri margmiðlunarefnis og einn af aðalhöfundum grunnsýningartextans. Hún ritstýrði og skrifaði, ásamt Sigrúnu Kristjánsdóttur, bókina Í eina sæng; Íslenskir brúðkaupssiðir.

Hallgerður kenndi sérgrein sína í stundakennslu við HÍ og víðar og flutti fyrirlestra innanlands sem utan. Hún stundaði einnig hellarannsóknir ásamt manni sínum og Guðmundi J. Guðmundssyni sagnfræðingi og gaf út bókina Manngerðir hellar á Íslandi í framhaldi af því.

Hallgerður starfaði með rauðsokkum og sá um skeið með fleirum um rauðsokkusíðu Þjóðviljans, hún var formaður Félags íslenskra fræða, kjaradeildar 1999–2001, sat í stjórn Umsjónarfélags einhverfra og var stjórnarmaður í Kvæðamannafélaginu Iðunni.

Hallgerður var skáld, birti ljóð sín í tímaritum og hlaut viðurkenningar fyrir þau. Ljóðabók hennar, Í ljós, kom út 2004. Nokkur ljóða hennar birtust í þýska bókmenntatímaritinu Die Horen 2006 í þýðingu Franz Gíslasonar og Wolfgangs Schiffers.

Hallgerður verður jarðsungin frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Það var í janúar á síðasta ári að ég kom í frí til Íslands ásamt Gavin og Sebastian. Við urðum þeirrar gleði aðnjótandi að vera stödd hjá Höllu þegar þær fréttir bárust að krabbameinið væri horfið. Hún var þó enn mikið veik eftir langa og harkalega meðferð. Við kvöddum landið vonglöð.

yfir spegilsléttum

sjónum

flögrar bláklæddur

engill

engin ógn sjáanleg

en skjótt skipast veður í lofti

Í júní berast þær hörmungarfréttir að Gurra elsta systir okkar hafi greinst með ólæknandi krabbamein. Í kjölfarið, ekki miklu meira en viku seinna, greinist Halla með krabbamein í þriðja sinn. Mánuði seinna er Gurra látin. Halla berst áfram fyrir lífi sínu.

Halla var í miðjunni í níu barna hópi, sjö árum eldri en ég. Hún var alltaf stóra systir mín. Friðrik var næstur á eftir henni í systkinaröðinni. Voru þau samrýnd og fylgdust mikið að bæði í Seldal og í gegnum menntaskólaárin í Reykjavík. Það var ekki lognmollan í kringum þau og saman settu þau á svið ýmsa skemmtan fyrir okkur yngri systurnar, svo sem að safna okkur saman á kvöldin í innstakróknum, en það var herbergi sem við þrjár yngstu systurnar sváfum í, og segja kynngimagnaðar draugasögur sem voru spunnar upp jafnóðum og þær voru sagðar. Útbúnaði hafði verið komið fyrir í fataskápnum. Það var kippt í spotta á viðkvæmum stað í sögunni og sjálflýsandi glyrnur komu í ljós er skápurinn opnaðist. Hrollur fór um okkur. Daginn eftir þorði ég ekki ein á klósettið í dagsbirtu og hét því að taka ekki þátt næsta kvöld, en það fyrirheit varð að engu og inn fór ég aftur til að fá í mig meiri hroll.

Ég minnist þess að þurfa á hárklippingu að halda. Halla skellti skál á höfuðið á mér og klippti meðfram börmunum. Ég leit með skelfingu í spegilinn eftir á og lokaði mig inni á klósetti og brynnti þar músum, því ég vildi ekki láta Höllu sjá að ég væri óánægð með klippinguna. Nokkru seinna fékk ég að fara með Höllu út á Sæsilfur að salta síld. Í hádeginu fórum við á hótelið í mat. Þar voru tvær stúlkur að framreiða og spurðu mig hvort ég væri stelpa eða strákur. Þegar ég svaraði að ég væri stelpa fóru þær að hlæja. Þetta vafamál tengdist allt klippingunni góðu og í dag finnst mér þetta bráðskemmtileg endurminning og eitthvað svo Hölluleg. Hún lét hlutina aldrei vefjast fyrir sér og var ekkert að ragast yfir smámunum. Hún átti ráð við öllu.

Ég flyst suður til Reykjavíkur 1977. Eftir nokkurn tíma í leiguherbergi, sem mér þótti óhemju einmanaleg vist, er ég tekin inn í kommúnuna í Skólastræti 5B þar sem Halla og Árni búa ásamt Siggu. Ég er þar í ár og fylgi svo Höllu og Árna næstu sjö árin, fyrst á Grundarstíginn og svo upp í Háagerði þar sem þau búa ásamt Imbu Hafstað og Þórunni dóttur hennar. Gulli hefur einnig bæst í hópinn. Eldjárn fæðist eftir að ég flyt frá þeim. Ég verð ein af fjölskyldunni. Þessi ár voru einstaklega skemmtileg og ómetanlegur kafli í minningasjóðnum.

Halla var mikil baráttukona. Hún fór í gegnum menntaskólann og háskólann af þeim krafti sem einkennir þá sem vita hvert þeir ætla og láta ekkert eyða fasthyglinni þrátt fyrir oft á tíðum bágan efnahag. Hún var mikil og góð fræðimanneskja og ljóðskáld og hafði undravert vald á íslenskri tungu. Ég sagði stundum við hana að hún hefði röntgensjón á íslenskt mál. Hún fór alltaf yfir ljóðin mín. Mér fannst ekkert ljóð vera fullbúið fyrr en Halla var búin að lesa það yfir. Hennar næmi kenndi mér margt og bý ég að því í framtíðinni. Ég hugsa til þess með sárum söknuði að geta ekki lengur leitað til hennar. Hún var stóra systir mín í því sem fleiru.

Ég trúi því að framlag Höllu til safna og ritstarfa skili komandi kynslóðum ríkum arfi. Hún hafði bara svo mikið eftir að gefa á þeim sviðum sem öðrum. Óskiljanlegt að hún skyldi ekki fá að vera hjá okkur lengur.

Ef ég ætti að lýsa Höllu í fáeinum orðum kemur fyrst upp í hugann hvað hún var góð og notaleg manneskja og náði sambandi við fólk af öllum gerðum. Hún var alin upp í sveitasamfélagi og hennar fræðimannavinna tengdist mikið þeim bakgrunni. Þar átti hún heima. Hún var allstaðar aufúsugestur, enda skildi hún þennan arf frá fyrstu hendi. Halla var hógvær manneskja. Hún tranaði sér ekki fram, þó að ýmislegt væri sótt til hennar vegna hæfileika og fróðleiks sem hún bjó yfir. Hún hafði yndislegan húmor. Upp úr henni ultu gullkornin stundum án afláts og þann eiginleika varðveitti hún til hins síðasta. Hún kom okkur ósjaldan til að hlæja þar sem við sátum við sjúkrabeð hennar eða töluðum við hana í síma, þó að allt annað en hlátur væri upp á teningnum. Hún var trygg og trú sinni fjölskyldu fyrir austan, sínum arfi, þótt hún flytti burtu ung og alla tíð var gott og náið samband heim. Þessi tengsl voru gagnkvæm. Uppruni fólks og sameiginleg reynsla uppvaxtaráranna skapa órjúfanleg tengsl sem ekki báru skaða þó að í kringum hana skapaðist stór nýr vinahópur og tengdafjölskylda. Börnin hennar og Árni áttu þó hjarta hennar öðrum fremur. Halla hafði eðlislæga réttlætiskennd sem kom jafnt fram í daglegu lífi hennar og pólitískum skoðunum. Hún var heil og kom til dyranna eins og hún var klædd.

Fjölskyldan í Sörlaskjóli hefur fengið meira en lítinn skerf af áföllum lífsins. Halla greindist með krabbamein í fyrsta sinn í kringum '92, en komst yfir það á rúmu ári. Sameiginlegt verkefni fjölskyldunnar að ala upp fatlað barn var leyst af hendi með umburðarlyndi og þolinmæði. Í lok árs '97 er Sigga hrifin í burtu öllum að óvörum. Hvað er sosum hægt að gera annað en að bíta á jaxlinn og halda áfram.

Fyrir tæplega tveimur árum greindist Halla svo með krabbamein í annað sinn. Hennar barátta fyrir lífinu hefur verið óslitin síðan. Hún sýndi sem fyrr hvaða styrk hún hafði yfir að búa. Það var aldrei á döfinni að gefast upp, hversu veik sem hún var, og oftast var stutt í húmorinn. Löngunin til að lifa var gífurleg. Hún hafði svo mikið að lifa fyrir, fannst svo gaman að lifa. Hennar barátta og allra sem í kringum hana voru dugði ekki til að bjarga henni frá þeim örlögum sem voru henni ætluð. Hversu smá og vanmegnug við erum þegar hinn slyngi sláttumaður hefur gert upp hug sinn.

Það er erfitt að hugsa sér Höllu og Árna aðskilin. Þau voru sem eitt, hjón og vinir, áttu sálufélag í flestu sem þau tóku sér fyrir hendur. Áhugaefni annars var oftast áhugaefni beggja. Gulli og Eldjárn mæta nú öðru stóráfallinu í lífinu þótt þeir séu ungir að árum. Þeir horfa á bak kærri móður sem bar hag þeirra ævinlega fyrir brjósti.

Hugur minn er heima á þessari stundu hjá öllum þeim sem syrgja Höllu og hafa lagt henni og fjölskyldu hennar lið í langvarandi veikindum. Hjá mömmu sem nú fylgir fjórða barninu sínu til grafar, Nonna sem hefur verið okkur sem faðir, systkinum mínum, mökum þeirra og börnum, hjá fjölskyldu Árna, fjarskyldari ættingjum okkar og öllum þeim góðu vinum sem Halla átti. Ég hugsa einnig til Obbu og Bjarndísar sem eru að festa sig í sessi í fjölskyldunni. En þrátt fyrir að sorg okkar risti djúpt eru það Árni, Gulli og Eldjárn sem eiga um sárast að binda. Ég leita að huggunarorðum, en finn engin. Bið þess eins að þið finnið ljósið milda sem lýsir í sorginni.

Allt lífið erum við að velja. Mitt val að setjast að í fjarlægri heimsálfu hefur orðið þess valdandi að ég hef mestmegnis verið áhorfandi þótt ég hafi ekkert þráð frekar en að geta rétt hjálparhönd, að fá að sitja við rúmið og halda í höndina á henni síðustu dagana, að vera með henni og ykkur öllum, að fylgja henni síðasta spölinn. Ég er þó ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að sækja hana heim tvisvar á síðasta ári. Meira get ég ekki farið fram á.

Þegar ég talaði við hana síðastliðinn aðfangadag sagði hún við mig: Það er búið að spila næstum öll íslensk jólalög sem til eru í útvarpinu í morgun nema uppáhaldslagið mitt Jólahjól. Ég fékk kökk í hálsinn. Fannst þetta svo táknrænt fyrir hennar stöðu. Ekki hægt að gefa henni það eina sem hún þráði, bata. Þegar Zoe dóttir mín fór heim núna í janúar sendi ég hana með geisladisk til Höllu með laginu Jólahjól á. Zoe varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera nálægt henni í lokakaflanum og hitta hana heima síðustu klukkustundirnar áður en hún fór í sína hinstu spítalalegu. Hún var þá orðin fárveik af lugnabólgu. Ég efast um að hún hafi hlustað á uppáhaldsjólalagið sitt, enda ekki á mínu færi frekar en annarra að uppfylla það sem sem hún og við öll þráðum mest.

Af veikum mætti hef ég reynt að vera henni einhver styrkur úr fjarlægð, en eins og alltaf er það hún sem hefur verið mér andagift. Hún er hetjan mín. Ég hef aldrei þakkað henni né endurgoldið sem vert væri árin sem þau Árni fóstruðu mig og of seint að fást um það núna.

Hluti af mér fagnar því að hún skuli vera frjáls úr viðjum síns veika og hrjáða líkama. Ég sé dyrnar opnast. Þar bíða ótal ættingjar endurfundanna. Hönd í hönd ganga þær Sigga á vit nýrra ævintýra. Hún er komin þangað sem leið okkar allra liggur. Hún er komin heim. Vertu sæl systir þar til við hittumst aftur.

sé þig gráföla

í hvítu sjúkrarúmi

fólkið í kring

áhorfendur að

sjónleik dauðans

þitt stríð

þitt

bara þitt

ekki hægt

að taka hendi

og segja:

ég fylgi þér

á leiðarenda

við dyrnar kveðjumst við

dyrnar

sem eru þér einni

opnaðar

ég bið þess í hljóði

að þú hrasir ekki

um þröskuldinn

að þú svífir létt

og óttalaust

inn í stjörnubjarta nóttina.

Stefanía Gísladóttir.

Við systur höfum þekkt Höllu allar götur frá því að hún kynnntist Árna bróður okkar. Upp í hugann kemur mynd af glæsilegri ungri konu með mikið ljóst hár. Hún var að austan. Það hefur sennilega ekki verið auðvelt fyrir Höllu að blandast inn í fjölskyldu okkar í byrjun, þessa stóru fjölskyldu þar sem samkeppnin um athyglina var oft mikil. En Halla var fljót að aðlagast og öðlast sinn sess í hópnum – með visku valkyrjunnar í farteskinu. Það var alltaf mikill gleðskapur í kring um Árna og Höllu. Eftirminnilegar eru allar matarveislurnar í gegnum árin. Á einhvern undraverðan hátt tókst Höllu alltaf að töfra fram dýrindis veisluborð, oft með engum fyrirvara. Mátti þá gjarnan sjá þjóðlegar kræsingar á borðum, stundum með ítölsku antipasta eða spænskum tapasréttum í bland. Þessum veisluhöldum fylgdu alltaf söngur og gleði og Halla kunni alla textana og lögin, hvort sem um var að ræða rokk eða rímnakveðskap. Um það leytið sem Halla veiktist vorum við systur ásamt nokkrum öðrum völdum konum að planleggja ferðalag um Evrópu með rímnaprógramm. Kvæðakonan góða, kölluðum við okkur. Var Halla foringi hópsins. Ætluðum við að kveða rímur á götuhornum helstu borga Evrópu og um leið og við kynntum þannig þjóðararf okkar sáum við fram á hina bestu skemmtiferð. Við höfðum farið á námskeið í rímnakveðskap, lagst í rannsóknarvinnu og safnað saman dágóðu rímnasafni eftir íslenskar kvæðakonur um ástir og daglegt amstur. Við vorum byrjaðar að velja vísurnar og finna við þær réttu lagboðana. Við sáum fyrir okkur sviðsetninguna; við skyldum vera í þjóðlegum búningum og halda uppi spjaldi með skýringum um kvæðin og höfunda. Við höfðum engar áhyggjur af fjármögnun ferðarinnar því við vorum vissar um að við myndum fylla peysufatahúfurnar af skotsilfri frá þakklátum vegfarendum á hverju götuhorni. Þó svo foringinn sé fallin látum við ekki deigan síga. Í minningu Höllu verður þessi ferð farin. Þó svo við sjáum hana ekki á meðal okkar, þar sem við stöndum á framandi torgum og kveðum af raust, munum við finna fyrir henni í hjörtum okkar og heyra í henni í hlustum okkar og þar með tryggir hún það að allt verður rétt með farið. Okkur finnst því vel við hæfi að kveðja kæra mágkonu, þjóðháttafræðinginn og kvæðakonuna góðu með nokkrum vísum eftir Ólínu Andrésdóttur þar sem hún yrkir um hversdagsstörfin:

Ég hef frammi í klettakór

kindur sótt og rekið

mjólkað kýr og mokað flór

moð úr básum tekið.

Tínt hef ber og títt í vind

tölt um móabörðin

hleypt í skyr og hellt á grind

hirt og klofið svörðinn.

Þó gæfist mér ei gull í mund

og grátt mig léki þörfin

ég hef marga yndisstund

átt við hversdagsstörfin.

Ingibjörg, Sigrún og

Steinunn Hjartardætur.

Langt er orðið síðan Hallgerður kom inn í fjölskyldu mína. Hún var fyrsta kærastan hans Árna bróður svo ég vissi. Þetta var stór og stæðileg sveitakona austan af landi, frekar undirleit og feimin. Það kom í ljós að hún lumaði á ýmsu að austan, frásögnum, vísum og ljóðum, var greinilega límheili á slíkt. Hún kom úr gróinni sveitamenningu. Tungutakið var kjarngott og sýndi skarpan skilning og frumlega kímnigáfu. Hún sló samt ekkert í gegn strax og maður kynntist henni bara hægt og hægt. Halla og Árni voru ung og tóku að móta hvort annað. Mjög ólíkar manneskjur sem fengu þó smám saman líkt lífsviðhorf og smekk, og svipaðan húmor. Þau voru alltaf samlynd og æ því meir sem árin liðu eins og gerist í góðum hjónaböndum. Heppilegt var að bæði voru félagslynd og þau eignuðust marga og afar trygga vini. Hús þeirra var alltaf opið og enginn hinna mörgu gesta virtist nokkru sinni trufla þau. Fyrir utan að reka heimilið og ala upp börnin gerðu þau æði margt saman: vinstripólitík, áhugaleiklist, söngur, rímnakveðandi. Ekki síður útivist og ferðalög um landið, gangandi og akandi, nutu sín þá vel, fræðandi hvort annað og aðra um sögu þjóðar og náttúru. Rugluðu m.a.s. saman fræðigreinum sínum þegar þau skrifuðu saman bók um manngerða hella.

Þetta segir svo sem fátt enda mega orð sín lítils. Þau liðu svona árin, þrjátíu og rúmlega það, við leik og starf og súrt og sætt. Þá tók sig upp gamalt krabbamein og útlitið varð dökkt á læknamáli. En Halla æðraðist ekki og þau hjón ræddu ekki um dauðann. Þau tóku ákveðna stefnu á líf og héldu henni alla tíð. Með þrítugan hamarinn gapandi á aðra hlið hafa þau gengið áfram, samstiga sem aldrei fyrr, og tekið þátt í samfélaginu eins og kraftar hennar leyfðu. Þau fóru ótal ökuferðir, langar og stuttar, um landið. Halla sagði að sér liði vel í bílnum. Þau stunduðu stíft kvikmyndahús, leikhús, tónleika og annað það sem huganum lyftir. Það er til marks um þetta viðhorf að fram eftir janúar síðastliðnum stefndi hún að því að halda upp á áttræðisafmæli tengdamóður sinnar á Kanaríeyjum. Það tókst þá ekki. Að þessu loknu má þakka fyrir gjöfular samvistir og segja með Jónasi:

Hvað er langlífi?

Lífsnautnin frjóva,

alefling andans

og athöfn þörf...

Þórarinn Hjartarson.

Halla var konan sem kunni svo margt og mundi allt. Hún var vísna- og sagnasjóður. Hún kunni alla söngtexta utan að, gamla sem nýja, góða sem vonda. Öll erindin. Á gleðistundum hætti það aldrei að vekja undrun. Alltaf mátti spyrja hana um fræðin og hún átti svörin: Hvenær fóru Íslendingar að drekka te? Hvað er döndull eiginlega?

Halla menntaði sig vel, náði góðum árangri í fræðum sínum og hlaut mikinn hljómgrunn meðal leikra sem lærðra. Hún var áhugasöm eljumanneskja og skilaði drjúgu verki. Þess njótum við öll um ókomna tíð þó sárt sé að hugsa til alls þess sem hún ætlaði sér en auðnaðist ekki að ljúka. Fráfall hennar á besta aldri er óbætanlegur skaði fyrir íslenska þjóðmenningu.

Ljóðabókin hennar, Í ljós, kom út hjá Sölku 2004 og er óhikað ein af bestu ljóðabókum síðari ára á íslensku. Bók sem kom á óvart þeim sem ekki þekktu höfundinn og gaf fyrirheit um meira.

Mest er þó eftirsjáin að Höllu sjálfri, heilindum hennar og hlýju, glaðværð og velvild. Fyrir því finna þeir nú sárast sem hún elskaði heitast og unnu henni mest: Árni maðurinn hennar, besti vinur hennar og samherji í blíðu og stríðu, synirnir Guðlaugur og Eldjárn, móðir hennar Sigrún, systkini, frændfólk, tengdafólk og vinir.

Við sendum þeim öllum samúðarkveðjur og hlýjar hugsanir.

Unnur og Þórarinn.

Í dag kveðjum við kæra samstarfskonu, Hallgerði Gísladóttur, fagstjóra þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands. Hallgerður var mikilsmetinn fræðimaður og liðsmaður Þjóðminjasafnsins, og bar hróður þess víða. Árið 1982 var Hallgerður fastráðin við Þjóðminjasafn Íslands og árið 1995 tók hún við stöðu deildarstjóra þjóðháttadeildar og síðar fagstjóra þjóðháttasafns, sem hún gegndi til dauðadags.

Hallgerður hóf fyrst störf fyrir Þjóðminjasafnið árið 1976 er hún tók þátt í söfnunarátaki þjóðfræða. Smám saman tók eitt svið öðrum fremur hug hennar fanginn, en það var matarmenning íslensku þjóðarinnar. Hún vann að viðamikilli söfnun fróðleiks um forna matarhætti og var alla tíð í farsælu sambandi við heimildarmenn safnsins sem skiptu hundruðum. Þannig öðlaðist hún yfirgripsmikla þekkingu á hinum mörgu sviðum þjóðháttanna um leið og hún styrkti tengsl Þjóðminjasafnsins við landsmenn. Fyrir störf sín á þessu sviði er Hallgerður þekkt langt út fyrir landsteinana.

Hallgerður náði miklum árangri á sérsviði sínu og var jafnan reiðubúin að takast á við ný verkefni af fagmennsku, dugnaði og frjórri hugsun. Hún miðlaði þekkingu sinni og árangri rannsókna á margvíslegan hátt. Hún flutti víða fyrirlestra, skrifaði fjölda greina og sá um útvarps- og sjónvarpsþætti um sérsvið sitt. Aðalrit Hallgerðar, Íslensk matarhefð, kom út árið 1999. Það var tilnefnt til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut viðurkenningu Hagþenkis og Bókasafnssjóðs höfunda. Samhliða starfi sínu við Þjóðminjasafn Íslands var Hallgerður stundakennari á sínu sérsviði við Háskóla Íslands og átti þannig ríkan þátt í því að efla tengsl Þjóðminjasafnsins og Háskólans.

Auk árangurs hennar á sviði rannsókna, safnastarfs og ritstarfa var framlag hennar við gerð hvers kyns sýninga á vegum Þjóðminjasafnsins ómetanlegt. Hæst ber þar þátt hennar við undirbúning opnunar Þjóðminjasafns Íslands á ný árið 2004. Þar gegndi hún afar ábyrgðarmiklu hlutverki við mótun nýrrar grunnsýningar safnsins. Hún ritstýrði margmiðlunarefni sýningarinnar og var einn aðalhöfundur grunnsýningartextans. Þáttur hennar í því krefjandi verkefni verður seint fullþakkaður. Jafnframt ritaði Hallgerður vandaða grein í grunnrit Þjóðminjasafnsins, Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni, sem kom út við opnun grunnsýningarinnar. Auk þess ritstýrði og ritaði hún í bókina Í eina sæng. Íslenskir brúðkaupssiðir, sem út kom árið 2004 með sérsýningu safnsins í Bogasal sama ár.

Hallgerður var mikilsmetinn safnamaður og fræðimaður. Auk þess sem áður er nefnt kom hún að rannsóknum á manngerðum hellum, tók þátt í leiklistarstarfi, var ljóðskáld og lagði sitt af mörkum í varðveislu á kveðskap og rímum. Þannig kom Hallgerður víða við á sínum ferli, sem brautryðjandi og fagmaður með góða yfirsýn og þekkingu.

Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands þakka ég Hallgerði Gísladóttur fyrir hennar merka og framúrskarandi framlag til þjóðminjavörslu og þjóðháttafræða á Íslandi. Ævistarf hennar er umfangsmikið og sýnilegt. Einnig vil ég þakka fyrir gefandi samstarf og vináttu. Fyrir hönd samstarfsmanna votta ég eiginmanni hennar, Árna Hjartarsyni, og sonum þeirra, Eldjárni og Guðlaugi Jóni, mína dýpstu samúð.

Heiðruð sé minning Hallgerðar Gísladóttur.

Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands,

Margrét Hallgrímsdóttir.

Við andlát Hallgerðar Gísladóttur er þungur harmur kveðinn að fjölskyldu hennar og vinum. Hún var mannkostum búin, glæsileg kona að allri gerð, sem stóð djúpum rótum í íslensku umhverfi og menningu. Ung að árum lagði hún rækt við íslenskar fornbókmenntir og las af kappi um þær Brynhildi Buðladóttur og Guðrúnu Ósvífursdóttur, formæður sínar, og gott þótti henni á þeirri tíð að ræða um Egils sögu og Njáls sögu. Var þá viðbúið að hún legði stund á íslensk fræði.

Í fyllingu tímans skipaði Hallgerður sér í fremstu röð íslenskra þjóðháttafræðinga, gerðist mikilvirkur rannsakandi og kynnti niðurstöður sínar í vönduðum bókum og fjölda ritgerða sem birtust í blöðum og tímaritum, bæði heima og erlendis. Þættir hennar í ljósvakamiðlum um þjóðháttafræði vöktu athygli og nutu vinsælda. Höfuðeinkenni á vísindaritum Hallgerðar eru meðal annars þau að í stað þess að vera tyrfin eru þau bráðskemmtileg aflestrar. Þar fellir höfundur sinn eigin húmor jafnvel í fyrirsagnir ritgerða. Árið 1999 var bók hennar Íslensk matarhefð, sem er vísindarit, útnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Segir það sína sögu. Freistandi væri að ætla að hér gæti áhrifa frá forníslenskum bókmenntum, þar sem jafnræði vísinda og frásagnarlistar var til prýði. Hitt er þó sennilegra að samræmi þessara þátta í ritverkum Hallgerðar beri öðru fremur með sér eiginleika og upplag sjálfs höfundarins.

Hallgerður var ljóðskáld, eins og bók hennar Í ljós frá árinu 2004 er til vitnis um. Ekki má heldur gleyma ljóðum, rímuðum eða órímuðum eftir atvikum, sem hún færði ekki til bókar en orti þó inn í hug samferðafólks síns sem varðveitir þau í minningunni.

Við Margrét minnumst Hallgerðar með þakklæti. Hér í Kanada dvaldist hún um skeið sjálfri sér og íslenskri þjóð til sóma. Við sendum fjölskyldu hennar samúðarkveðjur. Gott verður að minnast hennar.

Haraldur Bessason.

Við andlát Hallgerðar vinkonu minnar verða öll orð fátækleg.

Við kynntumst sumarið 1971 í sumarvinnu í Hótel Reynihlíð við Mývatn, þar sem við vorum herbergissystur. Mér leist strax vel á Höllu, eins og hún var alltaf kölluð. Hún var stór og myndarleg stúlka, hafði fallegt ljóst hár og hreinan og einarðan svip. Við vorum jafnaldra, 19 ára gamlar, og áttum margt sameiginlegt. Okkur dreymdi um betri heim og vorum innilega hneykslaðar á auðhyggju og óréttlæti í samfélaginu. Leiðir okkar lágu áfram saman. Halla kynntist raunar manninum sínum, honum Árna, í gegnum mig, og tel ég mér það hiklaust til tekna og ætla að tíunda við Gullna hliðið ef ég næ þangað. Á seinni árum vorum við vinkonurnar svo gæfusamar að deila ýmsum áhugamálum. Við stunduðum útivist, oft tvær saman, eins mikið og við gátum og höfðum jafnan miklar áætlanir í gangi á því sviði.

Halla var sagnfræðingur að mennt, eins og aðrir munu vafalaust gera betri grein fyrir. Starf hennar varð til að glæða áhuga minn á sagnfræði, einkum sögu íslenskrar þjóðar. Eitt sumar vann ég hjá henni við spurningasöfnun á vegum þjóðháttadeildar. Löngu síðar skemmtum við okkur vel saman þegar hún aðstoðaði mig við öflun heimilda í grein sem ég skrifaði um sögulegt efni af heldur óhugnanlegum toga: morðmál, aftökur og beinauppgröft í Húnavatnssýslum norður. Við stallsystur fórum skemmtilega "rannsóknarferð" þangað. Við heimsóttum fólk á Vatnsnesi og í Sveinsstaðahreppi, stóðum í kirkjugarði í haustslagveðri og á Þrístöpum í draugalegu rökkri. Margt fleira höfðum við áætlanir um að bralla saman. Bók um útivist var þar efst á blaði, það veitti okkur kærkomna afsökun til að stinga af frá hversdagsskyldum út í náttúruna: nú hét slíkt athæfi vinnuferð. Sömuleiðis hafði starfssvið mitt í öldrunarhjúkrun þróast á þann veg að við sáum fram á ýmis samstarfstækifæri tengt því.

En veikindin komu, snöggt og óvægin. Halla barðist hetjulega við krabbameinið. Markmið hennar var auðvitað að ná bata, en ekki síður að lifa með þeirri reisn sem sjúkdómsástandið frekast leyfði. Og þeim árangri náði hún, oft svo að allir viðstaddir undruðust.

Árni stóð þétt við hlið konu sinnar í þessari baráttu og virtist hafa fleiri stundir í sólarhringnum en aðrir menn. Í miðjum veikindunum gaf hann út vandaðan hljómdisk með lögum og ljóðum eftir sjálfan sig. Það var glæsileg yfirlýsing andspænis veikindum og yfirvofandi dauða. Ógleymanlegir verða útgáfutónleikarnir hans sem Halla sat, þó þróttur og heilsa leyfði það varla.

Að Höllu stendur fjölmenn fjölskylda og tengdafjölskylda og auk þess stór vinahópur. Allir syrgja nú vin í stað. Nú eru aðeins minningarnar eftir og söknuðurinn er sár. Innilega samúð votta ég Árna vini mínum og sonum þeirra Höllu, Gulla og Eldjárni ásamt unnustum þeirra. Sömuleiðis Sigrúnu móður hennar sem nú sér eftir fjórða barni sínu, systkinum hennar, fjölskyldu allri og tengdafjölskyldu.

Sigrún Huld Þorgrímsdóttir.

Hallgerður Gísladóttir var einn af mörgum traustum starfsmönnum, sem Þjóðminjasafnið hefur haft þá gæfu að hljóta. Hún starfaði þar um langt árabil, nánast alla starfsævi sína, fyrst sem lausráðinn starfsmaður við þjóðháttasöfnun í þjóðháttadeild safnsins, síðan varð hún fastur starfsmaður deildarinnar og loks veitti hún henni forstöðu frá árinu 1995.

Hallgerður var búin þeim kostum, sem góður safnmaður og starfsmaður þarf að hafa. Hún var sérfróð um mörg svið íslenzkrar þjóðmenningar, hafði hlotið háskólamenntun bæði vestan hafs og hér heima, hún var samvizkusöm og starfsöm, stofnunarholl og átti góðmannleg samskipti, sem er mikilvægur eiginleiki í því starfi sem hún gegndi, þar sem þarf að eiga samskipti við fjölda manns víðs vegar.

Sérþekking Hallgerðar var matargerð Íslendinga fyrr á tíðum. Þar þekkti hún betur til en aðrir. Hún var alin upp í sveit og hafði þar kynnzt að marki gamla sveitalífinu og lífskjörum fólks fyrrum, þótt meginstoðir þjóðfélagsins væru að vísu orðnar aðrar þá en áður. Enn eimdi eftir af gömlum starfsháttum og hugsunarhætti fólks, ekki sízt hvað lífsbjörgina snerti. Hún var víðlesin í þjóðháttafræðum og hafði rannsakað og safnað margvíslegum heimildum um þjóðlíf og þjóðhætti hvarvetna, einkum þó á sérsviði sínu, og því varð hún okkar helsti sérfræðingur þar. Þessi sérhæfing Hallgerðar birtist síðan í rannsóknum hennar. Hún skrifaði bókina Íslensk matarhefð, er kom út árið 1999, um matargerð Íslendinga fyrrum, geymslu matvæla og matarsiði. Þá sá hún um gerð sýningar um eldhúsið og eldhússtörf, Hvað er á seyði, í Þjóðminjasafninu árið 1987, og hún var annar af tveimur höfundum og ritstjórum bókarinnar Íslenskir brúðkaupssiðir, sem út kom árið 2004.

Þekking hennar og áhugi náði langt út fyrir veggi búrs og eldhúss. Hún samdi ásamt öðrum bókina Manngerðir hellar á Íslandi, og fór margar rannsóknar- og könnunarferðir í því skyni um landið. Sjálfur reyndi ég það margsinnis, að þekking hennar og áhugasvið var víðfeðmt og stundum leitaði ég í smiðju til hennar.

Hallgerður var vinsæl og vel látin í starfi. Hún vann traust og vináttu samstarfsfólks og annarra þeirra, sem hún átti samskipti við. Hún var glaðlynd, mannblendin og gerði að gamni sínu með smákímni.

Allir verða að hlíta örlögum sínum. Sárast er að verða að sjá á bak fólki í blóma lífsins, sem hefði átt svo mörgu enn óskilað af æviverki. Við gamlir samstarfsmenn Hallgerðar innan þjóðminjavörzlunnar geymum góðar minningar um hana og þökkum henni samfylgdina og það sem hún gaf þjóðinni í verkum sínum.

Þór Magnússon.

Við hjónin viljum minnast í örfáum orðum Hallgerðar Gísladóttur og þakka fyrir þau ríflega 30 ár sem við þekktum hana.

Halla var stór persónuleiki og litrík manneskja, bæði hið innra og ytra. Hún var í senn vitur og hlý og alltaf áhugasöm og gefandi í samræðum og athöfnum. Tilgerð og yfirborðsmennsku var ekki að finna í hennar persónugerð. Hún hafði ást á ljóðum og söng og kunni ógrynni af kveðskap, allt frá dróttkvæðum til dægurlagatexta. Hún var í senn skáld og fræðimaður, rammíslensk og víðlesin.

Með Höllu er fallin valkyrja. Hún háði langa baráttu við mein sitt af einstöku æðruleysi og veitti okkur um leið von og trú á að hægt væri að sigrast á þeim vágesti. Hennar verður lengi saknað meðal þeirra sem nutu þeirrar gæfu að þekkja hana. Við vottum öllum hennar nánustu okkar dýpstu samúð í sorginni.

Íris og Hjörleifur.

Við Hallgerður störfuðum hlið við hlið í næstum aldarfjórðung. Fyrstu tengsl hennar við þjóðháttadeildina voru þegar hún tók þátt í heimildasöfnun stúdenta sumarið 1976. Næstu ár vann hún í hlutastarfi við úrvinnslu á öllum þeim afrakstri og ýmis önnur verkefni þar til hún var fastráðin starfsmaður og tók að lokum við sem deildarstjóri. Það lá við að samvinna okkar þróaðist í einskonar systkinasamband.

Hallgerður komst brátt í mjög náið og lifandi samband við heimildarmenn deildarinnar sem skiptu hundruðum og reyndi að heimsækja þá eftir því sem tíminn leyfði og afla nýrra. Hún gat talað við gamlar konur af annarskonar innsæi en við karlarnir, og á hinn bóginn lifnuðu gamlir skröggar allir við að fá þessa föngulegu konu í heimsókn og þó ekki væri nema eiga við hana símtal eða bréfaskipti. Hún öðlaðist mjög yfirgripsmikla þekkingu á hinum mörgu sviðum þjóðháttanna. Hún sá öðrum fremur um að skipuleggja starf stúdenta á dvalarheimilum aldraðra þau fimm ár sem heilbrigðisráðuneytið veitti styrk til að spyrja vistmenn um daglegt líf í æsku þeirra.

Smám saman tók þó eitt svið öðru fremur hug hennar fanginn, en það var matarmenning íslensku þjóðarinnar. Þessum sjálfsagðasta þætti daglegs lífs hafði hingað til lítt verið sinnt skipulega. Það var nokkur lífsreynsla að bragða á þeim réttum sem hún prófaði úr hinni gömlu matarhefð. Hún sat árum saman í Matráði Kvenfélagasambandsins, Klúbbs matreiðslumanna og Ríkisútvarpsins sem vann að söfnun gamalla mataruppskrifta og öðrum fróðleik um matarhætti. Hún sá um þætti í hljóðvarpi og sjónvarpi í tengslum við þessa söfnun upplýsinga. Í því skyni heimsótti hún öðru hverju ákveðin svæði út um landið. Einnig sótti hún margar alþjóðlegar ráðstefnur á þessu sviði.

Þeim sem kynntust þessari galvösku konu á ráðstefnum, fyrirlestrum eða í fjölmiðlum, kemur kannski á óvart, að hún var lengi vel treg til að taka slíkt að sér þrátt fyrir nokkurn þrýsting. Því olli fræðileg varkárni hennar og efi um að hún væri enn í stakk búin. Um leið og hún braut ísinn reyndist hún svo brátt einsog fiskur í vatni.

Innan sem utan safnsins var Hallgerður aðsópsmikil í félagsmálum, lífsglöð og söngglöð. Hún varð einn helsti skipuleggjari við samkvæmi starfsfólks. Hún tók þátt í ýmsum félagsskap sem lá utan hins vanabundna og sumum þótti alvörulítill, starfaði með leikfélaginu Hugleik, ferðafélaginu Vinir og vandamenn, baldýringafélaginu Baugalín, Kór alþýðumenningar, Kvæðakonunni góðu og Kvenfélaginu Vorhvöt sem meðal annars stóð fyrir fjársöfnun handa Álverinu í Straumsvík þegar það átti við hvað bágust kjör að búa vegna okurverðs á raforku, blautra rafskauta og fleiri hremminga snemma á níunda áratugnum. Svo var hún skáldmælt.

Enda þótt Hallgerður hefði eindregnar skoðanir á ýmsum þjóðþrifamálum, svosem andstöðu við hersetu, og skopaðist að helgum dómum einsog lögmálum markaðarins eða frelsi fjármagnsins, var hún ótrúlega umburðarlynd gagnvart þeim sem voru henni ósammála og jafnvel þótt þeir væru heldur óskemmtilegir. Manni gat jafnvel fundist nóg um hvað hún var jákvæð án þess að vart yrði við nokkurn falskan tón. Öll návist hennar var einkar hlýleg og frá henni stafaði jafnan einhverri innri birtu. Hún er ein af þeim óskyldu manneskjum sem ég sé hvað mest eftir.

Árni Björnsson.

Fyrir rúmlega tíu árum var formlega stofnaður félagsskapur nokkurra kvenna sem allar þekktust eitthvað og einhvern veginn, mismikið þó. Skyldi þetta verða saumaklúbbur og heita Baldýringarfélagið Baugalín. Fjórtán konur töldust þar saman, jafn misjafnar og þær eru margar. Nú, við fráfall Höllu, er höggvið skarð í þann hóp. Stórt skarð.

Halla. Þessi ljóshærða, hávaxna, fallega kona – eins og drottning hvar sem hún kom. Á tímum svartrar tísku og dökkra lita var Halla fallegust í skærum, hreinum litum, bláu, bleiku. Ljóst hárið þyrlaðist kringum brosandi andlitið og bláu augun blikuðu eins og stjörnur.

Halla. Söngvin og söngelsk. Og kunni allar vísur sem ortar hafa verið á Íslandi. Var leikandi hagmælt sjálf. Kvað stemmur af list.

Halla. Matkonan – á hvorn veginn sem við viljum skilja slíkt orð: Hún kunni að elda allan mat, bæði fornan og nýjan, það var hennar sérsvið. Og hún kunni líka að njóta hans. Fátt þótti henni betra en feitt ket. Á árlegri árshátíð Baugalínar þegar við hinar reyndum að finna upp stöðugt meira nýmóðins uppskriftir kom Halla alltaf með sama þjóðlega forréttinn í stíl sinnar sérþekkingar: rúgbrauð með feitum magál og brennivínssnafs.

Halla. Sem lagði rækt við arf kynslóðanna í sögum og ljóðum. En líka í verkmenningu og fróðleik. Í þann sjóð sótti hún, hvort heldur var eftir fjallagrasakeimi í hvítlauksbrauðið eða birkibragði í kamilluteið. Hún hafði lag á að tengja nýtt og gamalt þannig að hvort tveggja nyti sín. Við tímamót í lífi Baugalína tilheyrir að setja saman kveðskap þar sem ekki er leyft að kvika mikið frá hefðbundnum bragreglum. Þar var Halla betri en engin. En hún tók skáldskap líka alvarlega og eftir hana kom út ljóðabók fyrir tveimur árum. Í ljós, nafnið sem hún valdi ljóðabókinni sinni, er lýsandi dæmi um sýn hennar á lífið.

Halla. Hún þekkti nafn á hverri jurt og vakti athygli okkar oftar en ekki á hinu smáa í náttúrunni og fegurð þess, litlu blómi að springa út, fallegum steini, skel í fjöru. Hafði yndi af að ferðast um landið sitt, sofa í tjaldi með Árna, setjast með harðfiskbita á stein.

Halla. Gleðskaparkonan og gestgjafinn. Þótti gaman að fá gesti og gerði vel við þá. Í mat og drykk og skemmtilegum samræðum, söng og kveðskap, sögum og fróðleik. Á mánaðarlegum fundum Baugalínar ber allt á góma sem skiptir máli í lífinu, við fylgjumst hver með annarri, hvað við erum að bardúsa hver á sínu sviði, hvernig börnin pluma sig eftir því sem þau vaxa úr grasi, hvernig atvinnumál og heilsufar arta sig. Baugalínarfundir eru næstum háheilagir og fátt kemur í veg fyrir að við mætum á þá. Nú munum við sakna vinar í stað.

Við fórum líka saman í ferðalög. Einu sinni fórum við til Búdapest. Æddum milli listasafna, veitingastaða, kústabúða, markaða, strætisvagna og gufubaða. Drukkum dálítinn bjór og svolítið vín. Vorum glaðar. Hlógum. Ein týndist. Önnur villtist. Nokkrum var hent út úr neðanjarðarlestinni – Höllu þar á meðal. Hún hló dátt og dillandi. Í gufubaðinu hló hún enn meira. Þar stóðum við, hvítir allsberir kellingakroppar, misstórir á lang- og þverveginn, vafðar í blauta léreftssnepla sem vart huldu meira en laufblað Evu forðum.

Við fórum til Kaupmannahafnar – þá að heimsækja Höllu og Árna sem dvöldu þar um nokkurra mánaða skeið. Í tveggja herbergja skápíbúð tók Halla á móti okkur af rausn. Þar vantaði hvorki gestrisni né húsrúm. Og við fórum á söfn og veitingahús og drukkum bjór og vín og Árni fékk að vera Baugalína í hálfan dag. Það fannst þeim hjónum gaman.

Síðastliðið vor fórum við til Ítalíu. Gengum þar um fjöll í viku. Þá var Halla búin að vera veik í heilt ár en talin á batavegi. Og hún kom með. Og hún gekk. Og gekk og gekk. Meiri fjallagarp höfum við aldrei séð en Höllu þá. Þreytt var hún. En hún varð að ganga með. Og sitja með okkur frameftir á kvöldin. Örþreytt. En það gerði ekkert til því henni fannst svo gaman. Og bæði hún og við trúðum því að hún hefði sigrast á óvininum.

En skömmu eftir heimkomuna dundi áfallið yfir, hún veiktist aftur. Og eftir því sem vikurnar og mánuðirnir liðu kom í ljós að nú voru engin grið gefin.

Eitt kvöld í desember á fyrsta ári Baugalínar átti að hittast heima hjá Höllu og Árna. Af þeim fundi varð ekki. Sigga dóttir þeirra lést skyndilega þann dag. Halla var stór í sorg sinni. Af veikum mætti reyndum við að styðja hana. Nú þurfum við að takast á við að hún er horfin úr hópnum. Baugalínur eru nú bara þrettán. Missirinn er stærri en talan segir til um.

Árni, Gulli og Eldjárn, þið sem unnuð henni heitast, ykkar missir er stærstur. Megi minningin um hana og vissan um hve ósegjanlega kærir þið voruð henni styrkja ykkur í sorginni.

Baugalínur: Ásdís, Elísa, Guðlaug María, Helga Pálína, Ingunn, Jórunn, Kristjana, Maríanna, Steinunn og Steinunn, Sunneva, Þóra, Þuríður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.