Ábyrg Þau Einar Sigurbjörnsson, Jóhann Páll Valdemarsson og Guðrún Kvaran eru í forsvari nýrrar þýðingar og útgáfu Biblíunnar.
Ábyrg Þau Einar Sigurbjörnsson, Jóhann Páll Valdemarsson og Guðrún Kvaran eru í forsvari nýrrar þýðingar og útgáfu Biblíunnar. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Í haust kemur út ný þýðing Biblíunnar hjá JPV-útgáfu. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Einar Sigurbjörnsson prófessor um þýðingu Biblíunnar fyrir kristni og kirkju á Íslandi.

Í heimi þar sem allra veðra er von er dýrmætt að eiga vin þar sem ríkir hlýja og kærleikur. Kristin trú er slíkt athvarf þeim sem hún á ítök í. Ein helsta undirstaða trúarinnar er bók bókanna – Biblían. Einar Sigurbjörnsson prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands hefur gegnt veigamiklu hlutverki í því mikla starfi sem ný þýðing Biblíunnar er.

"Biblían er undirstaða kristinnar trúar og á fyrstu öldum kristins siðar stóð valið milli heimsskoðunar Grikkja sem byggðist á tvíhyggju og hringrásarhugsun og svo hins vegar hinnar gyðinglegu trúarhefðar sem byggist á sögunni. Kristnir kennimenn fornkirkjunnar völdu söguskilning Gamla testamentisins, – hinn kristni skilningur er sögulegur," segir Einar Sigurbjörnsson.

"Gengið er út frá ákveðnu upphafi – "Í upphafi skapaði Guð heiminn," og að einstakir atburðir sögunnar hafi gildi fyrir heiminn í heild og fyrir einstaklingana.

Ástæða þessa var að fæðing Krists, líf hans, dauði og upprisa gekk upp í þessum söguskilningi. Þeir sem höfnuðu þessum skilningi höfnuðu því að Kristur hefði verið maður, það guðlega og holdlega gat ekki farið saman. En þessu andmælir kristin trú. Fyrsta grein trúarjátningarinnar segir: "Ég trúi á Guð, skapara himins og jarðar." Þessi sögulega skírskotun gerir Biblíuna svo mikilvæga."

Varð einhver breyting á þessu við siðaskipti?

"Nei, en þarna er ekki átt við sögu sem safn liðinna atburða heldur söguna sem merkingu lífsins – staðsetningu okkar inni í hinni biblíulegu sögu, þetta gerðu líka miðaldafræðimenn. Það kemur fram t.d. í dýrlingasögum, þar er líf þeirra sett inn í umgjörð hinnar biblíulegu hetju.

Ari fróði skrifaði Íslendingabók út frá Gamla testamentinu

Ég er sannfærður um að Ari fróði skýrir Íslandssögu í Íslendingabók á þennan hátt. Hann skrifar Íslandssöguna út frá Gamla testamentinu, Ísland er fyrirheitna landið handan við hafið sem íslensku þjóðinni var gefið til að byggja. Ari var lærður maður og þekkti Biblíuna á latínu, heilög ritning var lærdómur miðalda. Þetta sýnir að í upphafi 12. aldar hefur kristindómur verið orðinn vel rótfastur í íslensku samfélagi. Biblían var ekki lokuð bók miðaldamönnum, þeir lifðu og hrærðust í henni. Tíðagjörð í klaustrum felst í að biðja Biblíuna og lesa hana."

Var siðbótin afturhvarf til hinna biblíulegu gilda?

"Á margan hátt já. Dýrlingadýrkunin var búin að hlaða utan á sig svo að margt í helgihaldi snerist um þá, þannig að það skyggði á Krist. Siðbótin setti á oddinn að leggja af dýrlingadýrkun. Siðbótinni fylgdi að farið var að þýða Biblíuna á móðurmál þjóðanna og það gerðist einnig hér 1540. Lærdómur fór hins vegar fram á latínu allar götur til loka 19. aldar, það var viðtekið að prestar ættu að geta skrifað æviágrip sitt á latínu áður en þeir fengju vígslu. Það má vera að þetta sé enn svo í lögum. Brynjólfur Sveinsson biskup ætlaðist til prestar töluðu latínu við sig en helgihaldið og þar með Biblíulestur fór fram á móðurmálinu.

Íslendingar eru blessunarlega íhaldssamir, það stendur heilmargt enn eftir í Biblíunni orðrétt frá hendi Odds Gottskálkssonar."

Einar hafði forgöngu um áherslupunkta í hinni nýju þýðingu Biblíunnar.

"Ég hafði að leiðarljósi samfellu í íslensku máli. Svíar og Danir sögðu í rökum fyrir nýjum þýðingum Biblíunnar þar að svo mikil breyting hefði orðið í þeirra tungumálum – svo er ekki hér, samfella er í íslensku máli sem við skulum reyna að halda í eftir föngum. Mér finnst að Biblían þurfi að vera á máli sem er ekki of hversdagslegt. En stundum kemur fyrir að orð breyta um merkingu, t.d. orðið skepna. Það þýddi sköpuð vera áður fyrr en hefur nú mun neikvæðari merkingu, við tókum tillit til þessa í nýju þýðingunni. Forsetningin fyrir var áður notuð í merkingunni – fyrir tilstuðlan. Þetta skilja margir illa nú og þess vegna bættum við orðinu tilstuðlan við.

Við reyndum og að taka tillit til kvenna í þessari þýðingu og settum inn systkin í stað bræðra, en það fór fyrir brjóstið á ýmsum, líka konum, þannig að niðurstaðan varð bræður og systur þar sem það á við. Konur eru í gamalli merkingu líka menn og bræðralag geta þær átt ekki síður en karlmenn. Heilög ritning verður á vissan hátt að vera handan og ofan við duttlunga tíðarandans hverju sinni.

Lærði hjá föður sínum að lesa gotneskt letur

Í fornum ritum og handbókum sést að textinn var aðlagaður – konan mín, Guðrún Edda Gunnarsdóttir, á merkilegan seðil frá séra Bjarna Jónssyni frá inntöku hennar í KFUK. Á seðlinum er tilvitnun í Rómverjabréfið þar sem segir: "Guð fylli yður allan fögnuð og frið í trúnni svo þér séuð auðugir í voninni í krafti heilags anda." – En séra Bjarni skrifar: "Guð fylli þig ... svo þú sért auðug í voninni í krafti heilags anda." Þannig getur hver predikari aðlagað textann."

Var síðasta þýðingin orðin svo gamaldags að til vandræða horfði?

"Að mínum dómi var svo ekki en ýmsum öðrum fannst það, einkum gamla fleirtalan vér. Prestar mega hins vegar nota gamla þýðingu ef þeir vilja í sínu máli. Hið íslenska biblíufélag hefur einkarétt á útgáfu Biblía – líklega verða gamlar þýðingar ekki gefnar út aftur nema þá kannski í fræðilegum tilgangi.

Á 19. öld urðu miklar framfarir í handritalestri og Íslendingar gripu fljótt það sem nýtt var í þeim efnum. Í útgáfunni 1866, sem Pétur Pétursson biskup stóð að, voru felld niður nokkur vers úr Nýja testamentinu, þar fylgdi hann bestu og vísindalegustu útgáfu þeirra tíma, sem var þýsk. Bretar höfðu hins vegar ekki enn fengið þessar fregnir og urðu ókvæða við. Í kjölfar komu Hendersons hingað til lands 1813 fóru Bretar að styrkja biblíuútgáfu hér, fyrst árið 1813, svo aftur 1866 og loks 1912."

Verður nýja þýðingin allsráðandi í íslenskri kirkju?

"Ég býst við að svo verði mjög fljótlega. Við gerum ráð fyrir og erum viðbúin mikilli gagnrýni á báða vegu, það er jafnan erfitt að feta meðalveginn, hvað þá hinn gullna meðalveg.

En ég er sannfærður um að þessi nýja útgáfa mun leiða til meiri biblíulesturs sem ég óttast að sé ekki nógu almennur."

Sjálfur kveðst Einar hafa lesið Biblíuna alla fyrst í menntaskóla.

"Faðir minn las mikið fyrir okkur og mér er í barnsminni að hann kenndi mér að lesa gotneskt letur á bók sem heitir Biblíukjarninn. Sjálfur ólst hann upp við húslestra. Ég hélt hinsvegar barnabiblíu að mínum börnum þegar þau voru ung.

Fræðimenn þurfa að vera duglegir að skýra út Biblíuna, marga rekur í vörðurnar við lesturinn og ekki er hægt að hafa nema ákveðið magn af neðanmálsgreinum."

"Gimsteinar biblíunnar"

Hvað með hin svokölluðu "mannakorn", þar sem fólk dregur miða með tilvitnunum í Biblíunna?

"Safnið heitir "Gimsteinar Biblíunnar." Mjög algengt er að fólk fletti á þann hátt upp í Biblíunni en ég vil vara fólk við að taka þetta of bókstaflega, ekki er ráðlegt að láta slíkt stýra lífi sínu. En þetta safn fylgir hinsvegar hinni nýju útgáfu og er líklega leið margra inn í lestur Biblíunnar. Mikilvægt er að glæða áhuga fólks á Biblíunni og þeirri undirstöðu menningar okkar sem hún er, líka sem bókmenntir."

Verður mikið um dýrðir þegar hin nýja útgáfa Biblíunnar kemur út?

"Hið íslenska biblíufélag mun vafalaust láta þessa vel getið. Hér í guðfræðideild Háskóla Íslands er ráðgert að standa næsta vetur fyrir málþingi og nokkrum málstofum þar sem fjallað verður um Biblíuna og biblíuþýðingar í ljósi hinnar nýju biblíuþýðingar og verða þær samkomur opnar almenningi."

Hinni hátíðlegu ímynd haldið!

Hin nýja þýðing Biblíunnar er viðamikið verkefni, í slíkt hefur ekki verið ráðist síðan fyrir tæpri öld.

"Það hefur ekki verið ráðist í þýðingu allrar Biblíunnar síðan hún kom út 1912 en hluti Nýja testamentisins var endurþýddur og kom út 1981 en annað endurskoðað," segir Guðrún Kvaran prófessor. Hún er formaður þýðingarnefndar Gamla testamentisins og sat með Einari Sigurbjörnssyni prófessor í þýðingarnefnd Nýja testamentisins.

En hvers vegna þarf að þýða Biblíuna upp á nýtt?

"Það er vegna þess að á 100 árum hafa orðið miklar framfarir í úrlestri á frumtextanum og túlkun á honum. Íslenskt mál hefur einnig tekið breytingum sem taka verður tillit til."

Hvor ástæðan er þyngri á metum?

"Þýðingarnefndin fékk erindisbréf þar sem stendur að taka skuli tillit til frumtexta og gæta þess að íslensk biblíuhefð glatist ekki og að Biblían sé á vönduðu máli. Þýðingarnefndinni var mikill vandi á höndum þegar taka þurfti afstöðu til þess hvort frumtextinn eða íslenska og íslensk biblíumálshefð ætti að ráða. Í hvert einstakt skipti varð að meta hvort ætti að meta meira, íslenska biblíuhefð eða nýja túlkun á frumtextanum. Það er því erfitt að svara því hvort vegur þyngra."

Hefði ekki verið hægt að nota gömlu þýðinguna með textaskýringum?

"Nei, íslensk kirkja vill eiga kirkjubiblíu, þ.e. Biblíu sem hægt er að lesa úr í kirkju. Biblían frá 1912, þ.e. Gamla testamentið, var þýdd eins og þá þótti mikilvægast í biblíuþýðingu, að þýða orð með orði og setningu með setningu sem gerir það að verkum að textinn getur orðið erfiður í upplestri í kirkju vegna innskotssetninga. Í þeim tilvikum hefði engin textaskýring nægt."

Glatast ekki hin hátíðlega ímynd Biblíunnar þegar hún er færð á þennan hátt til nútímamáls?

"Við gættum þess að textinn yrði ekki á hversdagsmáli. Margir hafa óskað eftir að hann yrði á almennu daglegu máli fólks, en við gættum þess að halda hinum hátíðlega blæ. Ég verð að viðurkenna að við það að breyta frá því að nota muninn á fleirtölu og tvítölu hverfur hluti hátíðleikans sem var á eldri Biblíunni, það er að segja mjög víða er nú notað við og þið í stað vér og þér, okkur og ykkur í stað oss og vor."

Hvers vegna var þetta gert?

"Það var þrýstingur bæði frá sumum prestum og ýmsum í þjóðfélaginu að taka þetta út, breyta þessu, og Hið íslenska biblíufélag hjó á hnútinn með því að setja þýðingarnefndum reglur sem þær fóru síðan eftir. Þannig að hinni hátíðlegu gömlu fleirtölu vér og þér er haldið í bænum, sálmum, litúrgískum textum og ræðum Jesú Krists. Annars staðar er notuð nútímafleirtalan við og þið."

Erum við komin mjög langt frá Oddi Gottskálkssyni, þegar hann þýddi í fjósinu í Skálholti Nýja testamentið sem út kom 1540?

"Þetta var fyrsta íslenska prentaða bókin og ég tel að við séum í nýju þýðingunni ekki komin svo mjög langt frá hans þýðingu, ýmsir kaflar eru nær óbreyttir frá hendi Odds. Þetta er einmitt biblíuhefðin sem við áttum að varðveita. Eigi að síður köllum við þetta verk okkar nýja þýðingu. Ef þýðandi hefur í höndum gamlan texta sem er svo vel orðaður að ekki verður betur gert er hann látinn halda sér."

Hvað hefur þetta starf ykkar tekið langan tíma?

"Vinnan við þýðingu Gamla testamentisins hefur tekið á sextánda ár. Ástæðan er sú að þýðendur eru fáir og þýðingarnefndin smá og allir í fullu starfi annars staðar. Þýðing Nýja testamentisins hefur tekið sex ár."

Úr hvaða máli er þýtt?

"Gamla testamentið er þýtt úr hebresku en nýja testamentið úr grísku."

Hvers vegna eru ekki bæði testamentin þýdd úr sama máli?

"Það er vegna þess að Gamla testamentið er svo miklu eldra en Nýja testamentið, það er skrifað löngu fyrir Krists burð en ritum Nýja testamentisins var ekki safnað saman fyrr en 200 árum eftir fæðingu Krists og í öðru umhverfi, Grikklandi. En þá var ákveðið að bæði testamentin skyldu teljast heilög ritning kristinna manna.

Þess má geta að í íslenskri þýðingu fylgdu með frá útgáfu Guðbrandsbiblíu árið 1584 hinar apokrýfu bækur Biblíunnar og allt fram á 19. öld, þegar Hið breska biblíufélag tók að styrkja útgáfu íslenskrar Biblíu, – þá voru þessar bækur felldar brott. Nú var ákveðið að þær yrðu með í nýrri þýðingu. Aðalþýðandi Gamla testamentisins er Sigurður Örn Steingrímsson en Jón Gunnarsson þýddi einnig allnokkrar bækur. Þýðandi Nýja testamentisins er Jón Sveinbjörnsson."

Voru mörg álitamál sem upp komu í sambandi við þessa þýðingu Biblíunnar?

"Auðvitað var tekist á um ákveðin orð og ákveðna staði en aldrei svo að ekki fyndist í lok fundar lausn á viðkomandi ágreiningsmáli. Aftur á móti var mikil umræða um tvítölu og fleirtölu og hvernig farið skyldi með mál beggja kynja – sem við fengum einnig tilmæli um frá Hinu íslenska biblíufélagi um að taka afstöðu til, og við gerðum."

Draumaverkefni útgefanda

Það er JPV-útgáfa sem gefur hina nýju Biblíu út. Hvernig verður bókin hönnuð?

"Við leggjum mikla áherslu á að hafa hina nýju Biblíu sem læsilegasta," segir Jóhann Páll Valdimarsson, útgáfustjóri JPV-útgáfu.

"Biblían verður prentuð í tveimur stærðum til að byrja með og það hefur verið lögð mikil áhersla á það, í umbroti og letri, að hún sé mjög læsileg. Hún verður prentuð með einum aukalit, sem ekki hefur verið gert áður, það eru kaflaheiti, hausar og fleira sem er í aukalitnum. Með þessu er verið að færa útlit Biblíunnar nær nútímanum. Ég get fullyrt að bæði leturgerð og umbrot er nútímalegt.

Ég hef orðið var við að þegar fólk sem ekki er kunnugt Biblíunni opnar hana finnst því hún vera nokkuð óárennileg. Við þessu erum við að bregðast með útliti og frágangi hinnar nýju útgáfu – við erum að gera hana meira aðlaðandi fyrir hinn almenna lesanda."

Veður þetta þykk bók?

"Hún verður um 2000 blaðsíður en prentuð á sérstakan biblíupappír sem er mjög þunnur. Það eru sérhæfðar prentsmiðjur sem prenta Biblíur nútímans og nota afar þunnan pappír en sterkan. Þetta er mjög vönduð bókargerð, það er vandasamt að sauma saman svona þunnar prentarkir."

Hvar verður Biblían prentuð?

"Endanleg ákvörðun um prentstaðinn liggur ekki fyrir en við höfum verið í miklu sambandi við hollenska aðila, sem ég raunar heimsótti á síðasta ári af þessu tilefni. Endanleg ákvörðun verður þó tekin fljótlega um prentstað.

Biblían verður sem fyrr sagði útgefin í tveimur stærðum en með margvíslegu útliti, mismunandi íburðarmiklu."

Hver hannar frágang Biblíunnar?

"Umbrotið fer fram í Danmörku, þar er aðili sem hefur sérhæft sig í umbroti á Biblíum og brotið þær um á ótal tungumálum – en ytri umgjörðin, útlitsfrágangur, verður í höndum Ragnars Helga Ólafssonar."

Er þetta dýr útgáfa?

"Já, þetta er að sjálfsögðu feiknarlega dýr útgáfa – ekkert verður til sparað svo að þetta takist sem best, enda er þetta mikil áskorun, að fá tækifæri til að gefa út bók bókanna. Ég tek þetta verkefni ákaflega alvarlega. Ég hef mikinn áhuga á fallegri bókargerð og ekki er hægt að hugsa sér betra tækifæri til að veita þeim áhuga útrás.

Ég sé fyrir mér að í framtíðinni komi Biblían út í margvíslegum mismunandi útgáfum, t.d. myndskreyttum útgáfum, hlutar Biblíunnar í sérútgáfum og svo framvegis. Þetta er draumaverkefni hvað varðar bókargerðina sjálfa."

Hvað liggur að baki þeirri vinnu sem unnin er hjá ykkur?

"Við fengum þýðinguna fyrir um það bil ári og síðan hefur Þórgunnur Skúladóttir, ritstjóri JPV-útgáfu, unnið að endanlegum frágangi textans til umbrots og með henni hafa unnið látlaust þeir Helgi Grímsson og Helga Jónsdóttir. En nú höfum við náð því stigi að umbroti er að mestu lokið og verið er að fara yfir lokapróförk."

gudrung@mbl.is