Dofri Hermannsson | 12. febrúar Hefðu kannski átt börn hvort eð er Mér finnst alveg frábært að Geir H. Haarde skuli loks hafa komið í leitirnar en lýst var eftir honum í Spaugstofunni á laugardaginn var.
Dofri Hermannsson | 12. febrúar

Hefðu kannski átt börn hvort eð er

Mér finnst alveg frábært að Geir H. Haarde skuli loks hafa komið í leitirnar en lýst var eftir honum í Spaugstofunni á laugardaginn var. Það varð hins vegar deginum ljósara af hverju Geir hefur verið haldið í skugganum – honum er einkar lagið að stíga í alla drullupolla sem á vegi hans verða.

Það sem aftur á móti er ekki skemmtilegt, jafnvel ekki þótt maður sé mótherji hans í pólitík, er hin klúra kvenfyrirlitning sem aftur og aftur skýtur upp kollinum hjá formanni Sjálfstæðisflokksins.

Allir muna ummæli hans um að maður geti ekki alltaf farið heim með sætustu stelpuna á ballinu – en það má finna aðra sem gerir sama gagn! Þetta voru klúr orð en margir voru þó til í að fyrirgefa þessum bangsalega kalli að hafa misst upp úr sér misheppnaðan karlpungabrandara.

Ummæli hans í Silfri Egils í gær eru hins vegar ófyrirgefanleg. Þar sagði Geir Haarde orðrétt um konurnar sem urðu barnshafandi eftir misnotkun af hálfu starfsmanna Byrgisins: "Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð er..."

Hvað er eiginlega að gerast í hugarheimi manns sem talar svona?

Ummælin lýsa ekki bara algjöru virðingarleysi gagnvart skjólstæðingum Byrgisins sem máttu þola kynferðislega misnotkun af hálfu þeirra sem áttu að veita þeim vernd og skjól. Þau lýsa líka algjörri afneitun forsætisráðherrans á ábyrgð stjórnvalda gagnvart þessum konum og börnum þeirra.

Ef nokkur arða af sómatilfinningu er til í þessum karli hlýtur hann að biðja konurnar afsökunar á ummælum sínum.

Honum og ríkisstjórninni væri líka sæmst að axla ábyrgð á því að hafa brugðist eftirlitsskyldu sinni í stað þess að benda fingrinum á alla aðra sem ekki höfðu aðgang að trúnaðarupplýsingum. Svona hagar maður sér ekki.

dofri.blog.is