14. febrúar 2007 | Kvikmyndir | 693 orð | 2 myndir

Rísandi stjörnur kynntar á kvikmyndahátíðinni sem fram fer í Berlín þessa dagana

Sjá, stjörnurnar kvikna

Stjörnuskari Rísandi stjörnur 2007. Gísli Örn Garðarsson er þeirra á meðal en á hann skyggir ljóshært smástirni.
Stjörnuskari Rísandi stjörnur 2007. Gísli Örn Garðarsson er þeirra á meðal en á hann skyggir ljóshært smástirni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.
Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

sith@mbl.is

Rísandi stjörnur ársins 2007 voru kynntar fjölmiðlum og áhorfendum í gær á Berlinale, Kvikmyndahátíðinni í Berlín, en það er European Film Promotion (EFP) sem árlega stendur þar fyrir kynningu á ungu hæfileikafólki úr evrópska kvikmyndabransanum. Fulltrúi Íslands í ár er sem kunnugt er Gísli Örn Garðarsson, en alls eru nýstirnin 25 talsins. Nokkur andlit kunna íslenskir bíógestir að hafa séð nú þegar, svo sem Kate Dickie í Rauðum vegi (Red Road), Norðmanninn Nicolai Cleve Broch í UNO eða Jasmine Trinca í ítölsku myndinni Herbergi sonarins, en leikarar eru alla jafna tilnefndir í Shooting Stars-hópinn fyrir "framúrskarandi árangur sinn, hæfileika og möguleika á frekari landvinningum".

James Bond var hér

"Við höfum kynnt 169 rísandi stjörnur frá upphafi og með vissum hætti komið evrópskum leikhæfileikum á kortið," sagði Claudia Landsberger, forseti EFP, í gær. Hún benti á að í evrópska kvikmyndageiranum væri í raun ekki til neitt "stjörnukerfi", í samanburði við Ameríku, en markmið EFP væri að gera evrópska leikara svo áhugaverða að fólk kepptist við að sjá myndirnar þeirra – og auðvitað vekja athygli alþjóðlegra leikstjóra á þeim. Hún rifjaði upp að Franka Potente, Rachel Weisz og Daniel Brühl hefðu verið skjólstæðingar EFP á sínum tíma. "Og jafnvel Daniel Craig – sjálfur James Bond – hann var einu sinni Rísandi stjarna."

Kvikmyndamiðstöðvar vítt og breitt um Evrópu eiga aðild að verkefninu, nú síðast bættust Pólland, Rúmenía og Slóvakía í hópinn, en ein af hugmyndunum er að stækka vinnusvæði leikara frá minni málsvæðum og gefa hræringum í allri álfunni gaum.

Eins og í sögu

Dagskrá Rísandi stjarna er á þann veg að leikararnir hitta bransafólk og blaðamenn, mynda tengsl – og þar með möguleg viðskiptasambönd – en síðast en ekki síst kynnast þeir innbyrðis. Myndir með nokkrum þeirra eru í sýningum á hátíðinni, og þar er hægt að skoða betur hvað þeir kunna og geta. Kannski verða ekki allir jafn lánsamir og Dorka Gryllus frá Ungverjalandi, en það er þó meginhugmyndin. Hún var Rísandi stjarna 2005, og í því sem kalla mætti "bransa-brunch" hitti hún konu frá breskri ráðningarskrifstofu. Fimm mánuðum síðar fékk hún boð um að mæta í prufu fyrir kvikmyndina Irina Palm og fékk hlutverkið – en myndin er frumsýnd í aðalkeppni Berlinale í kvöld. Dorka er því mætt til Berlínar í ár sem skínandi stjarna.

Sálin seld á e-bay

Þar sem framtakið Rísandi stjörnur fagnar nú 10 ára afmæli voru í gær viðstaddar nokkrar fyrrum rísandi stjörnur – sem nú mætti kalla halastjörnur því afrekaskrá þeirra flestra hefur lengst síðan þeir stóðu á sviðinu sem ungstirni. Í þeirra hópi er Tómas Lemarquis, sem var Rísandi stjarna árið 2004. Nói albínói bar hróður hans víða og eftir fáeina daga hefjast einmitt tökur á fyrstu stóru myndinni sem hann leikur í utan Íslands. Hún heitir Luftbusiness, verður tekin upp í Lúxemborg, og Tómas leikur aðalpersónuna, Filou að nafni.

"Þetta er mynd um þrjá vini, svona götustráka, í ótilgreindri borg. Minn karakter selur sálina sína á e-Bay og það hefur drastískar afleiðingar. Þá fer sem sagt allt af stað," segir Tómas um söguþráð myndarinnar. Hann segir Luftbusiness hvorki vera gamanmynd né spennumynd, nær væri að lýsa henni sem listrænni kvikmynd, eða "arthouse". "Já, þetta er mjög skemmtilegt handrit og mér líst vel á þetta," staðfestir hann, en leikstjóri og handritshöfundur er Dominique De Rivaz, sem m.a. gerði myndina "Mein Name ist Bach" með Jürgen Vogel í framlínu.

Þar eð Luftbusiness verður tekin á þýsku hefur Tómas undanfarna mánuði lagt sig fram um að ná tökum á þýskunni, með ágætum árangri. Hann er sem stendur búsettur í Berlín, en þótt 374 kvikmyndir séu á boðstólum á Berlinale hefur hann að eigin sögn lítinn tíma til að fara í bíó – lokasprettur undirbúningsins fyrir Luftbusiness gengur fyrir. Viðhorf hans er mjög í anda Rísandi stjarna; í kynningarviðtölum allra þátttakenda þessa árs kom fram viljinn til að vinna sem allra mest og víðast. Engir stjörnustælar, heldur ást á miðlinum og hugrekki til þess að takast á við nýjar áskoranir. "Ég vil vinna í ólíkum löndum með ólíkum leikstjórum því það þenur út mörkin og sjóndeildarhringinn," sagði hin skoska Kate Dickie. "Mig dreymir ekki um Hollywood, mig dreymir bara um að vinna og vinna."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.