16. febrúar 2007 | Tónlist | 536 orð | 1 mynd

Kristján Kristjánsson og Magnús Eiríksson gefa út plötu á framandi slóðum

KK og Maggi til Kína

Kínafarar "Við erum að fara að taka upp íslensk rútubílalög, en ég held að þeir sjái engan mun á því og rokki, blús og djassi," segir Kristján.
Kínafarar "Við erum að fara að taka upp íslensk rútubílalög, en ég held að þeir sjái engan mun á því og rokki, blús og djassi," segir Kristján. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is ÞEIR Kristján Kristjánsson, Magnús Eiríksson og Óttar Felix Hauksson eru á leið til Kína á þriðjudaginn kemur þar sem þeir munu taka upp plötu sem gefin verður út þar í landi sem og á Íslandi.
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

ÞEIR Kristján Kristjánsson, Magnús Eiríksson og Óttar Felix Hauksson eru á leið til Kína á þriðjudaginn kemur þar sem þeir munu taka upp plötu sem gefin verður út þar í landi sem og á Íslandi. Þá munu þeir einnig halda tónleika í Shanghai Grand Theatre í miðborg Sjanghæ.

"Mér tókst að opna dyrnar fyrir íslenska listamenn þegar ég var að gera samninga um útgáfu á Robertino í Kína, og hef verið iðinn við að kynna íslenska tónlist þar," segir Óttar, sem hefur alltaf verið með íslenska tónlist í fórum sínum á ferðalögum sínum í Kína.

"Ég hef verið að ota þessu að þeim og verið að reyna að kveikja áhuga þeirra. Ég verð að segja að ég varð mjög hissa þegar þeir sögðust hafa hug á að gefa út KK og Magga vegna þess að ég taldi þetta svo séríslenskt. En það er kannski einmitt þess vegna sem þeir sjá þetta sem athyglisverða heimstónlist, bara eins og við sem hrífumst af búlgörskum strengjasveitum þá hrífast þeir af KK og Magga."

Miklir möguleikar

Platan, sem hefur ekki enn fengið nafn, verður gefin út af Shanghai Audio and Video Publishing House sem er ríkisrekið fyrirtæki.

"Þetta er þriðja platan í ferðalagaflokknum, og gæti þess vegna heitið langferðalög," segir Óttar í léttum dúr, en áður höfðu þeir KK og Magnús sent frá sér plöturnar 22 ferðalög og Fleiri ferðalög. Óttar segir nýju plötuna verða í svipuðum dúr. "Þarna eru lög eins og "Bíddu við", fyrsta lagið með Geirmundi, "Minning um mann", og svo eru þarna lög eftir Ingimar Eydal og fleiri," segir hann, og bætir því við að allt verði að sjálfsögðu tekið upp á íslensku. Upptökurnar munu standa yfir í 12 daga, en þeim lýkur svo með fyrrnefndum tónleikum 3. mars.

Óttar segir mikla möguleika á þessum fjarlæga markaði.

"Kína er sá markaður í tónlistinni sem vex hraðast og þetta eru mjög spennandi tímar," segir Óttar og bætir því við að Jazzkvartett Sigurðar Flosasonar & Jóels Pálssonar hafi riðið á vaðið og gefið út fyrstu íslensku plötuna þar í landi fyrr í þessum mánuði.

Aðspurður segist KK hafa spilað í Kína í tvígang; í fyrra og fyrir um það bil átta árum. Þetta séu því bæði fornar og framandi slóðir fyrir hann. Hann segir ferðina leggjast mjög vel í sig. "Við erum að fara að taka upp íslensk rútubílalög, en ég held að þeir sjái engan mun á því og rokki, blús og djassi. Þetta hljómar allt eins og "kínverska" fyrir þeim, þetta er eins framandi fyrir þá og kínverska er fyrir okkur," segir KK sem hefur lítinn tíma fyrir spjall, enda að undirbúa langferð.

Í hnotskurn
» Óttar Felix Hauksson hefur verið töluvert í Kína á undanförnum árum þar sem hann hefur meðal annars verið að kynna Robertino.
» Fyrsta íslenska platan kom út þar í landi í byrjun þessa mánaðar, en þar var um að ræða plötu með Jazzkvartett Sigurðar Flosasonar & Jóels Pálssonar.
» Kínverskir útgefendur heilluðust af KK og Magnúsi Eiríkssyni og ríkisrekið fyrirtæki ætlar að gefa nýjustu plötu þeirra út þar í landi.
» Um er að ræða þriðju og síðustu plötuna í ferðalagaflokki þeirra félaga.
» Þeir munu svo halda tónleika í miðborg Sjanghæ 3. mars.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.