17. febrúar 2007 | Blaðaukar | 674 orð | 2 myndir

Íslenska sauðkindin

Sterk Þökk sé einstakri aðlögunarhæfni og nægjusemi landnámskindarinnar hefur sauðkindin dafnað hér við erfiðar aðstæður.
Sterk Þökk sé einstakri aðlögunarhæfni og nægjusemi landnámskindarinnar hefur sauðkindin dafnað hér við erfiðar aðstæður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar talað er um íslensk hráefni í tengslum við matargerð kemur íslenska lambið ósjaldan fram í hugann. Enda er lambakjötið eitt af aðalsmerkjum íslenskrar matargerðar. Guðlaugur Jón Árnason grennslaðist fyrir um sögu sauðfjárins hér á landi.
Íslenska sauðféð nú á dögum er beinn afkomandi þess fjár, sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins á 9. og 10. öld.Það voru ekki margar skepnur, að því að talið er, en líklega hafa þær fjölgað sér hratt fyrstu áratugi byggðar. Það er grein af svokölluðu stuttrófufé, sem áður fyrr var mjög algengt um alla norðanverða Evrópu en er nú sjaldgæft.

Á 19. öld vaknaði mikill áhugi á ræktun og kynbótum meðal fjárbænda á meginlandi Evrópu og í Bretlandi. Þessi áhugi náði einnig til Íslands og gerðar voru tilraunir með innflutning á sauðfé frá Evrópu til þess að kynbæta íslensla stofninn. Það mistókst hrapallega því sjúkdómar, sem íslensku kindurnar voru afar næmar fyrir, bárust með aðkomukindunum með hörmulegum afleiðingum fyrir sauðfjárræktina.Í dag er óheimilt að flytja sauðfé til landsins en bændur hafa á síðari tímum beint ræktuninni að innbyrðis kynbótum með góðum árangri.Erfðafræðilega er nútímasauðféð hið sama og það var í upphafi byggðar. Fyrir vikið er íslenski sauðfjárstofninn afar kynhreinn og varðveitir ýmsa forna eiginleika sem önnur sauðfjárkyn hafa glatað.

Nýttar í hörgul

Þökk sé einstakri aðlögunarhæfni og nægjusemi landnámskindarinnar hefur hún dafnað hér við erfiðar aðstæður.Stofninn náði hámarki árið 1978 en þá voru,samkvæmt Hagstofu Íslands,rúmlega 891 þúsund kindur á landinu. Mannfjöldinn þetta sama ár var hinsvegar 224 þúsund. Það eru rétt um fjórar kindur á hvern íbúa.

Sauðkindinni hefur hinsvegar fækkað nokkuð ört síðan þá og í dag eru í kringum 450 þúsundkindur í landinu.

Afurðir íslenska sauðfjárins eru fjölbreyttar og talið er að það sé með því afurðarbesta í heimi.Íslendingar nýttu líka sauðkindina út í hörgul hér á árum áður. Ull og skinn voru notuð í klæði og skófatnað og úr hornum smíðuðu menn spæni og hagldir. Upp á völur og leggi var undinn þráður og bein og horn voru leikföng barna. Tóbakspungar, buddur fyrir aura og annað smádót var unnið úr hrútspungum og hlandblöðrur voru loftvogir.

Úr kindakjöti og innmat voru matreiddir hinir ýmsu réttir. Margir þeirra eru vel þekktir enn í dag en aðrir eru fáséðari. Kjötið var ýmist etið nýtt eða verkað til geymslu og síðari tíma neyslu. Allir kannast við lambahrygg, læri, bóga, rifjasneiðar og súpukjöt, einnig hangiket og saltket. Allt eru þetta vinsælir hátíðarréttir í dag. Kindabjúgu standa einnig alltaf fyrir sínu. Súrsað ket, magálar og döndlareru sjaldgæfari en sjást þó í öllum þorrablótum og á borðum sannra sælkera.

Gleraugnapylsur

Innyfli kindarinnar, t.d. ristlar, hjörtu, lifur, nýru og vambir, voru einnig gjörnýtt í matargerð og blóðið notað í blóðmör, blóðgrauta og jafnvel blóðlummur og -pönnukökur. Úr heilanum voru gerðar heilastöppur og heilakökur sem mörgum þóttu hreint sælgæti.

Júgur kindarinnar voru allstaðar hirt til matar áður fyrr. Þau voru þá flegin og skorin í bita en síðan venjulega soðin og súrsuð. Kindalappir voru sviðnar, skafnar og stundum súrsaðar, en svið, sem gerð eru úr hausum sauðkindarinnar, eru vinsæll réttur enn í dag auk þess sem ný eða súrsuð sviðasulta er algeng víða á heimilum en ekki síður á þorrablótum.

Annar vel þekktur þorramatur er súrir hrútspungar. Í raun er þetta rangnefni þvíí dag snæða menn einungis eistun. Áður fyrr voru þau hins vegar geymd í pungunum sem höfðu verið rakaðir, sviðnir eða skafnir. Þeirvoru svo soðnir, súrsaðir og skornir í sneiðarsem minntu svolítið á gleraugu enda voru þeir oft kallaðir gleraugnapylsur.

Lungu voru notuð í grjúpán, garnir í sperðla eða bjúgu og legið var stundum notað til að drýgja blóðmör eða lundabagga.

Kjötsins vegna

Þótt þjóðin byggi ekki lengur afkomu sína á landbúnaði og sauðfjárrækt skipta afurðir sauðkindarinnar enn miklu máli fyrir hana. Íslenska ullin er gædd einstökum eiginleikum sem gera hana þjála og togþolna og veita flíkur úr íslenskri ull sérstaklega gott skjól gegn bæði kulda og bleytu.

Ullin hefur frá fornu fari verið notuð til klæðnaðar en auk þess var unnið úr henni vaðmál sem var helsta útflutningsvara Íslendinga ásamt ull og gærum allt þar til skreiðin tók við á 14. og 15. öld. Í dag eru íslenskar ullarvörur mjög vinsælar meðal erlendra ferðamanna sem sækja landið heim.

Hérlendis er sauðféð þó að mestu ræktað vegna kjötsins og rúmlega 80% tekna sauðfjárræktarinnar má rekja til þess.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.