Dagný Jónsdóttir
Dagný Jónsdóttir
Dagný Jónsdóttir fjallar um geðheilbrigðismál og svarar grein Ernu Arngrímsdóttur: "Eftir því sem þekking okkar er meiri á því hvernig notendur sjálfir meta þjónustuna sem veitt er, þeim mun betri árangri getum við vænst þess að ná."

Í MORGUNBLAÐINU 9. febrúar 2007 gerir Erna Arngrímsdóttir að umtalsefni samning félagsmálaráðuneytisins við AE starfsendurhæfingu sem undirritaður var 29. desember 2006.

Óhjákvæmilegt er vegna framsetningar bréfritara að gera grein fyrir því hvað umræddur samningur fjallar um.

"Markmið samningsins er að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna, sbr. drög að stefnu félagsmálaráðuneytisins um þjónustu við fötluð börn og fullorðna 2007-2016 og stefnu og framkvæmdaáætlun 2006-2010 vegna átaks ráðuneytisins í þjónustu við geðfatlað fólk og fella þjónustuna eins og unnt er að starfsemi annarra þjónustuaðila. Einnig að færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgengi að henni. Enn fremur að ná fram meiri skilvirkni, betri nýtingu fjármagns og auknum gæðum þjónustu."

Samningurinn felur í sér mat á þjónustu við geðfatlað fólk og stórátak í ráðgjöf og fræðslu

AE-starfsendurhæfing mun gera úttekt á hluta af þeirri þjónustu við geðfatlaða sem félagsmálaráðuneytið hefur forræði yfir og veitir fjármagn til. Á fyrri hluta samningstímans verða heimilin að Flókagötu 29–31 og Esjugrund 5 tekin út. Til samanburðar verða tekin út heimili þar sem við teljum að þjónusta sé til fyrirmyndar svo sem að Sléttuvegi 9. Við úttektina verður nýtt svokölluð NsN aðferð (Notandi spyr Notanda). Markmið NsN er að fá fram hvað í þjónustunni nýtist notendum vel og hvað síður. Þetta verkefni og aðferðin sjálf eru mjög mikilvæg; veitir notendum tækifæri til að hafa áhrif á gæði þjónustunnar og gerir fagfólki okkar kleift að þróa þjónustu við geðfatlað fólk í samræmi við óskir notendanna sjálfra.

AE-starfsendurhæfing mun útbúa fræðsluefni og miðla efninu til starfsmanna svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra. Á fyrri hluta samningstímans verður lögð sérstök áhersla á fjögur svæði á landsbyggðinni þar sem þjónusta við geðfatlaða er veitt á vegum ráðuneytisins. Svæðin tengjast Ísafirði, Egilsstöðum, Húsavík og Akureyri. Fræðsluefnið verður byggt á valdeflingu, notendarannsóknum og batarannsóknum, erlendum sem innlendum. Farið verður yfir hvað batahvetjandi þjónusta er að mati notenda og hvaða þættir einkenna batahvetjandi starfsmenn. Kannað verður hvort einhverjar hindranir eru á innleiðingu valdeflingar meðal geðfatlaðra og fagfólks. Kynnt verða réttindamál sem geðfatlaðir hafa lagt áherslu á í nágrannalöndunum og á hvern hátt þátttaka í hagsmunabaráttu getur skilað sér í auknum bata. Ráðgjöfin mun einnig beinast að því að aðstoða starfsmenn við að styrkja bakland notenda þjónustunnar. Enn fremur mun ráðgjöfin beinast að því að virkja aðstandendur, vini og vinnufélaga til stuðnings í bataferlinu.

Í ljósi þessa er ekki rétt að halda því fram að samningurinn snúist "bara um úttekt að þjónustu". Það er einnig rangt að láta að því liggja að með samningnum sé verið að "eyða rúmum 14 milljónum 2007 í úttekt á 5 sjúklingum". Í húsunum númer 29 og 31 við Flókagötu búa 12 manns, sex í hvoru húsi. Þar er þjónusta í fullum gangi. Sú þjónusta er veitt af miklum faglegum metnaði og henni verður haldið áfram meðan á endurbótum húsnæðisins stendur. Mat á þjónustu sem fram fer á árinu 2007 snertir því a.m.k. 24 einstaklinga, auk þess stóra verkefnis í ráðgjöf og fræðslu sem lýst er hér að framan.

Leitt er að bréfritari skuli velja það að nefna starfsemi Byrgisins í tengslum við umfjöllun sína um samninginn við AE-starfsendurhæfingu. Þannig er á óviðeigandi hátt verið að slá ryki í augu fólks og gera tortryggilegt ítarlegt ákvæði er skilgreinir þær upplýsingar og skýrslur sem verksala ber að leggja fram til þess að unnt sé að meta framvindu verkefnisins. Auk þessa greinargóða ákvæðis í 5. grein samningsins fylgir samningnum nákvæmlega tímasett verkáætlun sem auðveldar eftirfylgni. Það er því vandséð hvernig umfjöllun bréfritara gagnast geðfötluðu fólki.

Öll þjónusta samkvæmt samningnum skal veitt í samræmi við lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992 og stefnu og framkvæmdaáætlun félagsmálaráðuneytisins. Framtíðarsýn stefnunnar er eftirfarandi og skráð í 2. grein samningsins: "Þeir sem búa við fötlun [skulu] eiga, jafnt og aðrir, kost á stuðningi til sjálfstæðis og lífsgæða sem stuðla að því að þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og styrkleika og njóti virðingar. Því verði jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi leiðarljós allra aðgerða samfélagsins gagnvart fötluðum börnum og fullorðnum."

Átaksverkefni félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í þjónustu við geðfatlað fólk er afar mikilvægt og í takt við þá miklu og jákvæðu breytingu sem hefur orðið í viðhorfi samfélagsins til þeirra sem lifa með geðröskun og/eða geðfötlun. Eftir því sem þekking okkar er meiri á því hvernig notendur sjálfir meta þjónustuna sem veitt er, þeim mun betri árangri getum við vænst þess að ná. Þeim mun fleira fólk mun ná virkni og fá tækifæri til áframhaldandi starfa á almennum vinnumarkaði og búa við aukið sjálfstæði og meiri lífsgæði.

Höfundur er alþingismaður og formaður verkefnisstjórnar um uppbyggingu búsetu- og þjónustuúrræða fyrir geðfatlaða.