6. október 1993 | Innlendar fréttir | 396 orð

Bankarnir hafa ekki getað keypt viðskiptaskuldabréf eftir 1. október

Bankarnir hafa ekki getað keypt viðskiptaskuldabréf eftir 1. október Afborgunarsamningar standast ekki lög um neytendalán BANKAR og sparisjóðir hafa ekki getað keypt afborgunarsamninga sem gerðir hafa verið frá mánaðarmótum vegna þess að þeir standast...

Bankarnir hafa ekki getað keypt viðskiptaskuldabréf eftir 1. október Afborgunarsamningar standast ekki lög um neytendalán

BANKAR og sparisjóðir hafa ekki getað keypt afborgunarsamninga sem gerðir hafa verið frá mánaðarmótum vegna þess að þeir standast almennt ekki upplýsingaskyldu nýrra laga um neytendalán. Ef fyrirtækin ætla að selja þessi viðskiptaskjöl verða þau að láta reikna út kostnað við lántökuna og mánaðarlegar afborganir og leita lántakendurna aftur uppi til að kynna þeim upplýsingarnar á formlegan hátt. Bankarnir sjálfir náðu að útbúa forrit til að veita lántekendum þær upplýsingar sem lögin krefjast vegna þeirra eigin útlána. Fær fólk þessar upplýsingar á sérstöku skjali sem fylgir skuldabréfunum því þær komast ekki fyrir á núverandi skuldabréfaeyðublöðum.

Í lögunum um neytendalán, sem samþykkt voru í vor og gengu í gildi fyrsta þessa mánaðar, er fyrirtækjum og bönkum sem veita neytendalán gert skylt að veita fólki upplýsingar um lánin á samræmdan hátt þannig að fólk viti nákvæmlega hvað það á að greiða og geti auðveldar borið saman lánskjör mismunandi lánveitenda. Lán teljast neytendalán ef þau eru til lengri tíma en þriggja mánaða og eru á bilinu 15 þúsund til 1,5 milljónir kr. Ýmsir flokkar lána eru þó undanþegnir, svo sem lán sem tryggð eru með veði í fasteign og yfirdráttarheimildir tékkareikninga. Skuldabréfalán sem bankarnir veita með ábyrgðarmönnum, afborgunarsamningar vegna bílaviðskipta, heimilistækja og húsgagna falla undir skilgreiningu laganna.

Samkeppnisstofnun er falið eftirlit með framkvæmd laganna.

Viðauki við skuldabréfin

Stefán Pálsson, bankastjóri Búnaðarbankans og formaður Sambands viðskiptabanka, segir að Reiknistofa bankanna hafi gert bönkunum mögulegt að fullnægja skilyrðum laganna. Hins vegar er ekki pláss á núverandi formi skuldabréfa fyrir viðbótarupplýsingarnar af þessu tagi og eru þær því fyrst í stað látnar fylgja á viðaukabréfi. Þar koma fram mánaðarlegar greiðslur og raunkostnaður við lántökuna. Þar kemur einnig fram staðfesting lántakanda á því að honum hafi verið kynntar þessar upplýsingar.

Stefán segir að í lögunum séu nokkuð stíf skilyrði og geti bankarnir ekki keypt lánssamninga sem fyrirtæki gera við neytendur nema þau séu uppfyllt. Segir hann að svo virðist sem viðskiptalífið hafi sofið á verðinum í þessu máli því frá mánaðarmótum hafi þurft að reka menn til baka með alla nýja lánssamninga. Nýju upplýsingarnar vanti og fyrirtækin hafi heldur ekki keypt sér nauðsynlegar ábyrgðartryggingar vegna skilmála laganna um rétt neytenda til að rifta slíkum samningum. Stefán segir að þetta hafi valdið erfiðleikum hjá mörgum fyrirtækjum sem treystu á rekstrarfjármögnum með greiðri sölu viðskiptaskuldabréfa.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.