1. mars 2007 | Minningargreinar | 7121 orð | 1 mynd

Ingvar Ásmundsson

Ingvar Ásmundsson fæddist í Reykjavík 10. júlí 1934. Hann lést á líknardeild Landspítalans Kópavogi 21. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Hanna Ingvarsdóttir, f. 6. nóvember 1914, d. 6. febrúar 2002, og Ásmundur Ólason, f. 25. október 1911, d. 25. mars 1996. Systkini Ingvars eru: Hörður, f. 2. maí 1936, d. 20. júní 1938, Óli Jóhann, f. 18. mars 1940, Þorbjörg, f. 20. mars 1943, Kjartan Hörður, f. 8. apríl 1946, Ásmundur, f. 2. október 1948, og Leifur, f. 22. september 1951, d. 8. ágúst 1961.

Hinn 27. júní 1958 kvæntist Ingvar Guðrúnu Jóhönnu Þórðardóttur, f. 7. apríl 1940. Foreldrar hennar eru Aðalheiður Þorsteinsdóttir, f. 2. nóvember 1917, og Þórður Ágúst Þórðarson, f. 7. ágúst 1907, d. 5. ágúst 1985. Ingvar og Guðrún eignuðust þrjá syni. Þeir eru: 1) Áki, f. 20. september 1959. Hann á tvo syni, Ómar Inga, f. 5 október 1981, og Ingvar Örn, f. 19. apríl 1984. 2) Ásmundur, f. 12. desember 1960. Hann á þrjú börn, Ingvar, f. 22. mars 1988, Emmu, f. 7. nóvember 1990, og Emil, f. 8. janúar 1995. 3) Þórður, f. 25. ágúst 1962. Hann á fimm börn, Guðrúnu Jóhönnu, f. 4. júlí 1983, hún á eitt barn, Dagnýju Lind, f. 31. maí 2004; Stefaníu Ýri, f. 3. október 1990, Lúðvíg Árna, f. 15. mars 1992, Karólínu, f. 8. júlí 1994, og Þóru Andreu, f. 25. september 1995. Ingvar átti barn með Hjördísi Thomsen, Mass Inga, f. 2. ágúst 1955, d. 14. september 2006, hann var búsettur í Færeyjum.

Ingvar lauk stúdentsprófi frá MR 1953. Hann stundaði nám í stærðfræði við HÍ, Kaupmannahafnarháskóla og Stokkhólmsháskóla. Hann lauk BA-prófi í stærðfræði 1968, en stundaði einnig nám í forritun og kerfisfræði.

Ingvar var stærðfræðikennari við ML 1957–1966 og við MH 1966–1968. Hann var skrifstofustjóri hjá Rafmagnsveitum Reykjavíkur 1968–1970, stærðfræðikennari við MR 1970–1971 og við MH 1971–1977. Hann varð konrektor við MH 1977, áfangastjóri við FB 1978, fjármálastjóri hjá Rafmagnsveitum Reykjavíkur 1979–1980, og skólameistari Iðnskólans í Reykjavík 1980–2000.

Ingvar gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir skákhreyfinguna, menntaskólakennara og skólameistarafélagið. Hann var í landsliði Íslands í skák um árabil og tefldi m.a. á ólympíuskákmótum. Ingvar var m.a. í efsta sæti á World Open 1978 ásamt öðrum, Skákmeistari Íslands 1979 og náði góðum árangri á EM- og HM-mótum öldunga á sl. árum. Ingvar samdi kennsluefni í stærðfræði og skák og sá um skákþætti í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum.

Ingvar varð heiðursfélagi Skáksambands Bandaríkja Norður-Ameríku 1972 og hlaut meistaratitil Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) 1987.

Útför Ingvars verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Þegar við bræðurnir fengum ávæning af því að hún systir okkar væri farin að slá sér upp með þekktum skákmeistara ríkti nokkur eftirvænting hjá okkur að hitta kappann því við höfðum allir mikinn áhuga á skák og ekki var verra að hann væri vinur Friðriks Ólafssonar og þeir væru að semja kennslubók í skák "Lærið að tefla". Og það urðu svo sannarlega engin vonbrigði með tilvonandi mág okkar. Hann var fljótur að vinna hug okkar. Við fengum svo allir áritaðar kennslubækur af honum og Friðriki. Mig minnir þó að eldri bræðrum mínum hafi fundist þeir ekki þurfa að nota hana mikið þar sem hún væri ætluð byrjendum aðallega en þeir væru lengra komnir! En hún var kærkomin lesning fyrir mig þar sem ég rétt kunni mannganginn. Og síðan er liðin nær hálf öld nú þegar Ingvar hefur kvatt þennan heim fyrir aldur fram eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm, sem hann barðist hetjulega við í nokkur ár og laut ekki fyrir fyrr en "endataflið" var orðið vonlaust. Og minningarnar hrannast upp frá þessum fyrstu árum sem við vorum að kynnast honum. Það var fylgst með þegar hann var að tefla á Íslandsmótinu í landsliðsflokki í Domus Medica og er mér sérstaklega minnisstætt þegar ein skák hans var sýnd á skýringarborði og lauk með sigri hans eftir glæsilegan drottningarleik upp í borð hjá andstæðingnum eftir skálínunni þar sem hún hafði látið lítið fara fyrir sér og mátti andstæðingurinn gefast strax upp og uppskar Ingvar þá mikið lófaklapp frá áhorfendum og þá var tólf ára drengur stoltur af mági sínum. Aðrir munu sjálfsagt gera skákferli hans góð skil en þó verð ég að minnast þess er hann náði því langþráða takmarki sínu að verða Íslandsmeistari í skák árið 1979. Ég efast ekki um að hann hefði náð langt ef hann hefði alfarið snúið sér að skákinni en kennslan og skólastarfið varð hans ævistarf og nutu margir góðs af því, þar á meðal ég sjálfur stuttlega. Hafði fengið falleinkunn í stærðfræði á miðsvetrarprófi fyrir gagnfræðapróf og var því sendur um páskana í aukatíma hjá honum austur að Laugarvatni þar sem hann kenndi við menntaskólann og bjuggu hann og systir í íbúð í skólanum sjálfum. Kennslan var einföld en árangursrík. Ég fékk tvöfalt hærri einkunn um vorið og kunni ég honum miklar þakkir fyrir þessa hjálp, sem ég held að sýni að hann kunni til verka þegar kennsla var annars vegar. Fyrir nokkrum árum rifjaði ég þessa kennslu upp fyrir honum til gamans og fannst honum ég gera of mikið úr sínum hlut enda var hann ekki fyrir að stæra sig af sínum verkum. Sjálfsagt hefur þetta verið létt verk fyrir hann þar sem stærðfræðin sem ég var að glíma við um páskana forðum var ekkert í líkingu við það sem hann var að kenna í menntaskólanum. En kennslan virkaði!

Að lokum votta ég og fjölskylda mín systur minni, sonum þeirra og systkinum hins látna okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Ingvars Ásmundssonar.

Hlynur Smári Þórðarson.

Það eru aðeins nokkrir dagar síðan við Ingvar, mágur minn röltum um í Kópavoginum í góðu veðri talandi um pólitík og flokkaflandrið á mönnum í dag. Hann var langt leiddur af veikindum sínum, en samt var allt á hreinu um þjóðfélagið í dag, jafnt sem persónulega hagi þeirra er stóðu honum nærri.

Kynni okkar hófust fyrir nær hálfri öld, er hann birtist mér, sem væntanlegur eiginmaður einkasystur minnar. Við fyrstu kynni fannst mér óþægilegt hvað hann horfði fast í augu mér, þegar hann vænti svars, en þetta vandist. Þetta var hans stíll.

Það var ekki fyrr en Ingvar kom aftur í bæinn, eftir dvölina á Laugarvatni að samskiptin urðu meiri. Okkur hjónum er minnisstætt þegar við komum í heimsókn í Breiðholtið eitt haust, þá spurði Ingvar hvort við værum ekki til í að koma í golfferð með þeim hjónum til Englands, eftir um tíu daga. Golfkennari var á lausu uppi í Grafarholti og eftir nokkurra tíma kennslu var haldið af stað til Englands undir öruggri leiðsögn Ingvars, spilað golf og gist á eldri borgara hóteli í Bournemouth. Þar nutum við lífsins sem yngsta fólkið á heimilinu. Þarna upplifðum við einhverja eftirminnilegustu ferð okkar.

Þó að Ingvar hafi ekki virst vera léttur við fyrstu sýn ókunnugra, var mjög stutt í húmorinn. Hann var ákaflega traustur og gott að leita til hans, þegar eitthvað bjátaði á. Og ekki þurfti að biðja um þann stuðning.

Elsku Dúna systir, ég veit að missir þinn er mikill þegar besti vinurinn þinn og ævifélaginn er horfinn á braut. Við Stína biðjum Guð að umvefja þig í söknuði þínum. Guð geymi þig og börnin ykkar öll.

Þorsteinn V. Þórðarson.

Ingvar Ásmundsson, skákmeistari og fyrrum skólameistari Iðnskólans, er látinn á 73. aldursári.

Ingvar var fyrr á árum í fremstu röð íslenskra skákmanna og raunar lét hann einnig til sín taka á þeim vettvangi, með býsna góðum árangri, á síðari árum eftir að hann lét af störfum. Við Ingvar vorum nánast jafnaldrar; hann hálfu ári eldri en ég, og það átti fyrir okkur að liggja að eiga samleið um ævintýralendur skákarinnar um alllangt skeið. Með okkur stofnuðust vináttubönd, sem aldrei rofnuðu, þótt samskiptin yrðu strjálli þegar á leið og störf okkar kölluðu okkur hvorn á sinn vettvanginn í dagsins önn. Með Ingvari er genginn mikill hæfileikamaður og einhver einlægasti iðkandi skáklistarinnar sem ég hef kynnst. Á skilnaðarstund kveð ég hann með virðingu og þakka honum trausta vináttu sem varðveitast mun í minningunni um góðan félaga.

Ekki man ég gjörla hvenær leiðir okkar Ingvars lágu fyrst saman, það hefur líklega verið fyrri hluta árs 1947, fyrir 60 árum síðan. Í þá daga átti ég heima á Laugaveginum, rétt fyrir ofan vatnsþróna (við "Hlemm"), og einn góðan veðurdag kvaddi þar dyra vörpulegur piltur, sem sagðist heita Ingvar, eiga heima í Hlíðunum og vildi ræða við mig um skák. Skemmst er frá því að segja að við Ingvar áttum mikið saman að sælda næstu árin. Í gömlum skákskrifbókum má sjá að við höfum teflt margar æfingarskákir á þessum árum. Í skrifbókinni minni gefur að líta svohljóðandi formála með fyrstu skákinni:

Einvígi. Fyrsta skák, mánudaginn 15. desember 1947. Tefld Drápuhlíð 23. Hvítt: Ingvar Ásmundsson. Svart: Friðrik Ólafsson. Drottningarbragð – eða Ensk byrjun. Byrjanaþekkingin hefur ekki verið alveg á hreinu. Vissara að nefna báðar byrjanirnar! Skákinni lyktaði með jafntefli.

Við félagarnir stóðum okkur yfirleitt vel í mótum, sem við tókum þátt í á þessum árum, þrátt fyrir ungan aldur. En þarna vorum við ekki einir um hituna. Skákin var afar vinsæl í MR á þessum árum og menntaskólapiltarnir, sem voru nokkru eldri en við, voru farnir að láta að sér kveða; þ. á m. Guðmundur Pálmason, sem var örugglega kominn í hóp bestu skákmanna okkar á þessum árum, það sannaði 2. sæti hans í Euwe-mótinu svonefnda 1948, þegar fyrrverandi heimsmeistari, dr. Euwe, kom hingað til lands og tók þátt í móti með fremstu íslensku skákmönnunum.

Eftirstríðsárin voru sérstakur kafli í íslensku þjóðlífi. Sjálfstæðið var nýfengið og Íslendingar voru að reyna að átta sig á stöðu sinni meðal þjóða heims. Þátttaka íslenskra skákmanna í skákmótum erlendis hafði verið fremur stopul fram að þessu en að stríðinu loknu komst hreyfing á. Ísinn var brotinn, þegar Baldur Möller varð Norðurlandameistari í skák í Örebro 1948 og sýndi það og sannaði að Íslendingar voru engir eftirbátar bræðraþjóðanna á Norðurlöndum. Hann staðfesti þetta með sigri sínum öðru sinni á Skákþingi Norðurlanda í Reykjavík 1950.

Þetta var umhverfið, þegar við Ingvar vorum að stíga okkar fyrstu spor í skákinni. Eitt minningabrotanna, sem lýsir vel kappsemi okkar á þessum árum, kemur oft upp í hugann. Hjá Taflfélagi Reykjavíkur hafði verið bryddað upp á þeirri nýjung haustið 1949 að efna til sveitakeppni, þar sem félagsmenn skipuðu sér í 4-manna sveitir. Þá skipti náttúrlega miklu máli að komast í sveit með sterkum skákmönnum. Við Ingvar ákváðum strax að vera saman í sveit en þá þurfti líka að finna tvo "góða" til að skipa sveitina með okkur. Við stráklingarnir vorum ekkert að tvínóna við hlutina en löbbuðum okkur þar sem leið liggur niður Laugaveginn, og vestur í bæ, og upp á Sólvallagötu, heim til Baldurs Möller, kvöddum þar dyra og óskuðum eftir því að fá að tala við húsbóndann. Þegar Baldur birtist bárum við upp erindið og því var ljúflega tekið, eins og Baldurs var von og vísa. Eftir að Baldur var kominn í liðið fannst okkur þrautin unnin og ekkert vandamál með fjórða manninn. Að sjálfsögðu urðum við svo efstir í sveitakeppninni!

Sigrún, eiginkona Baldurs, sagði mér síðar að Baldur hefði haft mjög gaman af þessari heimsókn okkar Ingvars – það hefði glatt hann að við skyldum vilja fá hann til liðs við okkur. "Þessi strákar eiga eftir að spjara sig," sagði hann.

Þótt þessi minningabrot séu orðin meira en hálfrar aldar gömul standa þau mér enn lifandi fyrir hugskotssjónum. Við Ingvar höfum farið víða um skákheiminn síðan, oft sem hlekkir í keðju liðsheildar, þegar sendar voru sveitir til þátttöku í Ólympíumótum eða stúdentamótum. Ingvar var þægilegur félagi, heill og óskiptur í því sem hann tók sér fyrir hendur, með sínar skoðanir á hlutunum og ávallt var kímnin á næsta leiti. Nú þegar komið er að kveðjustund vil ég enn á ný þakka samfylgdina, sem hófst einn góðan veðurdag á Laugaveginum, rétt fyrir ofan vatnsþróna.

Við Auður sendum Guðrúnu og ástvinum öllum innilegustu samúðarkveðjur okkar.

Friðrik Ólafsson.

Ingvar Ásmundsson, fyrrverandi skólameistari Iðnskólans í Reykjavík, lést 21. febrúar, 72 ára að aldri eftir illvígan sjúkdóm.

Hann var um langt skeið einn atkvæðamesti skólamaður hérlendis. Áhrifa hans gætir enn miklu víðar en í þeim merka skóla sem hann stýrði 1980–2000.

Hann var frá unga aldri einn sterkasti skákmaður okkar. Ingvar var 12 ára gamall þegar var að hefjast farsælt framfaraskeið í þeirri merku hugaríþrótt. Margir afreksmenn komu fram en mestar vonir voru bundnar við tvo unga drengi Ingvar og Friðrik Ólafsson.

Ingvar lauk stúdentsprófi 19 ára og hóf nám í stærðfræði við Háskóla Íslands en nam síðan í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi.

Mikill skortur var þá á stærðfræðikennurum. Menntaskólinn á Laugarvatni var þá nýstofnaður og haustið 1957 réð hann sig þangað – ef til vill til þess að afla fjár til frekara náms en reyndin varð að Ingvar starfaði þar til vors 1966. Bókfærslunámi lauk Ingvar 1954 og jafnframt kennslunni á Laugarvatni tókst honum að ljúka BA-prófi í stærðfræði 1965. Nám í forritun og kerfisfræði stundaði hann í Reykjavík og Kaupmannahöfn veturinn 1968–69.

Sumarið 1958 festi hann ráð sitt – kvæntist Guðrúnu Jóhönnu Þórðardóttur 18 vetra öndvegiskonu sem varð traustur lífsförunautur hans og eignuðust þau saman þrjá syni.

Haustið 1966 hófst kennsla í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Fram til þess árs hafði aðeins einn slíkur skóli verið í höfuðborginni, gamli Menntaskólinn í Reykjavík.

Kennsluhættir höfðu þar haldist lítt breyttir mjög langa hríð og hinir menntaskólarnir – á Akureyri og Laugarvatni fylgt að mestu starfsháttum móðurskólans.

Rektor MH var ráðinn Guðmundur Arnlaugsson sem kennt hafði stærðfræði og raungreinar rúma tvo áratugi – lengst af í MR.

Guðmundur varð 53 ára skömmu eftir fyrstu skólasetningu og var elstur í kennaraliðinu. Hann réð sex fasta kennara og tvo stundakennara. Einn þeirra var Ingvar. Frá 1966 til 1980 var Ingvar lengst af kennari og deildarstjóri í stærðfræði við MH og gegndi jafnframt stöðu konrektors á haustönn 1979.

Fáir áttu von á að Guðmundur hefði í huga að bylta námskerfinu en teikn í þá veru komu þegar fram.

Þegar ljóst varð að rektor og kennarar MH ætluðu ekki að feta í spor hefðbundinna skóla greip um sig órói í samfélaginu. Umræður og blaðaskrif stóðu lengi en rektor studdi allar nýjungar og Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra lét sér framvinduna vel líka. Rektor vildi ekki einungis breyta kennslutilhögun heldur lýsti áhuga á að leggja niður bekkjakerfið og taka upp áfangakerfi sem hafði í för með sér að nemendur gætu ráðið námshraða sínum og hefðu víðtækt námsgreinaval þótt allir yrðu að ljúka tilteknum einingafjölda í kjarnagreinum.

Rektor setti nefnd fjögurra kennara til þess að undirbúa breytingar í samráði við sig og setti fyrir að gæðakröfur til stúdentsprófs yrðu ekki minni en áður hafði tíðkast. Tókst nefndinni ætlunarverk sitt með ágætum og reyndist Ingvar þar mikilvirkur. Fyrst var áfangakerfið einungis í MH en breiddist út eftir 1975 og er nú notað í flestum framhaldsskólum í landinu.

Haustið 1980 varð laust embætti skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík. Ég hvatti Ingvar til þess að sækja um sem hann gerði, hlaut einróma stuðning skólanefndar og síðan skipun í embættið. Skólinn hafði um skeið verið í hnignun og voru jafnvel horfur á að hann tvístraðist. Þessu afstýrði Ingvar með atfylgi skólanefndar og sumra starfsmanna en einnig voru margir í fjölmennu kennaraliði andvígir viðleitni Ingvars. Honum tókst þó að mestu að endurvekja forna reisn skólans.

Hann jók vægi nauðsynlegs bóknáms, kom á áfangakerfi, lækkaði rekstrarkostnað og tókst að stofnsetja tölvunámsbraut sem lýkur með stúdentsprófi. Hafa ekki aðrir betur gert til þess að færa starfsnám til jafnrar virðingar við bóknám.

Eftir starfslok verðskuldaði Ingvar að njóta hvíldar og ánægjulegrar elli – en þrátt fyrir bataviðleitni lækna og góða umönnun konu hans sigraði sá sem alla leggur að velli.

Ingvar Ásmundsson var stefnufastur, afburðaduglegur og einnig framsýnn, hjartahlýr og vinfastur.

Við Guðrún mín og fjölskylda kveðjum ágætan vin og sendum Guðrúnu hans, sonum, venslafóki og vinum innilegar samúðarkveðjur. Megi sorg þeirra verða mild en ekki beisk.

Jón Böðvarsson.

Vinur minn Ingvar Ásmundsson er horfinn yfir móðuna miklu. Til fárra var betra að leita ráða í erfiðum úrlausnarefnum en Ingvars. Hann hafði einstaka hæfileika til að kristalla aðalatriði flókinna mála í fáeinum setningum.

Ekki er rúm hér til að rekja feril Ingvars né æviatriði. Þar er margs að geta sem vert væri að hyggja að. Í stuttri minningargrein er aðeins unnt að fleygja fram í hasti því sem kemur í hugann við snögga umhugsun um manninn sjálfan. Fyrst verð ég að játa að ég sakna vinar. Hefði viljað eiga hann lengur að. Ingvar var traustur vinur. Hann var vinfastur og vinur vina sinna. Hann gat verið ákveðinn og fylgt skoðunum sínum fast fram. Ingvar var keppnismaður og gat verið skapharður en mildaðist með árunum og þá kom hans heilsteypti innri maður skýrar fram. Ingvar var stærðfræðingur og hugsaði sem slíkur. Í umræðum setti hann fram skipulegar lausnir mála, hann hafði sterka dómgreind og var glöggur í mati sínu á mönnum og málefnum og gat skilgreint í örfáum setningum það sem var einkennandi í fari manna. Hann hafði mikinn áhuga á þjóðmálum og var raunsæismaður þegar koma að úrlausnum.

Hann starfaði með okkur í hópi áhugamanna um að aðstoða Robert Fischer við að losna úr prísund í Japan og komast til Íslands. Þá kom skýrt fram eins og endranær að Ingvar lét ekki aukaatriði afvegaleiða sig. Meitlað kom hann ævinlega auga á það sem skipti máli og einbeita bar sér að.

Skákin átti hug hans. Hann var um áratugi einn af allra sterkustu skákmeisturum landsins, tefldi fyrir Ísland á erlendri grund og var Íslandsmeistari. Síðustu árin átti hann sér í skákinni heiðríkan heim ofar skýjum og fann þar bæði styrk og ánægju.

Víða liggja vegamót. Ósjaldan leitaði ég til Ingvars þegar vegir greindust í ólíkar áttir. Aldrei kom ég að tómum kofunum og ævinlega reyndust ráð hans vel. Nú er skarð fyrir skildi. En Ingvar Ásmundsson skilur eftir í huga þeirra vina sinna sem enn eiga eftir "ófarið örstutt æviskeið" minningu um traustan vin. Vafalítið munum við spyrja þegar við tökumst á við margflókin úrlausnarefni þar sem þoka hylur útsýn: Hvar er Ingvar?

Ef lífsgátan er rétt ráðin á þann veg að líf sé eftir þetta líf eigum við e.t.v. eftir að raða upp á sextíu og fjögurra reita borð í góðu tómi eða sitja saman og ræða stöðuna á sýningarborði einhvers skákmótsins. Þá gefst tími til að fara yfir margt sem fórst fyrir í skyndilátum hversdagsins.

Guðrúnu, börnum Ingvars, ættingjum og vinum sendi ég mínar samúðarkveðjur.

Guðm. G. Þórarinsson.

Fyrstu minningar mínar um Ingvar ná röska hálfa öld aftur í tímann er hann hóf að venja komur sínar á Hótel Skák, en svo nefndist heimili foreldra minna svo lengi sem mig rekur minni til. Um þessar mundir voru "æfingarbúðir" Hótels Skákar í sumarbústað fjölskyldunnar nokkuð vestan við gamla Grafarholt en þangað sóttu fjölmargir einstaklingar sem flestir ef ekki allir urðu síðan landskunnir skákmenn, bæði andlega og líkamlega skákþjálfun sína um margra ára skeið.

Ingvar var þá í menntaskóla, hár, grannur með svart burstaklippt hár síbrosandi eða hlæjandi, kvikur í hreyfingum og vaskur við skákborðið sem og í fótboltanum sem jafnan var tekið til við eftir hverjar fjórar til fimm umferðir í skákinni. Þetta var á þeim árum upp úr 1950 þegar aldrei rigndi um helgar, að minnsta kosti ekki í minningunni, teflt var undir berum himni að jafnaði á 10–15 borðum, dásamlegir og ógleymanlegir tímar. Þótt Ingvar væri sex árum eldri en ég fékk ég að njóta meðfæddrar samræðusnilldar hans ekki síður en þeir sem eldri voru.

Næst rekur okkur Ingvar saman svo um munaði þegar hann gerðist kennari minn í stærðfræði við menntaskólann á Laugarvatni frá 1957–61. Þar var hann í hlutverki hins faglega uppalanda og lagði höfuðáherslu á nákvæmni í vinnubrögðum og að dýpka skilning á sönnun stærðfræðikenninga. Ingvar var afburða stærðfræðikennari og bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Hann gerði ekki upp á milli nemenda sinna og gerði strangar kröfur til allra óháð vináttu og ætterni.

Eftir að Ingvar hætti kennslu á Laugarvatni hóf hann komur sínar enn á ný á Hótel Skák og tefldi í bakaríi föður míns ásamt fjölda annarra skákmanna. Þegar heilsu föður míns tók að hraka, heimsótti Ingvar foreldra mína reglulega ásamt Dúnu sinni og voru þau með fádæmum ræktarsöm við þau fram til hinstu stundar.

Mikil vinátta var milli Ingvars og eldri systkina minna, Þórarins og Önnu sem bæði féllu frá langt um aldur fram.

Þá vorum við Ingvar félagar í stórum skákklúbbi sem var gefið nafnið Bakaríið

Enn lágu leiðir okkar saman í stjórn Iðnskólans í Reykjavík um nokkurra ára skeið og bar aldrei skugga á það samstarf.

Ingvar tók veikindum sínum af mikilli karlmennsku og barðist við þau með einstakri hjálp Dúnu langt umfram eðlileg þolmörk. Hann var ástríðuskákmaður af hæsta gæðaflokki og hélt ótrúlegum skákstyrk fram undir það síðasta.

Ég og fjölskylda vottum Dúnu, sonum þeirra, systkinum og ástvinum dýpstu samúð okkar á þessum erfiðu tímum.

Edgar Guðmundsson.

Kveðja frá samstarfsmönnum við Iðnskólann í Reykjavík

Ingvar Ásmundsson tók við skólastjórn Iðnskólans í Reykjavík árið 1980. Hann hafði þá getið sér gott orð sem öflugur og vinsæll stærðfræðikennari í menntaskólum um árabil og einnig sem millistjórnandi við Menntaskólann við Hamrahlíð og Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem hann tók virkan þátt í brautryðjendastarfi beggja skólanna á áttunda áratug síðustu aldar.

Reynsla hans sem fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur var líka Iðnskólanum dýrmæt og síðast enn ekki síst var Ingvar þjóðkunnur skákmaður sem hafði ásamt félögum sínum af sömu kynslóð gert Ísland að stórveldi í skákheiminum, þar var hann þekktur fyrir hæfileika, útsjónarsemi og seiglu.

Fljótlega kom í ljós að þessa eiginleika hugðist hann nýta til hins ýtrasta í þágu skólans og starfsmenntunar og fór líkt og Arkimedes að leita að viðspyrnu til að koma hlutunum á hreyfingu. Eitt það fyrsta sem hann beitti sér fyrir var að innleiða áfangakerfið inn í Iðnskólann og í framhaldi af því í fleiri starfsmenntaskóla en jafnframt því að stjórna Iðnskólanum var hann formaður skólanefndar Vélskólans. Þessi kerfisbreyting tengdi betur saman bóknámsskólana annars vegar og starfsmenntaskólana hins vegar og auðveldaði nemendum að flytjast milli skóla og fá fyrra nám sitt metið. Í framhaldi varð síðan að hraða tölvuvæðingu skólans þar sem flókin töflugerð og umfangsmikið nemendabókhald krafðist þess.

Þar sýndi Ingvar mikla framsýni og íslenskir skólar náðu þar forskoti í tölvuvinnslu og gagnaumsýslu sem þeir búa enn að.

Næstu skref voru að innleiða tölvunám í allar iðngreinar og koma á fót öflugri tölvubraut við skólann og bæta þar með úr brýnni þörf í íslensku athafna- og atvinnulífi á haldgóðri menntun á því sviði. Þetta gerði Ingvar þrátt fyrir harkaleg mótmæli þröngsýnna aðila sem ekki töldu þörf á sérhæfðri tölvumenntun og töldu hana aðför að sérhagsmunum sínum. Um miðjan níunda áratuginn fékk svo Iðnskólinn heimild til að útfæra sérstaka tæknistúdentsbraut sem gerði miklar kröfur til nemenda. Sú braut hefur nú um rúmlega tveggja áratuga skeið auðveldað fjölmörgum iðnaðarmönnum og öðrum sem lokið hafa starfsmenntun að afla sér frekari menntunar. Hann lagði alla tíð áherslu á gildi almennra greina, ekki síst raungreina, sem nauðsynlegan þátt í allri starfsmenntun.

En sýn Ingvars á menntun náði til fleiri en þeirra sem eiga auðvelt með nám.

Undir stjórn hans var unnið brautryðjendastarf við greiningu og námsaðstoð við lesblinda og aukið og eflt námsframboð fyrir seinfæra nemendur á sérstökum námsbrautum.

Segja má að með þessu starfi sem tekið hefur verið upp víðar í skólakerfinu hafi ákveðnum fordómum gagnvart þessum hópum verið eytt og nú vilja allir skólamenn þessa Lilju kveðið hafa.

Þegar Rauði krossinn og fleiri aðilar leituðu eftir samstarfi við Iðnskólann um að koma á fót sérstöku tölvu- og bókhaldsnámi fyrir mænuskaddaða fannst Ingvari sjálfsagt að bjóða afnot af tölvubúnaði skólans og kennslustofum enda var það besta aðstaðan sem fannst í skólakerfinu. Þetta starf hefur svo vaxið og dafnað og er í dag rekið sem sjálfstæð stofnun undir nafninu Hringsjá. Á sama hátt tók hann vel á móti forsvarsmönnum Janusar endurhæfingar og veitti þeim góða fyrirgreiðslu og aðstoð en það sjálfstyrkingar- og fræðslustarf er enn rekið í nánum tengslum við Iðnskólann.

Hann orðaði sjálfur stefnu sína í skólamálum á einfaldan hátt.: "Sem mesta menntun fyrir sem flesta".

Hann beitti sér mjög fyrir bættu verklagi við stjórnun og skipulagningu og var frumkvöðull í því að innleiða hugmyndafræði altækrar gæðastjórnunar í skólastarf.

Einnig lagði Ingvar mikla áherslu á að skólinn væri rekinn á öflugan og hagkvæman hátt og lagði metnað sinn í að fjárhagsleg afkoma hans væri góð sem er svo sannarlega ekki alltaf auðvelt í íslenska framhaldsskólakerfinu.

Samhliða annasömu starfi við Iðnskólann tók Ingvar mjög virkan þátt í samstarfi skólastjórnenda enda gerði hann sér grein fyrir hve miklu máli það skipti fyrir starfsmenntanámið að áhrif stjórnenda þeirra skóla væru mikil í skólasamfélaginu.

Hann var um nokkurt árabil formaður skólameistarafélagsins og efldi mjög áhrif og styrk þess félags, ekki síst sem hagsmunafélags fyrir skólana í stöðugri glímu við fjárveitingavald og miðstýringaröfl. Einnig skipti þátttaka hans og stjórn í Sambandi iðnmenntaskóla og Iðnskólaútgáfunni sköpum en starfsemi þessara samþættu aðila jókst mjög á þessu tímabili og Iðnskólaútgáfan varð að öflugu útgáfufyrirtæki.

Síðustu árin við Iðnskólann mætti Ingvar nokkrum mótbyr í starfi og á svipuðum tíma veiktist hann alvarlega og dró það eðlilega úr starfsþreki hans og baráttuanda. Erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvað gerðist en stjórnunarstíll hans var stundum nokkuð umdeildur og í framhaldi af kjarasamningum sem drógu úr miðstýringu og fluttu kjaraágreining í ríkari mæli inn í skólana var hrundið af stað erfiðri atburðarás.

E.t.v. má segja að Ingvari hafi látið betur og verið vanari að skapa atburðarásina en að láta stjórnast af henni.

Hann var sjálfum sér samkvæmur, hvikaði hann hvergi heldur strengdi klóna og sigldi upp í hvassan beitivind. Eftir nokkuð stormasama siglingu ákvað hann þó að halda í var og einbeita sér að því að takast á við erfið veikindi. Hann fór því á eftirlaun sem hann hafði svo sannarlega unnið fyrir árið 2000.

Það reyndist vera rétt ákvörðun því að hann náði sér að nokkru og gat aftur sinnt ýmsum hugðarefnum svo sem skákinni en þar náði hann frábærum árangri og tefldi víða um heim og sannaði óumdeilanlega eins og þeir Kortsnoj, Nadorf og fleiri skákmeistarar hafa gert að taflmennskan er ekki bara íþrótt hinna ungu.

En krabbameinið er erfiður andstæðingur og það tók sig upp aftur á óvæginn hátt.

Síðustu vikurnar dvaldi Ingvar á líknardeild Landspítalans og þegar nokkrir vinir hans úr Iðnskólanum hittu hann þar nokkrum dögum fyrir andlát hans var auðsætt að hverju stefndi. Það var líka ljóst að þessi mikli keppnismaður var búinn að gera sér fulla grein fyrir því að lífsins skák var töpuð. En æðruleysi hans og hugarró benti líka til þess að Ingvar sæi eins og svo oft áður lengra fram í tímann og undirbúningur fyrir næstu skák væri hafinn. Þar verður eins og jafnan hjá honum, teflt til sigurs.

Við samstarfsmenn Ingvars og vinir þökkum fyrir samvinnuna og leiðtogastarfið og sendum eftirlifandi konu hans, sonum þeirra og fjölskyldu hans allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Í dag verður jarðsunginn Ingvar Ásmundsson, félagi minn og vinur til margra ára.

Kynni okkar Ingvars hófust fyrir nokkrum áratugum í heimi skáklistarinnar. Hann öflugur skákmaður og ég áhugamaður um félagsmál tengd Skáksambandi Íslands. Við vorum ekki alltaf samstiga í málefnum skákhreyfingarinnar en brennandi áhugi hans og beinskeytt tilsvör hrifu okkur marga mjög fljótt.

Síðar lágu leiðir okkar saman í Skólameistarafélagi Íslands og málefnum tengdum framhaldsskólastiginu. Ingvar varð snemma öflugasti talsmaður áfangakerfisins og missti aldrei sjónar á þeirri hugmyndafræði sem Guðmundur heitinn Arnlaugsson, rektor MH, hafði fært okkur með nýju kerfi – áfangakerfinu.

Við Ingvar störfuðum lengi saman í Félagi áfangaskóla og hann var ævinlega trúr þeirri hugsjón sinni að skólakerfið ætti að þjóna eins breiðum hópi ungmenna og unnt væri. Þannig væri skólakerfið uppbyggilegt afl fyrir líf sem flestra einstaklinga og því þáttur í að skapa gott samfélag.

Síðastliðið vor bað ég Ingvar að halda ræðu á 25 ára afmælishátíð Skólameistarafélags Íslands. Ég hafði dálitlar áhyggjur af því að það yrði honum erfitt sakir langvarandi veikinda hans. Það reyndist óþarfi. Ræðan, sem Ingvar flutti um hlutverk okkar í heilbrigðu skólakerfi, var snjöll. Brennandi áhugi hans var ótvíræður og mér varð hugsað til þess að sú skýra sýn, sem Ingvar hafði, er það sem gerir menn að leiðtogum. Ingvar var helsti leiðtogi okkar í hugmyndafræði áfangakerfisins.

Við erum mörg sem kunnum Ingvari þakkir fyrir hugsjón hans og framtak. Ingvar var fyrsti formaður Skólameistarafélags Íslands og stýrði félaginu af röggsemi fyrstu tíu árin. Hann var gerður að heiðursfélaga og síðar sæmdur gullmerki félagsins.

Ég votta Guðrúnu eiginkonu Ingvars, börnum og öðrum ættingjum hans samúð mína.

Blessuð sé minning um félaga og góðan dreng.

Þorsteinn Þorsteinsson.

Ingvar var áfangastjóri við Fjölbrautaskólann í Breiðholti 1978 en þá kenndi ég við skólann. Það var þó ekki fyrr en mörgum árum seinna þegar ég var orðin skólameistari skólans og formaður bókaútgáfunnar Iðnú að ég kynntist honum vel.

Ingvar var formaður Sambands iðnmenntaskóla í mörg ár og sat ég alla fundi þess vegna tengsla minna við útgáfuna sem sambandið átti. Hann lagði ríka áherslu á að meginhlutverk Sambands iðnmenntaskóla væri að standa vörð um iðn- og tæknimenntun í landinu og lét ekkert tækifæri ónotað til að efla hana. Stofnun bókaútgáfunnar Iðnú var mikið framfaraspor en hún hefur aðallega lagt áherslu á útgáfu kennslubóka í iðn- og verkgreinum sem aðrar útgáfur hafa ekki sinnt vegna fárra nemenda.

Samstarf okkar var alla tíð mjög gott og það var ómetanleg reynsla fyrir mig að starfa með Ingvari. Hann var ákveðinn, fljótur að taka ákvarðanir og tefldi marga sóknarleiki, eins og hann var svo kunnur fyrir á skákborðinu, iðnmenntuninni til heilla.

Innilegar samúðarkveðjur til eiginkonu og fjölskyldu Ingvars.

Kristín Arnalds.

Mörg spekin frá skóladögum fyrri ára koma í hugann, þegar Ingvar Ásmundsson, lærifaðir og vinur, er genginn yfir landamæri lífs og dauða.

Hann var frábær kennari og þegar bókum sleppti virtist Ingvar einnig hafa numið og tileinkað sér siðina og heilræðin, sem gott fólk tamdi sér á fyrri tíð. Mátti því margt af honum læra. Hollt er að minnast fjölda slíkra atriða, s.s. að meta friðsæld þagnarinnar; að forðast hávaðasamar persónur; að flýta sér hægt; að hlusta fyrst og tala svo; að taka hverjum degi af æðruleysi og leitast við að njóta hverrar stundar.

Þótt Ingvar væri ekki skaplaus maður og hefði mikinn keppnisanda við skákborðið var sjaldan hægt að raska ró hans vegna hins mikla sjálfsaga og festu, sem hann bjó yfir. Ljúflingur var hann í hópi vina sinna og bjó yfir góðri kímnigáfu.

Þannig mætti lengi telja kosti þessa einstaka samferðamanns, sem ávallt var gefandi, ráðagóður og djúpur í hugsun. Hvað sem bar á góma, s.s. skáldverk, skrif af ýmsum toga eða þessi margslungna tilvera, þá var hann alltaf sá, sem greindi manna best kjarnann frá hisminu og bjó til ljósa mynd af umræðuefninu.

Eftir nærri daglegar gönguferðir árum saman í öllum veðrum verður erfitt að stunda útivistina af sama áhuga. Þeirri andlegu viðrun, sem þar átti sér stað, verður ekki komið á aftur með sama hætti. Miðlarinn mikli er horfinn á braut.

Það er með þungum trega, sem við hjónin kveðjum góðan vin og þökkum honum og konu hans styrka og sanna vináttu liðinna áratuga.

Guðrúnu Jóhönnu og sonum þeirra Ingvars, Áka, Ásmundi og Þórði og fjölskyldum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Góður drengur genginn er og við þökkum forsjóninni fyrir hann.

Hrafn Pálsson.

Kveðja frá Skáksambandi Íslands

"Það er hann sem við eigum að vera að hylla!" sagði danski stórmeistarinn og Íslandsvinurinn Bent Larsen við mig á Hótel Loftleiðum árið 2003 og benti á Ingvar Ásmundsson. Bent sagðist hafa djúpa aðdáun fyrir þeim brennandi áhuga, þreki og styrk sem Ingvar sýndi á skákborðinu kominn langt að sjötugu. "Hann teflir meira en við öll til samans!" sagði Bent fullur ákafa.

Það eru fáir sem munu leika þetta eftir Ingvari Ásmundssyni. Hann tefldi af meiri þrótti, gleði og krafti eftir því sem árin færðust yfir og hann lét sig aldrei vanta á öflug skákmót. Hann var í sókn fram á síðustu stund. Það kom enda á daginn á Heimsmeistaramóti öldunga að Ingvar Ásmundsson var hársbreidd frá því að ná stórmeistaratign í skák árið 2003, þá 69 ára að aldri. Það eitt segir meira en mörg orð.

Ingvar komst í fremstu röð íslenskra skákmeistara um tvítugsaldur og hann hélt sér í fremstu röð sleitulaust allt til dánardags. Ingvar varð Hraðskákmeistari Íslands árið 1960 og 1975, Skákmeistari Íslands árið 1979 og hann tefldi fyrir Íslands hönd á Ólympíuskákmótum árið 1968, 1974 og 1978. Glæst framganga hans á alþjóðlegum mótum vakti jafnan athygli í gegnum árin, svo sem á World Open í Fíladelfíu árið 1978 og á Evrópumóti taflfélaga með Helli árið 2001. Ingvar samdi ásamt Friðriki Ólafssyni bókina Lærið að tefla, skrifaði fastan skákdálk í Alþýðublaðið árin 1957–1966 og flutti um árabil reglulegan skákþátt í Ríkisútvarpinu. Hann sat í stjórn Taflfélags Reykjavíkur 1951–52 og Skáksambands Íslands 1968–69. Ingvar varð einna fyrstur Íslendinga til að nýta sér tæknina til hins ýtrasta og tefla reglulega á netinu. Hann tefldi um 40.000 skákir á netinu einu saman og komast fáir með tærnar þar sem hann hafði hælana í þeim efnum.

Ingvar miðlaði til yngri kynslóðarinnar ábendingum sínum, þekkingu og reynslu, enda skólastjóri í eðli sínu. Ungu guttarnir, sem fannst hann stundum heldur hrjúfur á yfirborðinu, lærðu með árunum að þekkja og meta mann sem var í senn mikill húmoristi og lærimeistari fullur fróðleiks. Ingvar var skákmeistari sem gaf aldrei neitt eftir og þeir eru fáir sem hægt er að kynnast á lífsleiðinni sem höfðu jafn brennandi og óþrjótandi áhuga á skák. Hans verður sárt saknað í íslensku skáklífi.

Skáksamband Íslands sendir eftirlifandi eiginkonu Ingvars, sonum og aðstandendum öllum hugheilar samúðarkveðjur. Minning um góðan dreng og framúrskarandi skákmeistara lifir með okkur öllum sem honum kynntust.

F.h. Skáksambands Íslands,

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Með Ingvari Ásmundssyni er fallinn einn af merkari skákmeisturum þjóðarinnar og er óhætt að segja að íslensk skákhreyfing standi í mikilli þakkarskuld við hann. Þegar ég var að vaxa úr grasi í Taflfélagi Reykjavíkur upp úr 1970 komst ég fljótlega yfir bókina Lærið að tefla sem Ingvar var meðhöfundur að. Sú bók varð mér og mörgum ungum skákmanninum leiðarljós eins og margt annað á skákferli Ingvars. Eiginleikar Ingvars til að miðla af kunnáttu sinni og þekkingu komu skýrt fram á skáksviðinu sem og á menntasviðinu sem hann gerði að ævistarfi sínu.

Segja má að Ingvar hafi með skákskýringum sínum í blöðum og ljósvakamiðlum markað djúp spor hjá mörgum kynslóðum íslenskra skákmanna. Þetta átti ekki síst við um þá sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Ingvari persónulega. Ég var einn þeirra og fyrir það er ég afar þakklátur. Ingvar var mikill keppnismaður og sannur íþróttamaður í anda. Þessum eiginleikum miðlaði hann óspart til sér yngri skákmanna og alltaf lét hann í sér heyra ef hann varð var við hið gagnstæða.

Gott orðspor Ingvars fór víða. Þegar ég var við nám í Svíþjóð á níunda áratugnum voru menn enn að tala um vasklega framgöngu hans á skáksviðinu þar í landi áratugum áður, er hann stundaði háskólanám í Stokkhólmi. Sigur Ingvars á World Open í Bandaríkjunum árið 1978 vakti svo heimsathygli og var óneitanlega stærsti sigur Ingvars á skáksviðinu.

Ingvar glímdi við erfiðan sjúkdóm undir það síðasta en jafnvel þá var baráttuþrekið og sigurviljinn ávallt til staðar. Þegar ég heimsótti hann í hinsta sinn viku fyrir andlát mátti merkja að mikið var af honum líkamlega dregið. Samt sem áður kvaddi hann mig með breiðu brosi og orðunum: "Við sjáumst svo næst hinum megin." Á þessum síðasta fundi okkar leit hann sáttur yfir farinn veg. Hann óttaðist ekki dauðann en hafði áhyggjur af því að hann fengi kannski ekki að tefla á þeim stað sem tæki við! Það var augljóst að margar hans ljúfustu minningar voru frá skákferðalögum um heiminn í fylgd með eiginkonu sinni, Guðrúnu Jóhönnu.

Eftir situr minningin um góðan og göfugan dreng. Ég vil votta Guðrúnu og nánustu aðstandendum Ingvars dýpstu samúð mína. Megi hann hvíla í friði.

Þorsteinn Þorsteinsson

(sá yngri).

Þegar ég sem unglingur ákvað að reyna við landsprófið og las það utan skóla í fyrstu af vissum orsökum fór móðir mín í það að útvega mér kennara. Þar sem ég var ekkert sérstaklega sleip í stærðfræði og öðrum raungreinum þurfti að vanda vel valið á kennurum í þeim fögum. Þá bárust henni spurnir af menntaskólakennara, sem var slíkur hörkukennari að sögn, að hann gæti komið hvaða meðalskussa sem var í gegnum hvaða stærðfræðipróf sem var. Það reyndist vera Ingvar Ásmundsson, og það sýndi sig um síðir, að hrósið um hann sem kennara var ekki orðin tóm, síður en svo. Hæfni hans sem kennara fékk ég að kynnast frá landsprófi og upp að stúdentsprófsborðinu, nokkuð sem ég hefði ekki viljað missa af. Ég staðhæfi, að betri stærðfræðikennara hefði ég ekki getað hugsað mér, fyrir utan manninn, sem á bak við kennarann bjó. Hann hefur ábyggilega verið í uppáhaldi hjá nemendum sínum, enda var ekki annað hægt, slíkur mannvinur sem hann var. Hann var líka skemmtilegur kennari, sem vakti áhuga nemandans á viðfangsefninu, enda varð árangur erfiðisins eftir því.

Hann kom alltaf heim að kenna mér í einkatímum, og þau Guðrún urðu fljótt fjölskylduvinir okkar, sem allir héldu upp á. Ingvar var ákaflega fjölhæfur maður, fjölmenntaður og vel lesinn á ýmsum sviðum. Hann var skapfastur og hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og gat stundum hent gaman að þeim, ef því var að skipta, án þess að það særði nokkurn. Það var því gaman að tala við hann um fleira en stærðfræði og skák, sem var hans helsta áhugamál fyrir utan kennsluna. Þegar hann gerðist kennari minn höfðum við móðir mín haft spurnir af því, að hann hefði farið sömu leiðina og faðir hans og sest ungur að skákborðinu og unnið þar margan sigurinn. Áhugi hans á skákinni smitaði líka út frá sér til nemandans, þótt aldrei tefldum við saman eða áhugi myndaðist á því. Fram til þess að hann byrjaði að kenna mér hafði ég ekki haft neinn sérstakan áhuga á skák, kunni rétt nokkurn veginn mannganginn, en ræktaði ekkert skákina eða hafði æft mig neitt á því sviði fram að því. Eftir að ég kynntist Ingvari fór ég að fylgjast betur með skákinni, ekki síst honum, þegar hann tefldi á stórmótum. Það liðu heldur ekki mörg ár, þangað til ég fékk mér skákborð og síðar skáktölvu, eftir að tölvur komu til sögunnar, til að æfa mig á.

Á þessari stundu á ég honum, eins og jafnan fyrr og síðar, svo ótal margt að þakka. Hann var góður, traustur og tryggur vinur vina sinna. Ég og fjölskylda mín fengum að kynnast því svo ótal oft. Ég kveð hann því nú með söknuði og bið honum blessunar Guðs þar sem hann er nú.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Guðrúnu og fjölskyldunni sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið Guð að styrkja þau á sorgarstundu.

Blessuð sé minning öðlingsins Ingvars Ásmundssonar.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir.

Nú er skarð fyrir skildi. Látinn er öðlingurinn Ingvar Ásmundsson skólameistari. Eftir stöndum við hnípin, enda hefði ekkert skarð verið fyrir skildi ef lát hans hefði engu skipt.

Samt er því þannig farið og það vitum við þegar svona er komið að því fleiri sem áföllin verða því auðugri verðum við vegna þess að þá vitum við að við höfum misst einhvern okkur dýrmætan, einhvern svo mikilvægan og góðan, að það hriktir í undirstöðum lífs okkar.

Og vissulega er ég auðugri vegna þess manns, meistara og vinar, sem nú er horfinn mér sjónum.

Ingvar var mannvinur og kennari af Guðs náð. Hann skildi að kennslan er list, sem tekur til allra listforma mannlífsins, ekkert undanskilið og raunar til allra þátta mannlífsins í heild.

Hann var snöggur að greina vandann hverju sinni og úrræðin létu ekki á sér standa.

Ekki voru alltaf allir honum sammála, enda ekki öllum jafnhent og honum að kafa svo djúpt undir yfirborðið í leit að vizku og kjarki.

Kjark skorti Ingvar Ásmundsson aldrei og sterkasti þátturinn í vizku hans var ef til vill fólginn í kærleika hans til þeirra sem farið höfðu halloka í skólakerfinu. Ekki vegna illsku mannanna heldur einfaldlega vegna þess að við getum ekki búist við því að allir hafi á hverjum tíma náð þeim þroska sem þetta listform "kennslan" krefst.

Sérhver dagur í Iðnskólanum undir stjórn Ingvars Ásmundssonar var góður dagur og það vissu allir kennarar, nemendur og starfslið skólans. Skólinn var alltaf í sókn, og um það rætt á ráðstefnum um menntamál og víðar hve vel og skjótt væri tekið á hinum margvíslegu málefnum skólans svo að hann gæti sem bezt brugðizt við vaxandi kröfum þjóðfélags í örri mótun.

Að lokum langar mig að minnast sambands Ingvars og konu hans Guðrúnar. Þau hjón gengu iðulega saman um götur borgarinnar og duldist engum að þar voru ekki eingöngu hjón og elskendur á ferð heldur vinir og jafnokar í lífsbaráttunni með reisn þeirra, sem hafa náð því að vita hvað skiptir máli í tilverunni.

Ég votta Guðrúnu, ekkju Ingvars Ásmundssonar, og ættingjum mína dýpstu samúð, þakklæti og virðingu.

Gyða Stefánsdóttir.

Ingvar Ásmundsson var einn snjallast skákmaður þjóðarinnar og lét að sér kveða við skákborðið uns hann varð frá að hverfa sakir veikinda. Starfsævi hans var helguð kennslu og málefnum skóla, þar sem hann fylgdist með málum af brennandi áhuga og beindi gagnrýnum frjóum huga að því hvernig bæta mætti skólana nemendum til hagsbóta. Ingvar Ásmundsson var í fylkingarbrjósti í málefnum kennara og skólameistara og formaður Sambands iðnfræðsluskóla meðan hann gegndi embætti skólameistara Iðnskólans í Reykjavík.

Farsælt ævistarf sem kom mörgum góðum málum áleiðis.

Ingvar Ásmundsson nam stærðfræði til BA-prófs og hóf kennaraferil sinn í Menntaskólanum á Laugarvatni. Svo skipaðist að dugmiklir kennarar frá Laugarvatni færðu sig um set og tóku til starfa við nýjan menntaskóla í Reykjavík, Menntaskólann við Hamrahlíð, er hann tók til starfa. Nokkrum árum síðar fylgdi skólameistarinn þeim eftir, er Jóhann S. Hannesson hóf störf við MH. Þessi hópur kennara var öflugasti kjarninn í skólastarfinu í MH um 1970 og hafði forgöngu um nýtt skipulag skólastarfsins, áfangakerfið.

Áfangakerfið felur í sér meiri ábyrgð nemandans á námi sínu en gerir um leið meiri kröfur til skipulags kennslu en áður hafði tíðkast. Áfangakerfið var forsenda þess að öldungadeild var stofnuð í MH og síðar víða um land. Ingvar Ásmundsson lagði gjörva hönd á að endurskipuleggja iðnfræðsluna í áfangakerfi er hann varð skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík árið 1980 og beitti sér fyrir nýskipan Vélskóla Íslands er hann gegndi þar formennsku í skólanefnd. Áfangakerfið varð svo grundvöllur þess að á laggirnar komst samræmdur framhaldsskóli í formi fjölbrauta- og verkmenntaskóla víða um land.

Ingvar Ásmundsson beitti skarpri gagnrýnni hugsun á hvaðeina og lét ekki eftir sér að sættast við viðteknar venjur, hann vildi hreyfingu og árangur. Við athugun á framförum nemenda í Iðnskólanum í Reykjavík kom í ljós að allstór hópur átti við lestrarörðugleika að etja. Lét hann þegar í stað skipuleggja lestrarkennslu í skólanum nemendum til mikilla hagsbóta, þótt þetta allt saman kostaði nokkurt stapp við fræðsluyfirvöldin.

Ingvar Ásmundsson var hjartahlýr maður. Undir hrjúfu yfirborði var maður vinfastur og hjálpsamur. Hann var blátt áfram við alla og andvígur öllu tildri. Vinátta hans var okkur dýrmæt og samstarfið um árabil. Ástvinir hans þurfa nú að líða mikinn missi. Við Vilhelmína færum þeim innilegustu samúðarkveðjur. Ingvar kemur okkur ætíð í hug er við heyrum góðs manns getið.

Ólafur Ásgeirsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.