Lindifura Var með fyrstu furutegundum sem prófuð var hér á landi.
Lindifura Var með fyrstu furutegundum sem prófuð var hér á landi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í næstsíðasta þætti var fjallað lítillega um broddfuru, eina alfyrstu furuna sem var ræktuð hér á landi. Það merkilega við þá ræktun er að broddfuran er ættuð frá Klettafjöllunum í N-Ameríku og hún var nær óþekkt í Evrópu um aldamótin 1900.

Í næstsíðasta þætti var fjallað lítillega um broddfuru, eina alfyrstu furuna sem var ræktuð hér á landi. Það merkilega við þá ræktun er að broddfuran er ættuð frá Klettafjöllunum í N-Ameríku og hún var nær óþekkt í Evrópu um aldamótin 1900. Það voru Danir sem leiddu okkur fyrstu sporin í skógræktinni og þeir hafa varla haft mikla reynslu af broddfurunni þá.

Lindifuran var með fyrstu furutegundum sem prófaðar voru hér á landi, því plöntur frá garðyrkjustöð á Jótlandi voru gróðursettar á Þingvöllum og Grund í Eyjafirði árið 1903. Þessar plöntur uxu hægt og þær kól oft. 1905 voru flutt inn heil býsn af fræi, víst ein 50 kg, og því sáð í beð á Hallormsstað. Sáningin gekk alveg sorglega illa, því aðeins tæplega 90 plöntur lifðu af og náðu sér á strik. Lindifurufræ eru mjög bragðgóð og mýs eru sagðar sólgnar í þau. Það skyldi þó ekki vera að mýsnar á Héraði hafi komist upp á bragðið og lifað á sáningunni um veturinn? Það er eins og mig minni að hluti af lindifurusáningu (þessari eða seinni) hafi fundist löngu síðar í þyrpingu utan í þúfu, þar sem mús hefði líklega gert sér bæli.

En það eru ekki bara mýsnar sem eru hrifnar af lindifurufræjum. Rússar og samar höfðu gjarnan fræið í nesti á langferðum. Norskir kaupmenn kölluðu fræið lappahnetur og það var líka kallað Rússahnetur. Íslendingar hafa e.t.v. bragðað lindifurufræ í Bjarmalandsferðum sínum til forna? Undanfarin ár hafa svokallaðar furuhnetur verið mikið í tísku í íslenskri matargerð. Þær eru gjarnan ristaðar á pönnu og svo stráð yfir salatskálina eða súkkulaðibúðinginn og þykir voðalega flott. Ekki veit ég hvort þetta eru lindifurufræ og sjálfsagt stoðar lítið að gera spírunarpróf á furuhnetunum í Bónus en hneturnar bragðast vel.

Barr lindifuru er einstaklega fallegt. Nálarnar eru langar, 5–10 cm og alveg silkimjúkar. Þær eru þrístrendar, dökkgrænar á einni hlið en ljósblágrænar á hinum, þannig að tréð líkt og skiptir litum eftir því hvernig vindurinn blæs. Eins og hjá broddfurunni sitja nálarnar fimm saman í knippi á dverggreinunum og haldast á greinunum í 3–5 ár. Greinarnar standa í kransi á stofninum og engar smágreinar eru á milli kransanna líkt og er hjá greninu.

Ég hef bæði sáð lindifurufræi og keypt plöntur í garðyrkjustöð. Þessar plöntur hafa farið í sumarbústaðarlandið, því þótt lindifuran sé hægvaxta a.m.k. í samanburði við stafafuru, verður hún gömul og í náttúrulegum heimkynnum verður hún um 30 m há. Lindifurufræi er best að sá að haustinu því það þarf kuldaskeið fyrir spírun. Fallegasta lindifuran mín er um 10 ára gömul og hún er 170 cm á hæð. Ekki get ég búist við að fá sjálf fræ af henni því lindifuran myndar fyrst köngla um sjötugt. Elstu lindifururnar á Íslandi eru farnar að þroska fræ sem safnað er til ræktunar. Líka hafa fundist sjálfsánar plöntur

Lindifuran vex í Alpafjöllum og Karpatafjöllum upp í nær 2.000 m hæð en hún vex líka í NA-Rússlandi, Síberíu og alveg að Kyrrahafi. Nú gera menn mun á furunum eftir vaxtarstað. Evrópulindifuran er kölluð Pinus cembra, en Síberíulindifuran er kölluð Pinus sibirica, sérfræðingar hafa fundið einhvern mun á lengd nálanna og könglanna. Það er alltaf verið að flækja tilveruna.

Fimm nála furur eins og broddfura og lindifura eru ekki viðkvæmar fyrir furulús eins og tveggja nála furur eru. Broddfura við sjávarsíðuna er viðkvæm fyrir illskeyttum furusveppi og lindifuran, sem er líka meginlandstré, gæti verið það líka. Það ætti þó ekki að hræða okkur frá því að gróðursetja lindifuru, fallegustu furu sem við eigum völ á, við sumarbústaði og í skógarreiti inn til landsins.

Höfundur er fyrrum formaður Garðyrkjufélags Íslands

Höfundur er fyrrverandi formaður Garðyrkjufélags Íslands.