Lúðvík Gizurarson
Lúðvík Gizurarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að mannerfðafræðileg rannsókn (DNA-rannsókn) mætti fara fram til sönnunarfærslu í faðernismáli sem Lúðvík Gizurarson hrl.

HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að mannerfðafræðileg rannsókn (DNA-rannsókn) mætti fara fram til sönnunarfærslu í faðernismáli sem Lúðvík Gizurarson hrl. höfðaði til að fá úr því skorið hvort Hermann heitinn Jónasson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði verið faðir hans. Samkvæmt úrskurðinum á að rannsaka lífsýni úr Dagmar Lúðvíksdóttur, móður Lúðvíks, og Hermanni.

Sigurður, bróðir Lúðvíks, kom fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar og bar að móðir sín hefði sagt sér að Hermann væri faðir Lúðvíks. Framburður Sigurðar var í samræmi við yfirlýsingu sem hann og Sigríður heitin, systir Lúðvíks, gáfu í ágúst 2006 og lögð var fram í héraðsdómi. Í úrskurði héraðsdóms segir að í ljósi þessa þyki sýnt fram á að Dagmar hafi, í vitna viðurvist, lýst því yfir að Hermann væri faðir Lúðvíks. Ákvæði barnalaga teldust því uppfyllt þannig að mannerfðafræðileg rannsókn gæti farið fram samkvæmt 15. gr. laganna.

Langþráð niðurstaða

Dögg Pálsdóttir, lögmaður Lúðvíks, sagði við Morgunblaðið í gær að niðurstaða Hæstaréttar væri ánægjuleg, hennar hefði verið beðið lengi.

"Næsta skref verður að fá úr því skorið hvort það sé til lífsýni úr föður gagnaðila. Reynist það til fer fram rannsókn til þess að kanna það ásamt rannsókn á blóðsýni úr Lúðvík og móður hans. Reynist það hins vegar ekki til þurfum við að fara aftur fyrir héraðsdóm og fá úrskurð þess efnis að tekið verði sýni úr gagnaðilum en þetta er einnig hægt að rannsaka með þeim hætti," segir Dögg. Hún telur að sú krafa yrði að líkindum tekin til greina í ljósi niðurstöðu hæstaréttar. "Það er búið að staðfesta að hann eigi rétt á því að vita um sinn uppruna. Hvort sem það verður gert með mannerfðafræðilegri rannsókn úr móður og meintum föður eða nánustu aðstandendum gildir það sama."

Þetta er í þriðja sinn sem héraðsdómur úrskurðar að fara skuli fram mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum til að ganga úr skugga um faðerni Lúðvíks, en Hæstiréttur hefur tvívegis hnekkt úrskurði héraðsdóms. Jón Sveinsson, lögmaður Steingríms og Pálínu, barna Hermanns, vildi ekki tjá sig um niðurstöðu hæstaréttar.