10. mars 2007 | Íþróttir | 899 orð | 3 myndir

Kóngarnir Helgi Jóhannsson og Einar Ólafsson stjórnuðu sigursælum ÍR-ingum, sem urðu Íslandsmeistarar í körfuknattleik 15 sinnum

Fimm prinsar á ferð á gullárum ÍR

Gulllið Íslandsmeistarar Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR 1962. Frá vinstri: Haukur Hannesson, Einar Ólafsson, Agnar Friðriksson, Hólmsteinn Sigurðsson, Guðmundur Þorsteinsson, Helgi Jóhannsson, Sigurður P. Gíslason, Þorsteinn Hallgrímsson, Tómas Zoëga og Steindór Guðjónsson.
Gulllið Íslandsmeistarar Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR 1962. Frá vinstri: Haukur Hannesson, Einar Ólafsson, Agnar Friðriksson, Hólmsteinn Sigurðsson, Guðmundur Þorsteinsson, Helgi Jóhannsson, Sigurður P. Gíslason, Þorsteinn Hallgrímsson, Tómas Zoëga og Steindór Guðjónsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ er á engan hallað – af fjölmörgum afreksmönnum sem Íþróttafélag Reykjavíkur, ÍR, hefur átt í 100 ár, þegar sagt er að flaggskip ÍR-inga sé og hafi verið körfuknattleikslið ÍR í karlaflokki, sem varð fimmtán sinnum Íslandsmeistari á aðeins 23...
ÞAÐ er á engan hallað – af fjölmörgum afreksmönnum sem Íþróttafélag Reykjavíkur, ÍR, hefur átt í 100 ár, þegar sagt er að flaggskip ÍR-inga sé og hafi verið körfuknattleikslið ÍR í karlaflokki, sem varð fimmtán sinnum Íslandsmeistari á aðeins 23 árum – 1954 til 1977. Þá réðu ríkjum kóngarnir tveir, Helgi Jóhannsson og Einar Ólafsson, þjálfarar á tveimur fimm ára gulltímabilum og prinsarnir fimm – Þorsteinn Hallgrímsson, Guðmundur Þorsteinsson, Agnar Friðriksson, Birgir Jakobsson og Kristinn Jörundsson, sem voru afar fjölhæfir leikmenn í hæsta gæðaflokki. Kvennalið ÍR lét einnig að sér kveða og varð Íslandsmeistari ellefu sinnum á 19 árum.

Eftir Sigmundur Ó. Steinarsson

sos@mbl.is

ÍR-ingar tryggðu sér fyrst Íslandsmeistaratitilinn 1954 og aftur 1955 og 1957. Þess má til gamans geta að frjálsíþróttakappinn Finnbjörn Þorvaldsson lék með meistaraliði ÍR 1954. Þessi fjölhæfi íþróttamaður var einnig í Íslandsmeistaraliði ÍR í handknattleik 1946 – í eina skiptið sem ÍR hefur orðið meistari. Hann skoraði þá sigurmarkið í úrslitaleik gegn Haukum, 20:19.

Fyrra gulltímabil ÍR-inga, er þeir urðu meistarar fimm ár í röð, hófst undir stjórn Helga, sem var leikmaður og þjálfari, 1960. Með liðinu þá leikmenn eins og Helgi sjálfur – sem var frægur fyrir sveifluskot sín, Einar, Guðmundur Þorsteinsson, Hólmsteinn Sigurðsson, Þorsteinn Hallgrímsson, sem hafði árið áður leikið sinn fyrsta landsleik, 16 ára, og kornungur leikmaður, Einar Bollason, sem átti síðan eftir að vera lykilmaður hjá KR. ÍR-liðið var byggt upp á leikmönnum úr vesturbæ Reykjavíkur og var æft í ÍR-húsinu við Túngötu.

Agnar og "fjölin"

Agnar Friðriksson hóf að leika með ÍR 1962. Hann var skytta góð og stórhættulegur þegar hann "fann fjölina sína" – þá geigaði ekki skot utan af hægri kantinum.

Einn besti leikmaður Evrópu

Þorsteinn Hallgrímsson vakti mikla athygli á Norðurlandamótinu, Polar Cup, í Finnlandi í apríl 1964. Hann var langstigahæsti leikmaður mótsins og var Þorsteinn talinn einn besti leikmaður Norðurlanda og blaðamenn sem fjölluðu um mótið, töldu hann tvímælalaust einn af bestu leikmönnum Evrópu.

Var alltaf í sigurliði

Guðmundur Þorsteinsson, sem er að margra mati einn allra besti miðherji sem Ísland hefur átt, þurfti að leggja skóna á hilluna vegna veikinda, aðeins 22 ára að aldri, 1964. Hann vann það til frægðar að tapa aldrei leik í móti á Íslandi með ÍR.

"Ég mundi vilja fá Guðmund í skólalið mitt," sagði bandaríski þjálfarinn Clarence Hodgers Wyatt, sem var hér á landi um tíma hausið 1961 á vegum Körfuknattleikssambands Íslands.

47 sigurleikir í röð

Einar Ólafsson var orðinn þjálfari ÍR-liðsins ásamt Helga 1962 og þá komu ungir leikmenn fram í sjónarsviðið, sem Einar hafði kennt galdra körfuknattleiksins í Langholtsskólanum, eins og Anton Bjarnason, Jón Jónasson og Birgir Jakobsson, sem styrktu liðið mikið. Birgir var öflugur varnarmaður og skytta góð. Einstefnuakstur ÍR-inga var mikill. Leikskipulag liðsins undir stjórn þeirra Helga og Einars var geysilegt.

Það var ekki fyrr en 1965 sem sigurganga ÍR var stöðvuð óvænt af KR-ingum. ÍR-liðið hafði þá leikið 32 leiki í röð á Íslandsmóti án taps og 47 sigurleiki í röð gegn íslenskum liðum.

Þorsteinn meistari í Danmörku

Þorsteinn fór í verkfræðinám til Danmerkur og varð Danmerkurmeistari með SISU 1966 og 1967. ÍR-ingar söknuðu hans og á meðan hann var í Danmörku urðu KR-ingar meistarar fjögur ár í röð. Þegar Þorsteinn byrjaði að leika af fullum krafti á nýjan leik með ÍR 1968 hófst annað gulltímabil ÍR-liðsins, sem varð fimm sinnum Íslandsmeistari í röð, 1969–1973.

Þá komu nýir ungir leikmenn úr útungunarbúðum Einars, eins og Kristinn Jörundsson og Jón Indriðason og síðar Kolbeinn Kristinsson og Jón Jörundsson, en fyrir voru leikmenn eins og Þorsteinn, Agnar, Hólmsteinn, Birgir og Sigurður Gíslason.

Sterk vörn og leiftursóknir

Þegar Kristinn Jörundsson, sem byrjaði ungur að leika lykilhlutverk með ÍR-liðinu, var spurður út í seinna gulltímabilið – sagði hann að styrkur liðsins hefði verið sá sami og á fyrra gulltímabilinu, 1960–1964. Liðið var þekkt fyrir sterka vörn, hraðaupphlaup og leiftursóknir, eins og þeir Helgi og Einar þjálfuðu og byggðu lið sín upp á.

"Við lékum mjög sterkan varnarleik, vorum með leikmenn með mikinn stökkkraft og náðum mikið af fráköstum. Því fylgdi að við náðum að koma knettinum fljótt í umferð og bruna hratt fram völlinn. Við skoruðum mikið eftir hraðar sóknir. Þá vorum við með afburða skyttur og góða leikmenn undir körfu andstæðinganna. Geysileg barátta undir stjórn Þorsteins og Agnars var aðalsmerki ÍR."

Kristinn var orðinn fyrirliði ÍR 1975 þegar ÍR-liðið varð aftur meistari undir stjórn Einars og eins og áður léku þeir Birgir og Agnar stórt hlutverk í liðinu. Kristinn var valinn maður Íslandsmótsins.

Lokaþátturinn hjá gullaldarliðinu

Kristinn var einnig fyrirliði ÍR-liðsins 1977 þegar ÍR varð síðast Íslandsmeistari. Agnar fagnaði þá sínum tíundu gullverðlaunum frá 1962 og með liðinu lék einnig Þorsteinn Hallgrímsson, sem var þá orðinn þjálfari. Aðrir lykilmenn í vaskri sveit meistaraliðs ÍR þetta ár voru Kolbeinn Kristinsson og Jón Jörundsson.

Kristinn, sem fagnaði sjö Íslandsmeistaratitlum á níu árum, sagði of marga lykilmenn hafa hætt að leika með liðinu á stuttum tíma – Birgir fór til Patreksfjarðar sem læknir 1976, og síðan lögðu þeir Agnar, Þorsteinn, Sigurður E. Gíslason og Jón Jónasson skóna á hilluna. Kolbeinn fór til liðs við ÍS og þjálfaði síðan Fram. "Breytingarnar voru of miklar á ÍR-liðinu á stuttum tíma, þannig að liðið missti jafnvægið. Margir sögðu að endurnýjunin á liðinu hafi ekki verið nægilega jöfn. Ég er ekki sammála því. Það var hreinlega ekki hægt að setja bestu leikmennina út – aðeins til að yngja upp. Það hljóta allir þjálfarar að tefla fram sínum bestu leikmönnum hverju sinni," sagði Kristinn Jörundsson.

Meistari Kristinn

KRISTINN Jörundsson, einn af prinsunum fimm á gullaldartímabili ÍR-liðsins í körfuknattleik – varð Íslandsmeistari sjö sinnum á aðeins níu árum¸ 1969–1973, 1975 og 1977. Hann var afar fjölhæfur leikmaður; sterkur bæði í sókn og vörn. Kristinn varð ekki aðeins Íslandsmeistari með ÍR á þessum árum – hann var Íslandsmeistari í tveimur íþróttagreinum 1972. Með ÍR-liðinu í körfuknattleik og Fram í knattspyrnu, en þá skoraði hann sjö mörk fyrir Fram í 1. deildarkeppninni.

Kristinn var einnig hetja Framliðsins 1970 á Melavellinum er hann skoraði bæði mörk liðsins í úrslitaleik Bikarkeppni KSÍ gegn ÍBV, 2:1.

Stuttu eftir þann leik átti hann hvað mestan þátt í að ÍR varð Reykjavíkurmeistari, einu sinni sem oftar á gullaldarárunum – varð stigahæsti maður mótsins og besta vítaskyttan.

"Þeir létu verkin tala"

"ÍR-ingar voru afar heppnir að hafa þjálfara eins og Helga Jóhannsson og Einar Ólafsson í herbúðum sínum. Þeir voru báðir ávallt yfirvegaðir og rólegir, eða eins og þegar þeir léku með meistaraliði ÍR-inga – höfðu ekki hátt, heldur menn sem létu verkin tala. Báðir tveir voru frábærir persónuleikar," sagði Kristinn Jörundsson um þá þjálfara sem réðu ríkjum á gullaldartímabili ÍR-inga í körfuknattleik.

"Ég var aðeins átta ára þegar ég hóf að æfa körfuknattleik undir stjórn Einars í Langholtskólanum, sem var kallaður útungunarvél leikmanna ÍR-liðsins.

Einar var afar farsæll þjálfari, sem þjálfaði á mjög faglegan hátt. Undirbjó leikmenn sína vel fyrir leiki, var skipulagður, vel lesinn og fylgdist vel með öllum nýjungum. Hann vann ekki starf sitt með hrópum og látum, heldur yfirvegun. Það var mjög gott að æfa og leika undir hans stjórn. Einar lét okkur endurtaka ýmsar æfingar aftur og aftur. Við æfðum mikið að vera undir pressu, sem kom okkur afar vel þegar út í leiki var komið. Við vorum yfirleitt miklu sterkari undir körfunni – í látum og hraða, en andstæðingar okkar," sagði Kristinn.

Þess má geta Helgi og Einar urðu báðir landsliðsþjálfarar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.