Ingunn Einarsdóttir fæddist í Fjallsseli í Fellum 7. september 1914. Hún andaðist á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum þann 7. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Einar Eiríksson bóndi og hreppsstjóri í Fjallsseli og kona hans Kristrún Hallgrímsdóttir. Systkini hennar voru: Ingibjörg, Pétur, Eiríkur, Þórhalla, Hallgrímur og Sigríður sem öll eru látin. Árið 1937 giftist Ingunn Páli Gíslasyni frá Skógargerði í Fellum, f. 18.01. 1912, d. 23.08. 1981. Foreldrar hans voru Gísli Helgason bóndi og Dagný Pálsdóttir sem bjuggu í Skógargerði langa ævi. Ingunn og Páll eignuðust 10 börn sem eru:

1. Grímur f. 1940. Dó í frumbernsku.

2. Dagný f. 1941. Maki: Sveinn Björnsson. Börn þeirra: Þórdís og Björn og 6 barnabörn. Þau slitu samvistir. Sambýlismaður Dagnýjar er Þórhallur Þorsteinsson. Búsett á Egilsstöðum.

3. Einar f. 1943. Maki: Ragnhildur I. Benediktsdóttir. Búsett á Egilsstöðum. Börn þeirra: Ingunn Bylgja, Hrafndís Bára, Hafrún Brynja, Húni Hlér og 2 barnabörn.

4. Páll f. 1947. Búsettur á Egilsstöðum.

5. Baldur f. 1949. Maki I: Katrín Ásgeirsdóttir. Sonur þeirra: Ásgeir Páll. Þau slitu samvistir. Maki II: Þórey Hannesdóttir. Búsett í Fellabæ. Börn þeirra: Nína Guðrún, Hrafnhildur og Hannes Kjartan. Barnsmóðir Baldurs: Málfríður Benediktsdóttir. Dóttir þeirra: Aðalheiður Rós.

6. Ingunn f. 1950. Maki: Kristján Sigurðsson. Búsett á Akureyri. Börn þeirra: Grímur Sævar, Fjóla, Sigurður Örn og 7 barnabörn.

7. Kristrún f. 1952. Maki: Sigurður Ólafsson. Búsett á Aðalbóli II. Börn þeirra: Þórey, Ólafur Gauti, Davíð Arnar, Sindri Freyr og 4 barnabörn.

8. Brynhildur f. 1953. Maki: Svavar Harðarson. Búsett á Akureyri. Börn þeirra: Gunnar Hörður, Páll, Ingunn Ósk og 3 barnabörn.

9.Gísli f. 1957. Bóndi á Aðalbóli.

10. Sveinn f. 1959. Búsettur á Aðalbóli.

Ingunn ólst upp hjá foreldrum sínum í Fjallsseli. Hún fór snemma að vinna fyrir sér, meðal annars á Egilsstaðabýlinu hjá Sveini Jónssyni og Sigríði Fanneyju, á Brekku í Mjóafirði og á Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Einnig var hún um tíma í vist í Reykjavík. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Hallormsstað 1932–1934.

Ingunn og Páll bjuggu um tíma á Akureyri og síðan á Ekkjufelli í Fellum hjá Brynjólfi Sigbjörnssyni og Sólveigu Jónsdóttur. Árið 1945 fékk Páll ábúð á Aðalbóli í Hrafnkelsdal og hófu þau búskap þar vorið 1946. Eftir lát Páls hélt Ingunn áfram húsmóðurstörfum á Aðalbóli og sinnti þeim úrtakalítið fram á 93ja aldursár. Lífsgleði og kjarkur einkenndi Ingunni alla tíð og hélt hún andlegum kröftum fram á hinsta dag

Útför hennar fer fram frá Egilsstaðakirkju þann 17. mars og hefst athöfnin kl. 11:00. Jarðsett verður í kirkjugarði Ássóknar í Fellabæ.

Látin er Ingunn Einarsdóttir, húsfreyja á Aðalbóli í Hrafnkelsdal, 92 ára gömul, þar má segja að lokið hafi stórbrotnu og viðburðaríku æviskeiði. Hún eignaðist tíu börn, var mikil ættmóðir og kunni að gleðjast á góðum stundum, en framar öllu einkenndi það hana hversu ráðagóð hún var og hjálpsöm svo af bar.

Aðalból er alveg sérstakur heimur og alltaf viðburður að koma þangað. Ég kom þangað fyrst um 1980 og fannst merkilegt að þræða inn tröðina sem þá lá meðfram húsveggjunum og inn að bakdyrunum. Í þá tíð voru gömlu byggingarnar eins og samofnar við gríðarstóra steinsteypuhúsið sem Páll og Ingunn byggðu um 1960, en nú eru þær allar horfnar. Þegar inn var komið brá fyrir fólki á öllum aldri, allt frá lítilli stelpu í hlaupagrind upp í hávaxinn, þögulan mann, tæplega sjötugan. Þrjár kynslóðir bjuggu í húsinu og miðpunktur þess var hressileg dökkhærð kona, kölluð Inga.

Ég þekkti þetta fólk ekkert þá, hafði bara lent upp eftir með Sveini Páls, yngsta syninum og Ragnhildi Rós, frænku þeirra, en örlögin höguðu því þannig að nokkrum árum síðar var ég orðin tengdadóttir þeirra Ingunnar á Aðalbóli og Páls heitins bókasafnara.

Ingunn og Páll voru bæði innfæddir Fellamenn en Pál langaði að flytja á góða sjávarjörð með konu sína og fjölskyldu. Ekki fer allt eins og ætlað er og laust fyrir miðja öldina voru þau hjónin flutt á innsta bæ í landinu, landnámsjörð Hrafnkels Freysgoða! Þar bjuggu þau við erfiðar aðstæður með miklum dugnaði og sóma. Upprunalegi bærinn var gamall og þröngur, engin nútímaþægindi, lélegar samgöngur og eiginlega eins og þau hefðu flust aftur á nítjándu öldina; krakkahjörðin skoppaði um berfætt og lék sér í náttúrunni og enginn drukknaði í Hrafnkelu, sem var náttúrlega aðalatriðið. Til er kvikmynd frá 1957 sem sýnir smábúta úr lífinu á Aðalbóli, hana tók svissneskur maður að nafni Walter Tobler sem fékk að dvelja nokkra mánuði á bænum. Í myndinni sést Páll bóndi heyja á engjum uppi á brúnum Hrafnkelsdals, standandi berfættur í flóa, rauðbirkinn, kraftalegur maður og minnir óneitanlega svolítið á Bjart í Sumarhúsum, ekki síst þegar haft er í huga að Páll á Aðalbóli er eini maðurinn sem hefur fallið úr brotnum kláfi í Jöklu og bjargað sér upp úr henni á sundi. Síðar í þessari kvikmynd má sjá Pál og börn hans reka fé sitt að vetrarlagi og fara á beitarhúsin að Hústóft í kafsnjó og eina farartækið, blessaður hesturinn, pikkfastur í sköflunum. Þetta er hin besta heimildarmynd, en því miður sést Ingunni húsfreyju aldrei bregða fyrir.

Önnur merkileg heimild er til um lífið á Aðalbóli, það er bókin Norðan Vatnajökuls eftir danska skáldið Poul Vad. Hann ferðaðist um á slóðum Hrafnkelssögu árið 1970 og lýsir m.a. lífinu heima í "steinsteypuhöllinni" í Hrafnkelsdal, eins og það kom honum fyrir sjónir. Það er ómetanlegt fyrir afkomendur Ingunnar og Páls að lesa þessar frásagnir af þeim hjónum, þau eru eins og undarlegt fólk í skáldsögu en samt svo lifandi og sönn.

Ingunn missti Pál árið 1981 en bjó áfram á Aðalbóli með börnum sínum og a.m.k. tveimur fjölskyldum þeirra. Það var alltaf mannmargt á Aðalbóli á árum áður, fullt af krökkum í sveit og gestkvæmt. Ingunn sjálf frábær kokkur og kökugerðarsnillingur. Veisluhöld gjarnan þannig að veittar voru stórsteikur fram eftir nóttu og setið við gleðskap framundir morgun, húsfreyja hressust allra og vildi ekki sjá bjór og aðra veika drykki, fannst vodkinn bestur. Svo fór hún yfirleitt á 2–3 þorrablót á hverjum vetri og skemmti sér konunglega. Hún reykti meðan hún gat og naut lífsins, var stór í sniðum og alltaf tilbúin að hjálpa öðrum. Heilsan var orðin frekar léleg síðustu árin og hún þurfti stundum að leggjast inn á sjúkrahúsið á Egilsstöðum, en lagaðist alltaf og fór heim í Aðalból að sjá um heimilið. Nú allra síðustu árin hafa þau búið ein í stóra húsinu Inga, Gísli og Sveinn en veisluhöld hafa síður en svo lagst af og ættin búin að koma sér upp Aðalbólsdegi þar sem allir koma saman og rifja upp gömlu dagana þar sem móðirin var miðpunktur tilverunnar. Nú er hún horfin á braut, taldi sig sadda lífdaga og lést eftir nokkurra daga legu. Örlög höguðu því þannig að ég sjálf veiktist um svipað leyti og gat ekki kvatt mína elskulegu tengdamóður, en ég geri það núna, hafi hún hjartans þökk fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig og mitt fólk. Börnin okkar Baldurs: Nína Guðrún, Hrafnhildur og Hannes Kjartan sakna ömmu en gleðjast jafnframt yfir að hafa átt hana að.

Ingunn verður jarðsett laugardaginn 17. mars þar sem Álftagerðisbræður og fleiri koma og syngja við athöfnina og auðvitað kveður hún með lokaveislu þar sem boðið verður upp á hangikjöt og steikur eins og tíðkaðist í öllum góðum veislum á Aðalbóli. Blessuð sé minning Ingunnar Einarsdóttur.

Þórey Hannesdóttir.

Það síaðist inn í mig með móðurmjólkinni, að fegurðarinnar væri að leita á Fljótsdalshéraði. Þar væru tignarlegustu fjöllin, þar væri himinninn blárri en í öðrum landshlutum og jörðin grænni. Þar að auki væri þar fallegasta, gáfaðasta og skemmtilegasta fólkið! Það var nú ekkert annað. Og mér var ekki hleypt út í lífið, fyrr en ég hafði játast þeirri trú, að allt væri þetta satt og rétt!

Stundum hafa gripið mig efasemdir í þessum trúarbrögðum, en móðir mín sá um að klappa í brestina á meðan hennar naut við. Við tókum nokkrar brýnur um þetta málefni, ég gerði til dæmis að því skóna, að Héraðsmenn væru tæpast skemmtilegasta fólkið í landinu. Þá fauk í mína. – Ekki það nei, ég man ekki betur en Inga á Aðalbóli hafi fóstrað þig forðum; hefur þú hitt einhvern skemmtilegri á lífsleiðinni, mér er spurn. Nú var mamma hróðug, en ég gersamlega mát. Þetta var kórrétt hjá móður minni; Inga á Aðalbóli var ógleymanleg og skemmtileg kona.

Ungur var ég sendur í sæluríki móður minnar fyrir austan. Fyrst til afa og ömmu í Skógargerði, en síðar var ég svo lánsamur að komast í sveit til Páls móðurbróður míns og Ingu á Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Þar var ekki þverfótað fyrir börnum. Tvö þau elstu voru reyndar farin í síld, en það voru sex eftir heima. Það yngsta, hann Sveinn "litli", á öðru ári. Hann kom í heiminn þegar móðir hans var fertug og fimm árum betur. Alls fæddi Inga Páli sínum níu börn, hefði helst viljað bæta fjórum til fimm við, til að geta skákað tengdamóður sinni, Dagnýju Pálsdóttur í Skógargerði, sem eignaðist 13 börn.

Þegar ég kom í Aðalból var þar enn búið í torfbæ, en framhúsið var úr timbri. Göngin voru löng og stundum ströng, þegar birtu var brugðið. Úr þeim voru margar útgönguleiðir, en sú næstinnsta hafði mesta aðdráttaraflið. Þar var eldhúsið. Þar var hlýjan, ef ekki frá húsmóðurinni sjálfri, þá frá koksvélinni. Í eldhúsinu var langborð, þar sem rými var fyrir allt heimafólk. Þar var oft glatt á hjalla, því þetta borð var félagsmiðstöð heimilisins. Þegar haustmyrkrið læddist að dró Aladin-lampinn að sér fólkið með birtunni og hlýjunni. Þar var rætt um lífið og tilveruna, verkefni dagsins og morgundagsins; hver ætti að skvetta úr koppum að morgni, mjólka kýrnar eða sækja geiturnar. Húsmóðirin talaði við okkur krakkana eins og fullorðið fólk.

En það hvessti líka stundum við þetta borð. Þá fékk maður að finna til alvöru lífsins. Einhverju sinni hafði það dregist á langinn, að við Baldur frændi minn kæmum með geiturnar á stekk, þar sem þær voru mjólkaðar daglega; það voru gómsæt berin sem töfðu okkur. Engu að síður komum við galfírugir inn í miðaftanskaffi og ætluðum okkur að setjast þar að góðgerðum Ingu. Þá varnaði sú gamla okkur sætis og tók kappana á beinið fyrir framan annað heimilisfólk. Við það lækkaði hratt á geitasmölunum risið. Hún gerði okkur á kjarnyrtri íslensku grein fyrir því, að greiðasta leiðin til manndóms fælist í því, að skila þeim verkum sem manni væri trúað fyrir – og gera helst betur en ætlast væri til. – Ef allir gengju til verka eins og þið gerðuð í dag, þá yrði nú lítið að bíta og brenna á Aðalbóli. Þið verðið að átta ykkur á því, um hvað lífsbaráttan snýst, sagði sú gamla. Hún leyfði okkur að kveljast um stund í þögninni, en síðan vék hún sér að okkur kankvís og sagði: – Gæskurnar mínar, áður en þið pissið á ykkur þar sem þið standið, má ekki bjóða ykkur nýbakaðar lummur og súkkulaði. Hún hló við og strauk mér um vanga. Ég tók gleði mína, en svei mér þá, ég held að enginn hafi komist nær því að gera mig að manni.

Síðan liðu árin og alltaf heimsótti ég Ingu reglulega, eða ræddi við þá gömlu í síma. Það var heilsubót. Einhverju sinni átti ég glaðning þegar ég kom í Aðalból og bauð þeirri gömlu upp á öl. – Sama og þegið gæskur, mér verður bara bumbult af slíku glundri, svaraði sú gamla. Þá áræddi ég að bjóða rauðvín, en sú gamla afþakkaði enn. –Hvurslags glundur ertu eiginlega að burðast með inn í afdali, ég fæ bara brjóstsviða af þessu léttvínssulli. Ég var ekki viss um, hvort ég ætti að áræða að bjóða henni eitthvað sterkara. Lét þó slag standa og bauð koníak. Þá glaðnaði heldur betur yfir þeirri gömlu. – Það var mikið þú sagðir eitthvað að viti, gæskur, nú kann ég betur við gamla geitasmalann minn!!!

Svona var Inga á Aðalbóli, hreinskiptin, oftast hlý og kát, stundum reið, en alltaf skemmtileg. Gamla mín, ég þakka þér fóstrið og kynnin. Kveðja frá mínum og þú skilar kveðju til minna.

Góða ferð.

Gísli Sigurgeirsson.

Ingunn á Aðalbóli er látin. Hún var komin á tíræðisaldur og andlátsfréttin kom ekki á óvart. Ég hitti hana síðast í sumar, dálítið fótalúna en eldhressa andlega, minnuga og skýra, káta og bjartsýna. Ingunn átti engan sinn líka.

Þegar ég var að alast upp í Hrafnkelsdalnum var þar framan af hvorki bílvegur né sími. Dalurinn er afskekktur og samskipti við umheiminn voru afar stopul. Þeir sem ég umgekkst, fyrir utan heimilisfólkið á Vaðbrekku, voru nágrannarnir á Aðalbóli og Brú. Annað fólk sá ég yfirleitt ekki nema einu sinni á ári þegar messað var.

Það var á þessum árum sem ég mótaði afstöðu mína til umheimsins. Þegar heimilinu sleppti tóku við nágrannabæirnir. Sem barn hafði ég óbilandi trú á því að heimurinn væri algjörlega vandræðalaus. Þegar ég fór af bæ mætti mér alltaf sama viðmótið. Ég vissi að það var stríð í Kóreu en annars hélt ég að veröldin væri full af trausti, öryggi og vinsemd.

Seinna komst ég að því að þetta er ekki svona. Það er ekkert sjálfsagt mál að eiga góða nágranna. Sumu fólki er ekki hægt að treysta og það er víða stríð, ekki bara í útlöndum. En svo einkennilegt sem það er þá hefur þessi tilfinning úr barnæskunni aldrei yfirgefið mig að fullu. Ég er haldinn óbilandi trú á manneskjuna og hef eftir því sem ég hef getað reynt að tileinka mér það viðmót sem ég mætti í uppvextinum sem aftur gerir það að verkum að langoftast hef ég búið við góða nágranna. Viðmót getur verið ótrúlega keðjuverkandi.

Ingunn átti fullt hús af börnum. Samt munaði hana ekkert um að bæta einu við. Mér fannst alltaf að ég ætti þarna heima. Þegar við Einar sonur hennar höfðum félagsskap hvor af öðrum, ungir menn og athafnasamir og stundum svolítið gáleysislegir eins og hendir ungdóminn, þá las hún okkur pistilinn og kvað fast að. Mér þykir enn vænt um að hún skyldi skamma okkur báða jafnt. Svo hló hún að okkur. "Þið eruð nú meiri vitleysingarnir", sagði hún og ég hafði á tilfinningunni að þetta væri hreint ekki svo galin niðurstaða.

Og nú þegar hún er farin finnst mér að ég missi aldrei alveg frá mér þetta viðmót sem ég kynntist barnungur í Hrafnkelsdalnum. Sumt fólk er þannig að það eru hrein forréttindi að hafa fengið að þekkja það. Með þeim orðum vil ég kveðja Ingunni á Aðalbóli um leið og ég sendi fólki hennar samúðarkveðjur.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku.

Ingunn Einarsdóttir frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal var ein af þeim manneskjum sem gera minningar fallegar. Það stafaði frá henni lífsgleði, hlýju og persónulegum styrk sem var næsta einstæður. Kannski er lífsgleðin einmitt það sem gerir okkur sterk og líf okkar fallegt.

Það eru mörg ár liðin síðan ég sá Ingunni fyrst, reyndar man ég ekki eftir fyrsta skiptinu. Fyrsta minningin er af litlu eldhúsgólfi í gamla bænum á Aðalbóli, ég er í heimsókn, kannski 7 eða 8 ára, og við Páll Pálsson erum að fljúgast á okkur til skemmtunar. Væntanlega fylgdu átökunum óp og læti sem ég man ekki vegna þess hve sjálfsögð þau voru í slíkum tilvikum. Ingunn snýr sér skyndilega frá eldavélinni, reiðir upp eldskörunginn með leikrænum tilþrifum og segir með sinni miklu og fögru rödd: "Snáfið út, bannsettir pottormarnir ykkar eða þið skuluð fá að kenna á skörungnum!" Út geystumst við pottormarnir til að bjarga lífi okkar, skellihlæjandi og fagnandi í öryggi þeirra smásveina sem vissu fyrir víst að ekki stafaði nokkurri hættu af skörungnum. Auðvitað var nauðsynlegt að reka okkur út í góða veðrið en hún hafði fyrirhafnarlaust breytt aganum í leik og ætli við höfum ekki bara gleymt út af hverju var flogist á, spásserað niður að ánni og rætt lífið og tilveruna.

Ingunn stýrði sínum stóra barnahóp og annaðist hann af einstökum þokka. Hún gat brugðið á leik og talað alvarlega eftir því sem þurfti og það breytti engu þótt öðru hverju bættist í hópinn einn og einn stráksauður af næsta bæ. Þegar ég var staddur í heimsókn á Aðalbóli fannst mér að ég væri einn af systkinahópnum. Það var góð tilfinning og hún byggðist ekki síst á viðmótshlýju Ingunnar sem réð andrúmsloftinu á þessu heimili, að öðrum ólöstuðum. Hennar fagra fordæmi hefur fylgt systkinunum frá Aðalbóli. Þau hafa misst mikils en móðir þeirra er þó enn með þeim, hún sést í framkomu þeirra og heillandi viðmóti.

Ingunn þurfti iðulega að kljást við heilsuleysi af ýmsu tagi en hún hristi það af sér og datt aldrei í hug að gefast upp. Það er lærdómsríkt að kynnast fólki sem horfist djarfmannlega í augu við líf sitt. Það myndi vefjast fyrir mörgum nú til dags að byrja búskap í afskekktum dal án bílvega og nokkurs annars sem nútímamenn kalla sjálfsagða þjónustu og telja til mannréttinda, hvað þá að reka þar gestrisið og glæsilegt heimili, koma, upp stórum og mannvænlegum barnahópi og taka á móti aragrúa af gestum, bæði einstaklingum og hópum til lengri og skemmri dvalar. Þetta gerði Ingunn á Aðalbóli. Hún náði háum aldri og var alla tíð hvers manns hugljúfi. Ég minntist í upphafi á lífsgleði Ingunnar og nú þegar hún er fallin frá er það glaðlyndið sem eftir situr í minningunni. Þegar hugsað er til þessarar konu verða allar minningar fallegar.

Kristján Jóhann Jónsson.

Ég man vel eftir Ingu í Fjallsseli, hún var á sama reki og eldri systur mínar og með þeim í farskólanum sem stundum var heima. Hélst síðan vinskapur með þeim. Þá var ég ungur að árum en í minninu hangir mynd af dökkhærðri glaðlegri stúlku sem var ákveðin og frjálsleg í fasi, sagði gamansögur og hló dátt. Þegar ég var nokkuð vaxinn úr grasi gerðist svo það að Inga giftist Palla bróður mínum. Löngu síðar sagði hún mér frá þessum atburði. Þetta gerðist haustið 1936 á Ekkjufelli, daginn sem þau Ekkjufellshjón, Sigbjörn og Margrét, héldu gullbrúðkaup sitt. Séra Sigurjón á Kirkjubæ gaf þau Ingu og Pál saman – áður en veislan hófst.

Ár liðu. Ég "fór suður" eins og fleiri, eignaðist hús og heimili í Reykjavík. Þá hófust aftur kynni okkar Ingu sem þá var ekki lengur Inga í Fjallsseli heldur Inga á Aðalbóli, húsfreyja á fornfrægu setri. Höfðu þau Páll hafið þar búskap árið 1945. Svo æxlaðist til að Pálmi, sonur okkar Ingibjargar, fór átta ára gamall til sumardvalar á Aðalbóli og er skemmst af því að segja að hann var þar mörg sumur og eftir að hann fullorðnaðist var hann þar langdvölum og síðast heimilisfastur. Inga leit á hann sem fósturson sinn og voru alla tíð með þeim miklir kærleikar.

Spyrja má hvernig það var að búa á Aðalbóli í Hrafnkelsdal, við jaðar öræfa landsins? Bærinn lá einna lengst allra byggðra bóla á Íslandi frá verslunarstað og vegurinn lengi vel torsóttar. Hér er ekki tóm til að rekja búskaparsögu þeirra Páls og Ingunnar sem vert væri, til þess þyrfti að skrifa bók. Hitt er víst að þau undu sér vel í dalnum og þar komu þau upp sínum stóra barnahópi en þau eignuðust tíu börn. Má geta sér nærri um að húsmóðurstarfið hafi stundum verið erfitt og ekki heiglum hent. Eftir að Páll lést (1981) bjó Inga áfram með börnum sínum og var aldrei langdvölum annars staðar. Má segja hún hafi haldið þar heimili til hinstu stundar.

Eftir að fjárhagur rýmkaðist og vegir urðu greiðfærir kom ég oft í Aðalból. Alltaf vorum við velkomin þar, ég og mitt fólk. Það var sérstök upplifun að sitja yfir kaffibolla við eldhúsborðið undir glugga sem vissi inn til dals, spjalla og heyra Ingu segja frá en hún var fróð kona og minnug, gamansöm en græskulaus. Meiningu sína gat hún þó sagt umbúðalaust. Við Ingibjörg komum þar síðast í sumar leið í rútu austan yfir heiði. Það var kölluð Hrafnkelsblótsferð. Við bönkuðum upp á hjá Ingu og tók hún okkur af alúð eins og venjulega. Við sátum með húsfreyju við eldhúsborðið, spjölluðum og dreyptum á kaffi og koníaki. Svo sagðist Inga þurfa að fara að taka sig til og við röltum út á barinn hjá Kristrúnu og Sigurði en þar var haldin veisla í lok ferðar um slóðir Hrafnkels Freysgoða. Inga kom þar seinna, uppábúin. Hún bar sig vel, höfðingleg í fasi, dökka hárið grásprengt. Hefði fáum dottið í hug að þessi kona væri komin á tíræðisaldur. Að skilnaði var glösum lyft og við hjón héldum út Dal.

Það er gott að eiga þessa minningu um Ingu á Aðalbóli. Hún sé kveðja mín nú þegar leiðir skiljast.

Indriði Gíslason.

Látin er á nítugasta og þriðja aldursári Ingunn Einarsdóttir, húsfreyja á Aðalbóli í Hrafnkelsdal, þar sem hún hefur stýrt heimili sínu í sextíu ár. Það fer ekki hjá því að ýmsar minningar vakni þegar slíkur einstaklingur sem Ingunn var hverfur af sviðinu og þá sérstaklega hjá þeim sem verið hafa nágrannar hennar um þetta sextíu ára tímabil.

Ég var fjórtán ára þegar þau Páll Gíslason og Ingunn fluttu í Aðalból og fannst það spennandi þegar nýtt fólk var að koma í nágrennið en gerði mér ábyggilega ekki grein fyrir hvað mikinn kjark þurfti til að flytjast til búskapar á þessa afdalajörð sem hún var þá, en segja má að á þeim tíma hafi enn ríkt fornöld í Hrafnkelsdal þar sem þá var þar hvorki vegur eða sími og nota þurfti kláfferju yfir Jökulsá til að komast á bílveg. Það varð að vera kjarkmikið og áræðið fólk sem á þeim tíma settist að á slíkum stað. Það voru ekki álitleg húsakynnin sem mættu ungu konunni sem kom í Aðalból vorið 1946 en þar var baðstofa að hruni komin og nýlega uppgert frammihús sem notað var sem skemma. Það var fyrsta verkið að rífa baðstofuna og allt sem henni fylgdi en gera íbúð úr skemmunni. Þetta verk vann Snorri Gunnarsson ef sinni alkunnu snilld og með góðra manna hjálp var komið þokkalegt íbúðarhús um haustið. En meðan á þeim framkvæmdum stóð var sofið á skemmuloftinu og hesthúsið sem var á hlaðinu notað fyrir eldhús en þó um væri að ræða kofa hlaðinn úr torfi og grjóti með moldargólfi var alltaf jafn hreinlegt hjá Ingunni.

Aldrei varð ég var við að Ingunn kvartaði yfir því að erfitt væri að búa í því umhverfi sem var á svo afskekktum stað sem Aðalból var á hennar fyrstu búskaparárum en alltaf jafn hress og kát og söng oft við vinnu sína enda með skæra og skemmtilega söngrödd.

Tíminn stóð ekki kyrr á þessum stað frekar en öðrum og þróun til nýrrar tækni og framfara hélt innreið sína í Hrafnkelsdal þegar Jökulsá var brúuð 1953 og sími kom á bæinn 1957 og mun það hafa verið einn af síðustu bæjum á landinu til þess að komast í það sem nú er kallað samband við umheiminn. Með samgöngubótum breyttust allar aðstæður til búskapar og nú er rekið eitt af stærri sauðfjárbúum landsins á Aðalbóli.

Vegna þess að víðlendar afréttir Vesturöræfa liggja að löndum Aðalbóls og þar er réttað það fé sem á öræfunum gengur, var á Aðalbóli mikill erill manna á haustin, þegar göngur stóðu yfir. Langmest kom það niður á húsfreyjunni á bænum vegna þess að það þótti sjálfsagt að þar hefðu allir mat og drykk að þörfum. Segja má að stanslaus veisla væri hjá Ingunni meðan gangnamenn voru á ferðinni á haustin og það var eins og henni fyndist það sjálfsagður hlutur.

Það var alltaf jafngott að koma í Aðalból en þó sérstaklega þegar komið var af öræfunum og marga mun hafa grasað þar að sem þreyttir og svangir þáðu með ánægju matinn og kaffisopann í eldhúsinu hjá Ingunni, undirritaður sennilega oftar en flestir aðrir.

Nú þegar komið er að kveðjustund þökkum við Sigríður Ingunni samfylgdina og óskum afkomendum hennar alls hins besta.

Aðalsteinn Aðalsteinsson.

Síðsumars kom ég í fyrsta sinn í dalinn, Hrafnkelsdal, sem kúrir þarna inn undir öræfunum. Oft eins og hann sé með annan fótinn innan þeirra, stundum jafnvel báða. Inga tók vel á móti mér og þessi nánd við öræfin virtist ekki há henni að neinu leyti. Miklu frekar að þarna væri hún á heimavelli. Þetta var hennar ríki sem hún var vissulega öfundsverð af. Þarna var Hrafnkela, áin sem börnin hennar höfðu svamlað í og hún kannski líka, á góðviðrisdögum. Þarna voru tætturnar af gamla bænum og heill heimur af minningum. Ég sé eiginlega eftir því að hafa ekki komið í dalinn fyrr því nánari snerting við lífið þar hefði verið mér að skapi. Inga var í mínum huga ein af merkilegri konum sem ég hef kynnst. Margfróð og skemmtileg en gaf kannski ekki mikið út á áhuga minn á lífinu í dalnum, sem fyrir henni var ekki annað en eðlilegur hlutur, daglegt amstur undangenginna áratuga. Lifið sjálft og svosem ekkert merkilegt við það. Samt fannst mér alltaf að umhverfið, þessi nánd við öræfin, hlyti að hafa mótað dalbúana og Inga vera sláandi dæmi um það. Sterk, sjálfstæð kona með skoðanir á hlutunum, það voru sko töggur í henni og aldurinn var ekki að þvælast neitt fyrir henni. Inga var kona sem lifði tímana tvenna, jafnvel þrenna og virtist ekki horfa með neinni eftirsjá til gömlu tímanna eða eiga í vandræðum með að tileinka sér allar breytingarnar. Held henni hafi hálfvegis fundist gaman að fylgjast með yngri kynslóðunum og öllum nýjungunum, kannski af því hún var sátt við sitt.

Oftast átti ég leið um dalinn að sumar- eða haustlagi og þá var tilvalið að stoppa í Aðalbóli, setjast niður við eldhúsgluggann með þessu ótrúlega útsýni inn til dalsins og spjalla yfir kaffibolla við Ingu, alltaf jafn gaman að henni og ekki komið að tómum kofunum þar á bæ. Mikið held ég það verði skrýtið að koma í Aðalból, setjast við eldhúsborðið, horfa inn til öræfanna en hitta ekki á Ingu.

Dagný Indriðadóttir.

Síðan ég man fyrst eftir mér bjó Inga á Aðalbóli. Hún var stórbrotinn persónuleiki og stjórnaði á sínu heimili. Sem barni fannst mér skrítið þegar hún skammaði fullorðna karlmenn fyrir eitthvað sem henni líkaði ekki. En þegar ég komst til vits og ára læddist fram bros á varir mínar við þetta.

Ekki veit ég hvert tilefnið var, en ég fékk að fara upp í Aðalból og vera þar í viku þegar ég var krakki. Þetta var rosalega spennandi og við brölluðum mikið saman ég og tveir yngstu synir hennar, Gísli og Sveinn. Þá var enn búið í gamla húsinu og nýja húsið í byggingu. Þar var ýmislegt geymt, t.d. sveskjurnar og rúsínurnar sem við höfðum sérstakan áhuga á. Við vönduðum okkur mikið þegar við vorum að næla okkur í þetta góðgæti, læddumst inn og þegar út var komið sprettum við úr spori upp í gamlan kofa fyrir ofan bæinn. Við vissum sem var að ef Inga næði í rassinn á okkur fengjum við að heyra það. Þetta var frábær tími og ekki man ég að hún segði nokkurn tíma styggðaryrði við mig.

Vegna vinnu minnar var ég svo heppin að njóta aukinna samvista við hana nú síðustu ár. Hún var ávallt hress og leit síður en svo út fyrir að vera á tíræðisaldri. Inga var frábær kona og verður hennar sárt saknað. Innilegar samúðarkveðjur til allra aðstandenda hennar og guð styrki ykkur í sorginni.

Ingibjörg Aðalsteinsdóttir.

Eitt af því sem lifir hvað sterkast í æskuminningunni eru samskiptin við fólkið á Aðalbóli og þá sérstaklega Ingunni Einarsdóttur sem réði húsum þar. Hún var sterkur persónuleiki sem verður lengi í minnum hafður af öllum þeim er sóttu hana heim. Þar ríkti ætíð gleði og velvilji við gestakomu, jafnvel þó það væri bara stráksauðurinn af næsta bæ sem átti leið um. Hvort heldur var þegar ég var barn, unglingur eða fullorðinn maður, átti Ingunn alltaf til leiðbeinandi lífspeki að miðla af, með þeim staðgóðu veigum sem á borð voru bornar. Hún var hafsjór af fróðleik sem hún kom til skila á skemmtilegan hátt og þar fór greinilega kona sem hafði lifað tímana tvenna. Alltaf var stutt í hláturinn er saklaus prakkarastrik okkar strákanna í Hrafnkelsdalnum bar á góma, en ef gjörningar okkar pjakkanna orkuðu eitthvað tvímælis, var hún ekki að skafa utan af hlutunum þegar hún setti ofan í við okkur. Þá sendi hún skýr skilaboð um hvað er rétt og hvað er rangt. Mér er minnistætt að nú fyrir skömmu viðurkenndi ég fyrir henni gjörning sem ég var ekki stoltur af. Eitt sinn er ég hafði komið gangandi af fjöllum svangur að næturlagi læddist ég í búrið hjá henni sem ég þekkti af eigin reynslu að var sjaldan fátæklegt og fékk mér vel að eta. Ekki einungis skemmti hún sér konunglega yfir því að ég skyldi líta á þetta sem synd, heldur gladdist hún líka yfir því að ég skyldi nú hafa fundið eitthvað til seðja sárasta hungrið. Gestrisni hennar og góðvilji áttu sér fá takmörk.

Nú þegar Ingunn er horfin af sjónarsviðinu er erfitt að ímynda sér Hrafnkelsdalinn án hennar. Hún var fastur punktur í tilverunni sem var erfitt að gera sér í hugarlund að hyrfi nokkurn tímann. En allir hafa sinn vitjunartíma og munum við sem eftir sitjum ylja okkur við minninguna um þessa mikilhæfu konu sem átti meiri gleði og yl en flest venjulegt fólk. Megi sú minning verða afkomendum hennar styrkur í sorginni.

Snorri