Útgerð Flaggskip íslenzka flotans, Engey RE, hefur nú skipt um eigendur og verður í framtíðinni gerð út af dótturfyrirtæki Samherja innan ESB.
Útgerð Flaggskip íslenzka flotans, Engey RE, hefur nú skipt um eigendur og verður í framtíðinni gerð út af dótturfyrirtæki Samherja innan ESB. — Morgunblaðið/Alfons
Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.is HB Grandi hf. hefur samið við Samherja hf. um sölu á Engey RE 1. Skipið verður afhent í Fuglafirði í Færeyjum í þessari viku. Söluverð skipsins er 31,4 milljónir evra, 2,8 milljarðar króna.

Eftir Hjört Gíslason

hjgi@mbl.is

HB Grandi hf. hefur samið við Samherja hf. um sölu á Engey RE 1. Skipið verður afhent í Fuglafirði í Færeyjum í þessari viku. Söluverð skipsins er 31,4 milljónir evra, 2,8 milljarðar króna. Bókfærður hagnaður HB Granda af sölunni er í kringum 700 milljónir króna. Af þessum sökum er fallið frá áður tilkynntum áætlunum um að selja Engey til dótturfélags HB Granda, Atlantic Pelagic, og gera hana út við strendur Afríku.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að næstu vikur verði Engey gerð út undir íslenzku flaggi á kolmunna, en skipið sé keypt fyrir hönd eins af dótturfyrirtækjum Samherja erlendis. Það verði því í framtíðinni gert út frá landi innan Evrópusambandsins. Það verði gert út til veiða á uppsjávarfiski og botnfiski, eftir því sem hentar hverju sinni. Ekki liggi endanlega fyrir hvert dótturfélaganna kaupi skipið, en þau eru Onward Fishing á Bretlandi DFFU á Þýzkalandi og Atlantex á Póllandi.

Dýrt en vel útbúið skip

Þorsteinn Már segir að gert sé ráð fyrir því að einhverjar breytingar verði á skipastól dótturfélaganna við þessi skipakaup. Unnið verði að frekari framkvæmd þessa máls á næstu vikum.

"Þetta er vissulega dýrt skip, en það er mjög vel útbúið og því fylgja ýmsir möguleikar sem auka fjölbreytni í útgerð dótturfélaga okkar innan ESB. Við erum því mjög ánægðir með að hafa náð samningum við HB Granda um kaupin á skipinu.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, segir að með þessu sé horfið frá fyrri áformum um veiðarnar við Afríku. Slík áform séu því ekki lengur fyrir hendi, hvað sem verða kunni í framtíðinni. "Við fengum einfaldlega mjög gott tilboð í skipið og mátum það svo að hag fyrirtækisins væri bezt þjónað með því að fara þessa leið," segir Eggert.

Í hnotskurn
» Á árinu 2006 var aflaverðmæti Engeyjar 1.451 milljón króna, en ríflega 36.000 tonn voru tekin til vinnslu um borð.
» Skipið er búið hátæknivinnslubúnaði með um 200 tonna frystigetu á sólarhring og 7 VMK flökunarvélum. Það tekur um 1.800 tonn af frystum afurðum á brettum í lest.
» Engey ver keypt til landsins árið 2005. Hún er stærsta fiskiskip íslenzka flotans, 105 metrar að lengd og 20 að breidd.