Hinn 13. mars sl. var öld liðin frá fæðingu Jakobs Ó. Péturssonar ritstjóra Íslendings. Hann var meðal fremstu hagyrðinga um sína daga og hélt úti lausavísnaþætti í blaði sínu, sem þótti vel unninn og enn er vitnað til.

Hinn 13. mars sl. var öld liðin frá fæðingu Jakobs Ó. Péturssonar ritstjóra Íslendings.

Hann var meðal fremstu hagyrðinga um sína daga og hélt úti lausavísnaþætti í blaði sínu, sem þótti vel unninn og enn er vitnað til. Þessi staka er mjög í hans anda:

Það að yrkja er þjóðargaman.

Þetta er önnur hendingin.

Vísu þessa set ég saman.

Svona verður endingin.

Hann hafði gaman af málshátta- og orðtækjavísum:

Ef barnið þitt er brekótt,

villt, ber það oft um dugnað vott.

"Fátt er svo með öllu illt

að ekki boði nokkuð gott".

Í háttalykli hans stendur þessi braghenda:

Eitt er það, sem víkja mætti úr voru landi: Þessi gamli aldarandi

að eira í vondu hjónabandi.

Og enn kvað hann:

Oft mig þyrsti í angan blóðs,

oft ég kyssti í laumi.

Er ég gisti í faðmi fljóðs,

fljótt ég missti af taumi.

Jakob var fæddur á Hranastöðum í Eyjafirði og þótti vænt um sveitina og fjörðinn:

Angan berst frá yrktri jörð,

allt er í mjúkum línum,

aldrei leit ég Eyjafjörð

yndislegri sýnum.

pebl@mbl.is