Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson svarar grein Jónasar Bjarnasonar: "Svo virðist sem Páll Magnússon telji sig eingöngu vera útvarpsstjóra Sjálfstæðisflokksins."

JÓNAS Bjarnason efnaverkfræðingur skrifaði grein í Morgunblaðið hinn 24. mars sl. og fjallaði um pistil sem ég flutti á Útvarpi Sögu nokkrum dögum fyrr þar sem ég sagði hlustendum m.a. frá því að fréttastjóri "útvarps allra landsmanna" hefði sakað mig um skæting og eitthvað enn verra í athugasemd á heimasíðunni minni, www.sigurjon.is.

Ástæðan fyrir þessum ofsafengnu og ýktu viðbrögðum fréttastjóra RÚV var að ég gerði alvarlegar athugasemdir við það að fréttastofa Ríkisútvarpsins hirti ekki um að leiðrétta augljósar rangfærslur í fréttum sem vörðuðu áhrif umhverfisþátta á þorskþurrð við strendur Kanada. Upphafleg frétt RÚV sagði frá grein bandarískra vísindamanna um að mögulega væri loftslagsbreytingum um að kenna að þorskstofninn þar næði sér ekki á strik þrátt fyrir áralanga friðun. Það er skemmst frá því að segja að í þessari frétt var flestu snúið á hvolf, s.s. var sjór sagður hafa hlýnað þegar hann hafði í raun kólnað.

Ég hef síðan reynt að fá afstöðu sjálfs útvarpsstjóra til þessa fréttaflutnings en ekki fengið nein viðbrögð frá Páli Magnússyni þrátt fyrir að hafa ítrekað gengið eftir þeim. Svo virðist sem hann telji sig eingöngu vera útvarpsstjóra Sjálfstæðisflokksins og umkvartanir þingmanna annarra flokka skipta hann engu máli. Alvarlegast er þó að almenningur getur ekki treyst því að fréttir í Ríkisútvarpinu séu leiðréttar strax og vitað er að þar er farið með rangfærslur nema þá með hangandi hendi og til hálfs.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég hef reynt að koma að athugasemdum um vafasaman fréttaflutning Ríkisútvarpsins um sjávarútvegsmál. Ríkisútvarpið fór t.d. mikinn í fréttaflutningi af falsspánni sem sagði til um hrun allra fiskistofna heimsins árið 2048. Upp komst að spáin um fyrirsjáanleg endalok fiskveiða árið 2048 þjónaði þeim eina tilgangi að vera beita til að fanga athygli fjölmiðla á annars innihaldsrýrri skýrslu. Ríkisútvarpið kokgleypti þessa beitu eins og svo margir fjölmiðlar um víða veröld en það sem verra var, útvarp allra landsmanna sá eftir á enga ástæðu til að geta þess að um falsspá hefði verið að ræða þrátt fyrir að hafa óræk gögn þess efnis. Ekki veit ég hvers vegna fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur ekki séð ástæðu til að greina frá því sanna í málinu.

Í áðurnefndri grein Jónasar Bjarnasonar kemur fram að okkur greinir ekki á um að þorskurinn við Kanada hafi vaxið hægt og verið lifrarrýr um það leyti sem þorskgengd minnkaði snarlega við Kanada.

Ég lærði það fyrir allmörgum árum í Háskóla Íslands að ef fiskur fær ekki að éta hægist á vexti og hann verður lifrarrýr. Jónas Bjarnason vill meina að þessar skyndilegu breytingar sem urðu á vexti þorsksins við Kanada megi rekja til vals veiðarfæra sem veiða stærsta fiskinn og skilja eftir minni fisk sem á að fjölga sér á leiðinni til erfðabreytinga.

Ég get ekki skrifað undir þessar kenningar af margvíslegum ástæðum, s.s. að slíkar breytingar ættu að koma fram smám saman en ekki að gerast í einhverjum stökkum og sömuleiðis ættu þær að ganga til baka um leið og öllum veiðum væri hætt.

Helstu rök sem Jónas Bjarnason nefnir þessari erfðafræði sinni til stuðnings er málflutningur nokkurra fræðimanna fyrir kanadískri þingnefnd í september 2005 þar sem farið var út um víðan völl.

Það er varasamt að gleypa allar fullyrðingar hráar sem koma frá sumum þessara manna, s.s. Ransom Myers en hann kom einmitt að gerð áðurnefndrar falsspár sem RÚV gerði góð skil. Að lokum er við hæfi að geta þess að umræddur fræðimaður var sérstakur hátíðargestur á 40 ára afmæli Hafró þar sem hann fór mikinn í vafasömum fullyrðingum um fiskistofna vítt og breitt um heiminn

Höfundur er alþingismaður.