Hjalti Geir Það er athyglisvert að enginn stólanna sem hann hefur hannað er í framleiðslu í dag en margir í notkun. Það leiðir hugann að því hvort ekki liggi hjá okkur ónýttur fjársjóður í þeirri hönnun sem samkvæmt dæmunum stenst tímans tönn hvort sem litið er til forms, notagildis eða styrkleika, segir greinarhöfundur.
Hjalti Geir Það er athyglisvert að enginn stólanna sem hann hefur hannað er í framleiðslu í dag en margir í notkun. Það leiðir hugann að því hvort ekki liggi hjá okkur ónýttur fjársjóður í þeirri hönnun sem samkvæmt dæmunum stenst tímans tönn hvort sem litið er til forms, notagildis eða styrkleika, segir greinarhöfundur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjalti Geir Kristjánsson er einn af frumkvöðlum íslenskrar húsgagnahönnunar. Sýning á verkum hans verður opnuð í 101 galleríi á fimmtudaginn kemur en þar verða stólar Hjalta Geirs í forgrunni. Hann ræðir hér við blaðamann um feril sinn og hönnun.
Eftir Tinnu Gunnarsdóttur

greip@simnet.is

Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagna- og innanhússarkitekt varð áttræður á síðasta ári. Af því tilefni ákvað fjölskylda hans að nú væri kominn tími til að líta yfir farinn veg. Sýning á verkum hans verður opnuð fimmtudaginn 5. apríl í 101 galleríi á Hverfisgötu 18b.

Undirrituð vill þakka það framtak af heilum hug. Gerir sýningin það að verkum að brot af sögunni verður okkur aðgengilegt bæði á meðan á sýningu stendur og svo í sýningarskrá og viðtali sem Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir tók við föður sinn.

Sá hluti menningararfsins sem tengist hönnun er samtímafólki afar óaðgengilegur þar sem lítið hefur verið um hann fjallað. Þannig er erfitt fyrir áhugasama að kynna sér söguna, þó ekki væri nema til að vita hver hefði hannað og framleitt stólinn sem hefur tilheyrt fjölskyldunni í hálfa öld.

Það er líklega þess vegna sem maður heyrir því slegið fram í tíma og ótíma að ekkert hafi verið gert í hönnun á Íslandi, að við eigum enga hönnunarsögu ólíkt t.d. hinum Norðurlöndunum. Sannleikurinn er sá að við eigum okkur mikla og merkilega sögu sem ekki hefur verið skráð ennþá. Sýningin "Stólar HGK" mun varpa nokkru ljósi á hana.

Hjalti Geir var lengi á leiðinni heim

Hjalti Geir Kristjánsson fæddist í Reykjavík árið 1926. Að loknu verslunarskólaprófi fór hann í Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist sem húsgagnasmiður árið 1948. Þaðan lá leiðin til Zürich í Sviss þar sem hann nam húsgagna- og innanhússarkitektúr á árunum 1948–1950. Á leiðinni heim til Íslands hafði hann viðkomu í Stokkhólmi og New York. Í Stokkhólmi var hann gestanemi við Konstfack-listakademíuna en í New York við Columbia-háskólann. Hann var því vel sigldur þegar hann kom aftur heim 4 árum síðar.

Við heimkomuna hóf Hjalti Geir störf við fyrirtæki föður síns Kristjáns Siggeirssonar en hann rak húsgagnaverslun og vinnustofu með sama nafni.

"Það voru forréttindi fyrir mig að geta komið að fyrirtækinu, sett upp teiknistofu þar og farið að teikna húsgögn sem síðar voru framleidd á húsgagnavinnustofunni," segir Hjalti Geir.

Skömmu eftir heimkomuna var haldin stór iðnsýning í nýbyggingu Iðnskólans á Skólavörðuholt í tilefni af 200 ára afmæli Innréttinga Skúla Magnússonar.

"Við ákváðum að sjálfsögðu að taka þátt í iðnsýningunni um haustið. Við það byrjaði ég á því að hanna húsgögn sem fyrirtækið myndi sýna, allskonar heimilishúsgögn, skápa, stóla, borð, allt fyrir heimilið. Þetta voru allt ný hönnuð húsgögn, sem framleidd voru á vinnustofunni og áttu eftir að verða uppistaðan í framleiðslunni á næstu árum."

Hjalti Geir bendir á að á þessum tíma hafi orðið "hönnun" verið óþekkt. Það var ekki fyrr en árið 1955 sem orðið sást fyrst notað í rituðu máli en það var dr. Alexander Jóhannesson þáverandi rektor Háskóla Íslands sem fyrstur notaði orðið í þeirri merkingu sem við nú þekkjum.

"Ástandið þegar hér var komið sögu má segja að hafi verið allsérstakt. Hönnuðir sem lært höfðu erlendis húsgagna- og innréttingahönnun gátu varla starfrækt sjálfstæðar teiknistofur, nema hafa annað sér til framfæris og þá einkum kennslu. Það var lítt þekkt að framleiðendur fjöldaframleiddu húsgögn eftir hönnuði. Það voru að miklu leyti kópíur að erlendri fyrirmynd. Innflutningur húsgagna var mjög af skornum skammti þar sem erfitt var að fá innflutningsleyfi, en allur innflutningur var háður slíkum leyfum. Þar að auki voru innflutningstollar á slíkum innflutningi þá mjög háir eða 90%."

FHI varð til á sama ári og orðið hönnun

Árið 1955 stofnuðu Hjalti Geir og kollegar hans Félag húsgagna- og innanhússarkitekta FHI og var Hjalti Geir formaður þess fyrstu 9 árin.

"Við það fórum við að þjappast meira saman og vinna að hagsmunamálum okkar, svo og að vekja athygli á þeirri þjónustu sem við gátum veitt."

Félagið stóð meðal annars fyrir húsgagnasýningu á verkum félagsmanna árið 1960 sem Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt hannaði útlitið á.

"Sjálfstraustið óx hjá okkur, og í kjölfarið ákváðum við að efna til annarrar sýningar árið eftir, eða "Húsgögn 1961", allt með hönnun félaga FHI, sem 4.000 manns sóttu."

Sama ár tók félagið jafnframt þátt í stórri iðnsýningu í München í Þýskalandi.

"Það skemmtilega sem kom út úr þessari sýningu m.a. var að stóll hannaður af Gunnari H. Guðmundssyni fékk gullverðlaun, og gekk síðan undir nafninu Gullstóllinn."

Kaflaskil urðu um og upp úr 1970

Upp úr 1970 verða kaflaskil hjá hönnuðinum Hjalta Geir þegar hann ákveður að einbeita sér frekar að rekstri fyrirtækisins og stjórnunarstarfi. Þá fær hann aðra hönnuði til að vinna með fyrirtækinu að hönnun og þróun húsgagna. Má þar nefna Gunnar Magnússon og Gunnar H. Guðmundsson en KS framleiddi einmitt fyrrnefndan Gullstól.

Um svipað leyti urðu önnur kaflaskil þegar Ísland gengur í EFTA:

"Árið 1970 við inngöngu Íslands í EFTA fóru ýmsir hlutir að gerast. Innflutningstollar voru lækkaðir í 60% og síðan niður í ekki neitt á næstu 10 árum. Með inngöngunni og breytingum því samfara, var farið að kanna útflutning á húsgögnum. Nú fór að lifna yfir því að ekki dugði að bjóða húsgögn erlendis nema eftir frumhönnun húsgagnaarkitekta."

Þessum tollalækkunum fylgdi stóraukin samkeppni íslenskra húsgagnaframleiðenda við erlenda framleiðendur og þó ekki væri nema stærðarinnar vegna var samkeppnin erfið.

"Við fundum pláss á markaðinum sem innflutningurinn átti erfitt með að keppa við og það voru skrifstofuhúsgögnin. Þau kölluðu á mikla þjónustu. Þarna var gat sem innflutningurinn átti erfitt með að fóta sig í.

Smám saman minnkar og hverfur nær alveg framleiðsla á íslenskum húsgögnum fyrir heimilið en á sama tíma vex og dafnar hönnun og framleiðsla á íslenskum skrifstofuhúsgögnum."

Stólar HGK

Það tímabil sem til skoðunar er á sýningunni "Stólar HGK" er því frá árunum 1952–1970, en eins og nafnið gefur til kynna verða stólar hans í forgrunni á sýningunni. Það er því ekki úr vegi að ræða tildrög nokkurra þeirra við hönnuðinn. En fyrst, hvað er það sem gerir stólinn eins áhugaverðan og raun ber vitni?

"Það var einhver sem sagði að stóll húsgagnaarkitektsins samsvaraði súpu kokksins."

Það kom undirritaðri á óvart að nokkrir stólanna sem á sýningunni verða voru hannaðir fyrir ákveðna aðila og eingöngu framleiddir fyrir þá í nokkrum eintökum eða upp í nokkur hundruð.

Fyrst ber að nefna fundarstól sem Hjalti Geir hannaði fyrir Vinnuveitendasamband Íslands árið 1953. Hann var eingöngu framleiddur í 20 eintökum. Hönnuðurinn hafði frjálsar hendur hvað hönnun stólsins varðaði þó með þeim formerkjum að þeir vildu fá virðulegan og vandaðan fundarstól. Stóllinn hefur svo sannarlega staðist það hvorutveggja því hann er ennþá í notkun og hefur flust á milli margra húsakynna með eiganda sínum enda kominn á sextugsaldurinn. Í stólnum sjást vel skandinavísk áhrif, ekki síst í lífrænu formi armanna sem jafnframt bera vitni um gott handbragð.

Skömmu síðar fara framleiðsluaðferðir sem leiða til lægri framleiðslukostnaðar að hafa meira vægi. Þá breytist formið með, línur verða beinni og lífræn form sem kröfðust mikillar handavinnu detta svo til alveg út.

"Maður fór að hugsa meira um að hafa stólana þannig að það væri gott að framleiða þá, samanber armstól ST114 frá árinu 1958. Stóllinn var mjög vinsæll og er víða í notkun enn þann dag í dag, t.d. í Alþingi. Þegar þeir flytja úr Þórshamri yfir í skrifstofurnar í Austurstræti þá láta þeir gera þessa stóla alla upp og nota þá áfram."

Tilbrigði við stólinn ST114 var sýnt á húsgagnasýningu FHI árið 1960. Þarna er um sömu grind að ræða en bakið og sessan hafa tekið á sig annað form. Þessi útfærsla fór þó aldrei í framleiðslu.

Annar stóll sem hannaður var með hagkvæmni framleiðslunnar í huga er borðstofustóll frá 1963. Þegar hér er komið sögu hafði fyrirtækið byggt verksmiðju að sænskri fyrirmynd. Nýju vélarnar voru stærri og afkastameiri en um leið sjálfvirkari og er stóllinn hannaður með nýju vélarnar og getu þeirra í huga.

Árið 1965 hannar Hjalti Geir stól fyrir Hátíðarsal Háskóla Íslands. Sá stóll kom í staðinn fyrir stól sem Guðjón Samúelsson hafði teiknað þegar húsið var byggt. Vegna húsnæðisskorts þurfti háskólinn á því að halda að geta nýtt hátíðarsalinn sem prófsal líka og þurfti því stóllinn hvorutveggja að þjóna hlutverki skrifborðsstóls og samkomustóls.

"Þetta var hugsað þannig að þetta væri vinnustóll en heppilegur sem hátíðarstóll. Það er gott að standa upp úr honum og hann hentar vel með borði. Stólarnir raðast vel saman og eru mátulega breiðir án þess að taka of mikið pláss."

Stóllinn sem var framleiddur í tvö til þrjú hundruð eintökum er nú í geymslum Háskóla Íslands.

Yngsti stóllinn á sýningunni er frá árinu 1968. Hjalti Geir hannaði stólinn fyrir Verslunarráð Íslands. Hér er um fundarstól að ræða sem var framleiddur í u.þ.b. 30 eintökum. Stóllinn er ennþá notaður í dag og er mjög þægilegur þar sem hann er hvorutveggja á snúningsfæti og með veltibaki. Hér blandar Hjalti Geir saman stálfæti, bólstruðu tausæti og timburörmum. Formið er orðið kantaðra og 7. áratugurinn orðinn sýnilegur. Ekki er erfitt að sjá stólinn fyrir sér við einhverja af fjölmörgum stjórnstöðvum geimáratugarins, en ég gæti líka séð hann fyrir mér fyrir framan stjórnstöð samtímans, tölvuna.

Það er athyglisvert að enginn stólanna er í framleiðslu í dag en margir í notkun eins og komið hefur fram. Það leiðir hugann að því hvort ekki liggi hjá okkur ónýttur fjársjóður í þeirri hönnun sem samkvæmt dæmunum stenst tímans tönn hvort sem litið er til forms, notagildis eða styrkleika.

Í framhaldi af því spyr ég Hjalta Geir hvaða stól hann myndi velja að setja í framleiðslu aftur. Ekki stendur á svörum húsgagnahönnuðarins og framleiðandans sem hefur staðið við bakið á eigin stólum og annarra í meira en hálfa öld.

"Framleiðslulega séð þá er ST114 mjög góður, stærðin er fín og hann er þægilegur. Síðan er náttúrlega spurning hverju markaðurinn tekur við."

Ekki stendur heldur á svari þegar ég spyr hann hvaða framtíð íslensk hönnun eigi fyrir sér.

"Góð hönnun verður alltaf gulls ígildi."

Höfundur er iðnhönnuður.