Vel sóttur fundur Fjölmenni var á 46. ársfundi Seðlabanka Íslands í gær. Á fundinum sagði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, litla verðbólgu veigamesta verkefni bankans, bæði til lengri og skemmri tíma. Þar væri heldur að rofa til, en ennþá væri aðgátar þörf. Í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra kom fram að búist er við að markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu muni nást á þessu ári.
Vel sóttur fundur Fjölmenni var á 46. ársfundi Seðlabanka Íslands í gær. Á fundinum sagði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, litla verðbólgu veigamesta verkefni bankans, bæði til lengri og skemmri tíma. Þar væri heldur að rofa til, en ennþá væri aðgátar þörf. Í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra kom fram að búist er við að markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu muni nást á þessu ári. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Annar og léttari tónn var yfir ársfundi Seðlabanka Íslands í gær en á sama tíma í fyrra, þegar banka- og hagkerfið íslenska lá undir harðri gagnrýni erlendra greiningaraðila. Forsætisráðherra segir allt útlit fyrir að hagkerfið muni ná mjúkri lendingu og standa sveifluna af sér.
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is

Staða efnahagsmála á Íslandi er mun betri en hún var á sama tíma í fyrra, og hefur hagkerfið að mestu staðið af sér ágjöf síðasta árs. Var þetta meðal þess sem kom fram í máli forsætisráðherra og formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands á ársfundi bankans í gær.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu að staða efnahagsmála væri almennt talin góð og horfur hér á landi jákvæðar.

"Það hefur vissulega gengið á ýmsu undanfarin misseri enda miklar framkvæmdir við virkjanir og stóriðju auk þess sem mikill atgangur hefur verið á íbúðalánamarkaðnum. Þetta hefur óneitanlega reynt á þanþol hagstjórnarinnar í landinu en allt bendir nú til þess að þjóðarbúið komist senn á sléttari sjó og að framundan séu rólegri tímar."

Sagði Geir að spár gerðu ráð fyrir lækkandi verðbólgu og minnkandi viðskiptahalla á árinu, en í því fælist jafnframt að hagvöxtur yrði minni á þessu ári en verið hefur að undanförnu.

Staða ríkissjóðs sterk

"Við í ríkisstjórninni höfum lengi verið þeirrar skoðunar að hagkerfið myndi hæglega standa þessa sveiflu af sér og að hér myndi nást það sem á vondri íslensku er kallað "mjúk lending". Miklar breytingar á skipulagi efnahagsmála sem hér hafa orðið á síðustu 15 árum eða svo hafa styrkt hagkerfið til muna og gert það betur í stakk búið en áður til að mæta tímabundnum sveiflum."

Sagði Geir stöðu ríkissjóðs afar sterka og betri en víðast hvar annars staðar, bæði hvað varðar afkomu og eignastöðu, enda skuldirnar nú orðnar hverfandi.

Þá vék forsætisráðherra í máli sínu að skattalækkunum ríkisstjórnarinnar og þeirri gagnrýni sem kom í kjölfar þeirra.

"Sumir hafa haldið því fram að ríkisstjórnin hefði ekki átt að beita sér fyrir þeim skattalækkunum sem komið hafa til framkvæmda á undanförnum árum. Þessari skoðun hefur áður verið andmælt, meðal annars hér úr þessum ræðustóli af forverum mínum í embætti forsætisráðherra og með góðum rökum. Sterk staða ríkissjóðs og miklar tekjur, t.d. af fjármagni og fyrirtækjum, hafa skapað skilyrði til að lækka skatta einstaklinga án þess að valda þenslu. Eitt af því sem sagt var um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á sínum tíma var að þær væru "efnahagslegt glapræði". Ekki hafa það reynst orð að sönnu. Hitt er eftirtektarvert að þeir fjármunir sem ríkissjóður hefur afsalað sér til almennings í formi skattalækkana á þessu ári eru sennilega langt innan við helmingur þess sem atvinnulífið greiðir út í arðgreiðslur á árinu. Svo mjög hafa íslensk fyrirtæki sótt í sig veðrið," sagði forsætisráðherra.

Þá vék Geir að umræðu þeirri sem verið hefur um hugsanlega upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi.

"Sumir virðast halda að upptaka evru í stað íslensku krónunnar myndi leysa öll vandamál, jafnt hjá fyrirtækjum, heimilum sem opinberum aðilum. Hér er mikið af ranghugmyndum á ferð. Í fyrsta lagi er ljóst að það er fullkomlega óraunhæft að tala um upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu. Um þetta eru kunnáttumenn sammála og hafa bent á ýmis dæmi þess að ákvarðanir um einhliða upptöku erlends gjaldmiðils sem heimamyntar skorti þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er fyrir hagstjórnina," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Bankarnir stóðust prófið

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, vék í máli sínu að umtali og umræðu þeirri sem var um íslenska hag- og bankakerfið á sama tíma í fyrra og lofaði viðbrögð viðskiptabankanna við þeirri umræðu.

"Ekki er vafi á því að sú umræða og það sem henni fylgdi gerði bönkunum erfitt fyrir um hríð. Bankarnir brugðust hart við þeirri óþægilegu stöðu sem upp var komin. Mikið átak var gert til að útskýra uppbyggingu og skipulag íslensku bankanna. Þar var ekkert fum og fát, heldur miklu fremur festa og öryggi sem skilaði árangri. Bankarnir löguðu nokkra þætti í rekstri og rekstrarumhverfi sínu að málefnalegri gagnrýni sem birst hafði og eins kváðu þeir niður þætti sem ómálefnalegri voru með skýringum, greinargerðum og hreinskilnum upplýsingum, jafnt á stórum fundum sem smáum, og maður á mann, eftir því sem gafst best. Á sama tíma þurftu bankarnir um stund að leita á önnur lánamið en hefðbundin voru og er ekki vafi á að þessar aðstæður reyndu mjög á innviði og stjórnun þeirra. Ekki verður annað sagt en að þeir sem í hlut áttu hafi staðist hið erfiða próf. Fjármögnunarvandinn eins og hann blasti við okkur um þetta leyti fyrir ári er úr sögunni og kjör á eftirmarkaði komin í eðlilegra horf á ný og traust á markaði hefur verið endurvakið." Sagði Davíð þetta mikið þakkar- og fagnaðarefni, en að hitt stæði þó auðvitað eftir að mönnum séu nú ljósari en áður þær hættur sem víða geta leynst í framtíðinni. "Alþjóðleg skilyrði á markaði geta breyst snögglega. Lánsfjáraðgengi, sem á undanförnum misserum hefur verið með eindæmum hagfellt fyrir íslenska banka sem og aðra, kann að breytast skyndilega við óvæntar aðstæður. Mikilvægt er að vera við því búinn að slíkt geti gerst."

Draga þarf úr ójafnvægi

Þá sagði Davíð að þótt undanfarið ár hefði ekki verið eftirsóknarverðir tímar fyrir fjármálafyrirtæki sé ljóst að þau hafi örugglega lært sína lexíu og séu bæði varkárari sjálf og betur á varðbergi fyrir utanaðkomandi áhrifum en áður var.

Davíð sagði ástandið vera betra nú en fyrir ári en það skipti miklu máli, enn sem fyrr, hvernig Íslendingar héldu sjálfir á sínum eigin málum.

"Brýnast er að draga hratt úr ójafnvæginu í þjóðarbúskapnum og endurheimta stöðugleika. Til þess þarf að draga úr innlendri eftirspurn. Það gerist að hluta til sjálfkrafa með lokum þeirra stórframkvæmda sem staðið hafa yfir."

Þá sagði Davíð að þrátt fyrir að margt hefði breyst til batnaðar frá því á sama tíma í fyrra, hefðu ekki allar breytingar verið jákvæðar. "Viðskiptahalli liðins árs verður lengi í minnum hafður og honum tókst jafnvel að slá við svartsýnustu spám. Sem betur fer sjást nú örugg merki um að úr honum dragi hægt og bítandi, en líkur standa þó til að sá bati verði hægari en við höfðum áður vænst, sérstaklega vegna vaxtabyrði af völdum erlendra skulda."

Davíð sagði baráttuna við verðbólgu ennþá vera mikilvægasta verkefni Seðlabankans. Benti hann á að bankastjórn Seðlabankans ákvað á fimmtudag að stýrivextir skyldu vera óbreyttir, 14,25%, líkt og þeir hefðu verið frá því í desember. "Daginn fyrir síðasta ársfund bankans hækkaði bankastjórnin hins vegar vexti sína um 0,75 prósentur og eru þessar tvær ákvarðanir væntanlega nokkur vísbending um hvar Seðlabankinn telur sig standa í baráttunni við verðbólguna um þessar mundir. Sá slagur er forgangsverkefni og er ekki vafi á að góður árangur í þeirri rimmu er mikið hagsmunamál fyrir þjóðina í heild og ekki síst fyrir það unga fólk sem tekið hefur á sig miklar skuldbindingar í því skyni að tryggja sér húsnæði um skeið eða til framtíðar."

Um 32 milljóna hagnaður

Benti Davíð á að þrátt fyrir að skuldir íslenskra heimila við lánastofnanir hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum hefur greiðslubyrði þó ekki vaxið sem hlutfall af tekjum vegna annarra og betri lánskjara sem nú bjóðast, auk hækkandi tekna.

"Vanskil eru ennþá með allra lægsta móti. Hvort tveggja er þetta mjög jákvætt. En það breytir ekki því að Seðlabankinn hefur áhyggjur af því að ýmsir kunni að hafa reist sér hurðarás um öxl, eða a.m.k. teflt á mjög tæpt vað, því að ekki þurfa að verða miklar breytingar til að skuldsettir einstaklingar lendi í erfiðleikum, sem í sumum tilfellum gætu reynst óviðráðanlegir. Vaxandi verðbólga gæti því orðið rothögg fyrir mörg heimili."

Á fundinum fjallaði Helgi S. Guðmundsson, formaður bankaráðs Seðlabankans, um ársreikning bankans og ársskýrslu, en Helgi var jafnframt fundarstjóri.

"Samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af rekstri bankans á liðnu ári að fjárhæð 11,8 milljarðar króna. Hann skýrist nánast að öllu leyti af gengishagnaði. Að honum slepptum varð 48 milljóna króna hagnaður fyrir framlag til ríkissjóðs," sagði Helgi.

Samkvæmt lögum nemur framlag til ríkissjóðs þriðjungi hagnaðarins, þ.e. 16 milljónum króna. Hagnaður bankans eftir framlag til ríkissjóðs og án gengishagnaðar nam því 32 milljónum króna á árinu.