Geislamengunin í austurvegi að verða óviðráðanleg Kaupmannahöfn. Reuter. GEISLAMENGUN er að verða óviðráðanleg í Sovétríkjunum fyrrverandi og sums staðar er geislavirkum úrgangi kastað í ár, vötn og sjó.

Geislamengunin í austurvegi að verða óviðráðanleg Kaupmannahöfn. Reuter.

GEISLAMENGUN er að verða óviðráðanleg í Sovétríkjunum fyrrverandi og sums staðar er geislavirkum úrgangi kastað í ár, vötn og sjó. Kemur þetta fram í skýrslu tveggja alþjóðastofnana, Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Skýrsla stofnananna er meðal annars byggð á upplýsingum frá embættismönnum Samveldisríkjanna en eiginlegar eftirlitsstofnanir með kjarnorkuúrgangi eru aðeins í Rússlandi og Úkraínu.

Reinhart Helmke, yfirmaður Þróunarstofnunar SÞ, nefnir ýmis dæmi um ástandið í samveldisríkjunum:

Nýlega fannst fyrir tilviljun hágeislavirkt efni í bankahólfi í Litháen. Það var ekki varið á neinn hátt en hafði verið lagt fram sem trygging fyrir einkaláni.

Mælingar í Kaspíahafi sýna, að geislavirkni þar er hundrað sinnum meiri en eðlilegt er, líklega vegna þess, að geislavirkum úrgangi er kastað í ár í Síberíu.

Í verksmiðjum, sjúkrahúsum, landbúnaði og í vitum í Sovétríkjunum fyrrverandi er mikið um smáan, kjarnaknúinn vélbúnað. Líklega er þessi búnaður tíu sinnum algengari en á Vesturlöndum og aðeins í Úkraínu er vitað um 100.000 geislauppsprettur af þessu tagi.