Rússneskur hershöfðing segist óttast hryðjuverk Uppreisnarlið í felum undir Moskvu Moskvu. Reuter.

Rússneskur hershöfðing segist óttast hryðjuverk Uppreisnarlið í felum undir Moskvu Moskvu. Reuter.

MARGIR uppreisnarmannanna sem vörðust í Hvíta húsinu eða þinghúsinu í Moskvu flúðu þaðan eftir leynilegum göngum og eru taldir hafast enn við í gífurlega stórri neðanjarðarborg. Leiðtogar uppreisnarinnar voru formlega ákærðir í gær fyrir að skipuleggja fjöldauppþot og óeirðir. Borís Jeltsín, forseti Rússlands, tilkynnti í gær, að kosið yrði um nýja stjórnarskrá fyrir landið samtímis þingkosningunum 12. desember.

Arkadíj Baskajev hershöfðingi og háttsettur embættismaður í rússneska innanríkisráðuneytinu, sagði að neðanjarðarborgin væri svo stór og svo vel birg af öllu sem til þyrfti að þar gætu menn eytt allri ævinni. Sagði hann, að mikilla vopnabirgða væri saknað í Hvíta húsinu og væri enginn vafi á, að uppreisnarmenn hefðu tekið þau með sér.

Tekur langan tíma að leita

Orðrómur um neðanjarðarborgina, leynileg göng og brautarteina hefur verið á kreiki í Moskvu í áratugi en í tíð Sovétríkjanna var honum ávallt neitað opinberlega. Baskajev sagði, að langan tíma tæki að leita um alla neðanjarðarborgina en hermenn innanríkisráðuneytisins hafa leitað í 1,5 km radíus frá þinghúsinu. Nú hefur þeim verið skipað að færa leitina út í fimm km radíus.

Vadím Byelykh, blaðamaður við Ízvestía, segir, að hundruðum manna hafi tekist að flýja í neðanjarðarborgina og hann og Baskajev einnig telja, að hætta sé á, að þeir hefji hryðjuverkastarfsemi í Moskvu. Þeir geti farið eftir leynigöngunum óáreittir og komið upp á hinum ólíklegustu stöðum.

Uppreisnarleiðtogar ákærðir

Alexander Rútskoj, fyrrverandi varaforseti, og Rúslan Khasbúlatov, forseti þingsins, voru í gær ákærðir fyrir að skipuleggja fjöldauppþot og óeirðir en viðurlög við því eru allt að 15 ára fangelsi. Áður hafði Albert Makashov hershöfðingi verið ákærður fyrir sömu sakir. Verður þeim haldið í Lefortovo-fangelsinu þar til réttarhöld hefjast.

Jeltsín forseti sagði í gær, að samtímis þingkosningunum 12. desember yrðu kjósendur spurðir álits á nýrri stjórnarskrá fyrir Rússland. "Tími sovétveldisins er að líða undir lok," sagði hann. "Þökkum guði fyrir það."