Formaður Skotveiðifélags Reykjavíkur eftir fyrsta veiðidaginn Rjúpnaveiði gekk betur en fyrir ári Landeigendur hafa bannað rjúpnaveiði víða í landareign sinni RJÚPNAVEIÐITÍMABILIÐ hófst í gær, 15. október, og stendur til 22. nóvember.

Formaður Skotveiðifélags Reykjavíkur eftir fyrsta veiðidaginn Rjúpnaveiði gekk betur en fyrir ári Landeigendur hafa bannað rjúpnaveiði víða í landareign sinni

RJÚPNAVEIÐITÍMABILIÐ hófst í gær, 15. október, og stendur til 22. nóvember. Það er stytt um mánuð frá því sem tíðkast hefur seinustu ár að tilhlutan umhverfismálaráðuneytisins, og segir Jón S. Bragason formaður Skotveiðifélags Reykjavíkur að styttingin sé ekki byggð á vísindalegum rökum heldur tilfinningasemi, og frekar eigi að takmarka atvinnuveiðar en að stytta veiðitímann. Landeigendur hafa víða bannað skotveiðar á landi sínu, og m.a. eru 20 ferkílómetra svæði í Vestur- Ölfusi lokað.

Jón var nýkominn frá rjúpnaveiði þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Kveðst hann hafa rætt við um tug veiðimanna sem hafi alla sömu sögu að segja, þ.e. að veiðin sé betri en í fyrra og hafi aflinn verið á bilinu 10 til 30 rjúpur hjá þeim sem hann ræddi við.

Veiðisvæði víða lokuð

Víða er búið að auglýsa lokun veiðisvæða og þannig hafa eigendur um 11 jarða í Vestur-Ölfusi ákveðið að banna skotveiðar í stórum hluta votlendisins við Ölfusfora, eða alls um 20 ferkílómetra svæði. Guðmundur A. Birgisson, bóndi á Núpum segir að á þeim jörðum sem banni skotveiði hafi verið sett upp skilti með skýrum skilaboðum til veiðimanna, en Pokasjóður Landverndar styrkti gerð skiltanna og uppsetningu með hálfri milljón króna.

Rjúpnaverndarfélagið og Samband dýraverndunarfélaga Íslands hafa skorað á yfirvöld að friða rjúpuna nú þegar, og beina þeim tilmælum til almennings að endurskoða neyslu á rjúpum um jólahátíðina. Hins vegar hafa mörg félög skotveiðimanna sent frá sér mótmæli vegna þeirrar ákvörðunar umhverfisráðherra að stytta veiðitímabil á rjúpu.