Skýrsla vaxtanefndar um verðtryggingu Óæskileg áhrif á vaxtamyndun ÚTBREIDD verðtrygging skapar innlendum fjármagnsmarkaði óæskilega sérstöðu, að mati nefndar viðskiptaráðherra sem fjallaði um vaxtamyndun á lánsfjármarkaði.

Skýrsla vaxtanefndar um verðtryggingu Óæskileg áhrif á vaxtamyndun

ÚTBREIDD verðtrygging skapar innlendum fjármagnsmarkaði óæskilega sérstöðu, að mati nefndar viðskiptaráðherra sem fjallaði um vaxtamyndun á lánsfjármarkaði. Bendir hún á að notkun verðtryggingar í bönkum og sparisjóðum hafi leitt til tvöfalds vaxtakerfis. Segir nefndin meðal annars að sérkjarareikningar banka og sparisjóða valdi því að þeir viti ekki í hve miklum mæli þeir hafi tekið á sig verðtryggðar eða óverðtryggðar skuldbindingar fyrr en eftir á.

Telur nefndin í skýrslu sinni að verðtrygging í bankakerfinu hafi óæskileg áhrif á vaxtamyndun í bankakerfinu þar sem hún leiði til þess að lántakandi taki á sig alla verðbólguáhættu en lánveitandinn sé firrtur allri áhættu auk þess sem verðtrygging valdi því nánast sjálfkrafa að raunvextir hér á landi sveiflist með öðrum hætti en erlendis og verði aldrei neikvæðir. Verðtrygging kunni einnig að hafa ýtt ennfrekar undir lánsfjáreftirspurn heimila.

Lítill áhugi erlendra fjárfesta

Segja skýrsluhöfundar að tilraunir íslenskra verðbréfafyrirtækja til að selja erlendum fjárfestum innlend verðbréf og alþjóðlegt útboð Norræna fjárfestingarbankans á bæði verðtryggðum og óverðtryggðum skuldabréfum í íslenskum krónum árið 1991 hafi leitt í ljós að erlendir fjárfestar kunni lítt að meta verðtryggð skuldabréf hvort sem það stafi af ókunnugleika eða af þeirri óvissu sem stafi af því að hægt sé með einfaldri stjórnvaldsaðgerð að breyta grundvelli lánskjaravísitölu fyrir eldri fjárskuldbindingar.