Sophia Hansen lauk þriggja daga hungurverkfalli í gær Öll tyrkneska þjóðin fylgdist með henni "ÞRÁTT fyrir að tyrknesk stjórnvöld hafi ekki haft samband við mig held ég að ég geti ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægð með árangur hungurverkfallsins.

Sophia Hansen lauk þriggja daga hungurverkfalli í gær Öll tyrkneska þjóðin fylgdist með henni "ÞRÁTT fyrir að tyrknesk stjórnvöld hafi ekki haft samband við mig held ég að ég geti ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægð með árangur hungurverkfallsins. Hér hjá Mannréttindasamtökunum höfum við verið umvafnar kærleik og hingað hefur verið stöðugur straumur fólks með blóm og hughreistingarorð á vörum. Fjölmiðlar hafa líka tekið okkur mjög vel. Þeir hafa sýnt málinu mikinn áhuga og fjallað um það á vandaðan og nærgætinn hátt," sagði Sophia Hansen rétt rúmum klukkutíma áður en hún og Rósa Hansen, systir hennar, luku þriggja daga hungurverkfalli í höfuðstöðvum Mannréttindasamtakanna í Istanbúl í gær. Þröstur Ólafsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir að stjórnvöld hafi beitt öllum mögulegum leiðum til að vinna í forræðismáli Sophiu. Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögð tyrkneskra yfirvalda við tilmælum íslenskra yfirvalda.

Sophia fór að læknisráði aðeins í þriggja daga hungurverkfall og lauk því síðdegis í gær. Hún sagðist finna fyrir töluverðum skjálfta vegna þess að hún hefði ekki haft tíma til að drekka nægilega mikið af vatni en að öðru leyti sagðist hún ekki kvarta. Klukkustundar langur þáttur var um forræðismálið í H¨urriyet útvarpsstöðinni á fimmtudagskvöldið.

Þá hefur fjöldi fjölmiðla vitjað Sophiu og hefur verið sagt frá hungurverkfalli hennar í öllum helstu dagblöðunum í Tyrklandi. Þá hafa tvær sjónvarpsstöðvar A-TV og Cannel 6 sýnt þætti um málið. Í tengslum við það má geta þess að Atilla G¨uner, sem fjallað hefur um málið á Cannel 6 en var árið 1992 blaðamaður á dagblaðinu Milliyet, var í fyrra valinn blaðamaður ársins af blaðamannafélaginu í Istanbúl fyrir umfjöllun sína um tyrknesk forræðismál.

Sjónvarpsstöð heittrúaðra sýnir áhuga

Þá kom fram í samtali við Sophiu að sjónvarpsstöð heittrúaðra hefði heimsótt hana í gær. Hún sagði að sér hefði ekki litist á blikuna í upphafi en allt hefði síðan gengið að óskum og sjónvarpsmennirnir hefðu ekki farið fyrr en þeir hefðu séð myndband af Dagbjörtu þar sem hún lýsir því hvernig henni hefur verið misþyrmt og myndir frá mótmælum heittrúaðra við dómshúsið. Myndböndin hafa verið sýnd með reglulegu millibili í höfuðstöðvum Mannréttindasamtakanna á meðan á hungurverkfallinu hefur staðið.

Sophia sagðist vera ánægð með árangur hungurverkfallins þó hann kæmi ekki að fullu í ljós fyrr en eftir nokkra daga. Þá sagðist hún vona að aðgerðirnar hefði borist til eyrna dætra sinna. "Þannig að þær viti að ég sé búin að gera allt til að reyna frelsa þær úr þessari ánauð," sagði Sophia.

Aðgerðir stjórnvalda

Benedikt Sveinsson, kvensjúkdómalæknir, hefur gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki unnið af nægilegum krafti að máli Sophiu. Þröstur Ólafsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sagðist ekki telja að hægt hefði verið að gera annað en gert hefði verið í málinu. "Við höfum veitt peninga til málsins eins og við höfum getað og unnið eins og hægt hefur verið eftir þeim pólitísku og diplómatísku leiðum, sem við höfum, til að finna lausn á þessu máli. Höfum ekki sparað neitt af okkar möguleikum til þess," sagði Þröstur og minnti á að málið væri rekið sem einkamál í Tyrklandi og hlutverk stjórnvalda væri því aðeins að reyna að tryggja að niðurstöðum dómstóla væri fylgt. Þannig hefði verið lagt hart að tyrkneskum stjórnvöldum að tryggja umgengnisrétt Sophiu við dætur sínar.

"Ég hef tvisvar farið til Tyrklands vegna málsins og rætt við alla þá háttsettu menn sem hægt er að tala við upp í ráðherra. Þeir hafa alltaf verið mjög skilningsríkir og tekið vel á móti mér með loforðum um að þeir geri allt sem þeir geti til að grípa inn í þetta og það hefur farið á stað einhver athugun og skoðun og síðast var skipaður rannsóknardómari til að skoða alla málsmeðferðina en enn hefur ekki orðið annar sjáanlegur árangur," sagði Þröstur.

Liðlega 500.000 kr. höfðu safnast í Landssöfnun til styrktar baráttu Sophiu Hansen í gær. Tekið er við framlögum í síma 91-684455.

Systkini

GUÐMUNDUR Helgi Guðmundsson, Sophia Hansen og Rósa Hansen við réttarhöld í undirrétti í Istanbúl í fyrra.