Ungir jafnaðarmenn krefjast sameiginlegs borgarstjórnarframboðs Formaður FUJ andvígur ályktuninni STJÓRN Félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík samþykkti á fundi sínum sl. þriðjudag ályktun þar sem þess er krafist að fulltrúaráð Alþýðuflokksins í borginni...

Ungir jafnaðarmenn krefjast sameiginlegs borgarstjórnarframboðs Formaður FUJ andvígur ályktuninni

STJÓRN Félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík samþykkti á fundi sínum sl. þriðjudag ályktun þar sem þess er krafist að fulltrúaráð Alþýðuflokksins í borginni hefji formlegar viðræður við fulltrúa minnihluta borgarstjórnar um sameiginlegt framboð fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Formaður FUJ, Bolli Runólfur Valgarðsson, var andvígur ályktun stjórnarinnar og segir forsendurnar fyrir sameiginlegu framboði alls ekki fyrir hendi.

Bolli kveðst í grundvallaratriðum ekki vera andvígur sameiginlegu framboði og að málefnalegur ágreiningur flokkanna sé ekki mikill. Einnig hafi verið lögð fram gögn á fundi félagsins um að hjásetu kjósanda megi rekja til fjölda framboðsflokkanna sem sýni að ákjósanlegt væri að aðeins tvær hreyfingar væru í framboði. Hins vegar séu rökin gegn slíku framboði fleiri en þau sem mæli með því. "Það er yfirlýst stefna alls almenns Alþýðuflokksfólks að bjóða fram eigin lista, eins og kom fram á seinasta aðalfundi fulltrúaráðs flokksins. Þetta og fólk sat heima í seinustu borgarstjórnarkosningum vegna óánægju með þáverandi tilhögun," segir Bolli.

Andstaða hjá fleirum

Hann segir einnig andstöðu við sameiginlegt framboð innan Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins, og segir endurteknar umræður um sameiginlegt framboð eins og að berja höfðinu við stein. "Í formlegum og óformlegum viðræðum flokkanna hafa þeir gengið út frá sérlistaframboðum, en þar hefur komið fram einlægur áhugi á að móta grófa, sameiginlega málefnaskrá og við viljum koma fram sem raunhæfur valkostur með þeim hætti," segir Bolli og kveðst búast við að ályktun stjórnar FUJ verði borin upp á næsta fundi fulltrúaráðsfundi Alþýðuflokksins í Reykjavík.