Andstæðingarnir saka Mandela og de Klerk um leynimakk Hafa reynt að sætta kynþættina við málamiðlun NÓBELSNEFND norska Stórþingsins tók nokkra áhættu í gær er hún ákvað að láta þá F.W. de Klerk, forseta Suður-Afríku, og Nelson Mandela, leiðtoga öflugustu...

Andstæðingarnir saka Mandela og de Klerk um leynimakk Hafa reynt að sætta kynþættina við málamiðlun

NÓBELSNEFND norska Stórþingsins tók nokkra áhættu í gær er hún ákvað að láta þá F.W. de Klerk, forseta Suður-Afríku, og Nelson Mandela, leiðtoga öflugustu samtaka blökkumanna í landinu, deila með sér friðarverðlaununum. Þótt báðir þessir menn hafi hlotið hrós fyrir að þoka landi sínu með hægð og málamiðlunum í átt til lýðræðis er ekki víst að niðurstaðan af samningum þeirra um framtíðarskipulag verði þannig að lýðræðisréttindi allra verði tryggð eða hægt verði að draga úr kynþáttamisklíð og bræðravígum á næstunni.

Sumir heimildarmenn telja að Mandela og de Klerk hugsi fyrst og fremst um að tryggja samtökum sínum, annars vegar Þjóðarflokknum sem farið hefur með völd frá 1948, hins vegar Afríska þjóðarráðinu, ANC, töglin og hagldirnar með því að skipta helstu embættum á milli sín. Ætlunin sé að setja á laggirnar kosningakerfi sem tryggi að svo fari.

Inkatha-hreyfing "úlumanna undir forystu Mangosuthu Buthelezi krefst þess að landið verði sambandsríki, sama sinnis eru margir íhaldssamir hvítir menn, einkum úr röðum Búanna. Öfgamenn meðal Búa vilja stofna sérstakt ríki hvítra manna. Hvorki de Klerk né Mandela vilja ljá máls á hugmyndum um sambandsríki. Öfgasamtök vinstra megin við ANC telja að Mandela sé að svíkja málstaðinn með því að sætta sig við sterk ítök hvítra eftir að svertingjar fá kosningarétt á næsta ári. Meginkrafa de Klerks hefur ávallt verið sú að tryggt verði að svarti meirihlutinn geti ekki kúgað hvíta minnihlutann í krafti atkvæðafjöldans.

Ótvíræður leiðtogi

Þrátt fyrir ýmsar efasemdir lýðræðissinna, m.a. vegna tengsla ANC við kommúnistaríkin á árum kalda stríðsins og áhrifa kommúnistaflokks Suður-Afríku á stefnu samtakanna, hefur Nelson Mandela ótvírætt verið lifandi tákn frelsisbaráttu suður-afrískra blökkumanna um meira en þriggja áratuga skeið. Hann sat í fangelsi Suður-Afríkustjórnar í 27 ár en missti aldrei móðinn, hafnaði einnig boðum um að fá að fara í útlegð. Er de Klerk ákvað að afnema lagabálka apartheid, aðskilnaðarstefnunnar alræmdu, í ársbyrjun 1990 og leysti Mandela úr haldi nokkrum dögum síðar var öllum ljóst að vatnaskil voru orðin í sögu landsins. Meira en 350 ára sögu yfirráða hvíta minnihlutans var að ljúka.

Mandela er 75 ára gamall, sonur höfðingja af ættbálki xhosa, næst-stærstu þjóðar svartra og þótti efnilegur hnefaleikari á unglingsárum. Hann lauk námi við háskóla fyrir svarta og síðar laganámi í Jóhannesarborg. Þá vann hann fyrir sér, var öryggisvörður í gullnámu og síðar fasteignasali. Ári eftir að hann losnaði úr haldi var eiginkona hans, Winnie, ákærð fyrir að hafa látið lífverði sína misþyrma ungum svertingjadreng og ári síðar fyrir að hafa átt hlut að dauða fórnarlambsins. Fyrst í stað varði Mandela konu sína en í fyrra skildu þau hjón að borði og sæng og hefur Mandela síðan tekið afstöðu gegn herskárri stefnu fyrrverandi eiginkonu sinnar gagnvart hvítum.

Sinnaskipti íhaldsmanns

Frederick Willem de Klerk er 57 ára gamall lögfræðingur frá héraðinu Transvaal, höfuðvígi Búanna sem tala afrikaans, tungu sem er náskyld hollensku. Hann er kvæntur og á tvö börn, varð þingmaður 1972 og ráðherra sex árum síðar. Er hann var menntamálaráðherra barðist hann fyrir því að kynþættir yrðu aðskildir í skólum og var enn talinn íhaldssamur er hann varð forseti 1989 eftir að hafa velt fyrirrennara sínum, P. W. Botha, úr leiðtogasessi Þjóðarflokksins. Umskiptin voru því óvænt og skjót.

De Klerk hefur setið undir ámæli margra hvítra fyrir að láta undan öllum kröfum svertingja sem séu ófærir um að taka við völdum en á hinn bóginn saka blökkumannaleiðtogar hann um að tefja fyrir lýðræðisumbótum.

Heimildir: The Daily Telegraph, The Economist, The Spectator o.fl.

Reuter

Vígreifir "úlúmenn

LIÐSMENN Inkatha-hreyfingar "úlúmanna í S-Afríku veifa hefðbundnum vopnum sínum. Alls hafa um 11.000 manns fallið í innbyrðis átökum blökkumanna síðustu þrjú árin að sögn mannréttindahreyfinga, þar af um 3.000 það sem af er þessu ári. Hvítir verða einnig í vaxandi mæli fyrir barðinu á ofbeldismönnum og segjast margir þeirra ætla að flytja úr landi áður en svertingjar fái völdin.