Finnskir hægrimenn takast á Helsinki. Frá Jan-Erik Andelin, fréttaritara Morgunblaðsins. HÖRÐ átök eiga sér nú stað í finnska Hægriflokknum og hefur Raimo Ilaskivi, frambjóðandi flokksins við forsetakosningarnar í janúar nk., ítrekað gagnrýnt...

Finnskir hægrimenn takast á Helsinki. Frá Jan-Erik Andelin, fréttaritara Morgunblaðsins.

HÖRÐ átök eiga sér nú stað í finnska Hægriflokknum og hefur Raimo Ilaskivi, frambjóðandi flokksins við forsetakosningarnar í janúar nk., ítrekað gagnrýnt flokksforystuna opinberlega og krafist þess að flokkurinn yfirgefi ríkisstjórnina. Í vikunni hafa þingmenn flokksins einnig krafist þess að skipta yrði um menn í ráðherrastólum flokksins.

Ilaskivi hefur byggt kosningabaráttu sína einkum á því að gagnrýna efnahagsstefnu ríkisstjórnar mið- og hægriflokkanna. Hefur hann haldið því fram að stjórnin hefði fyrst og fremst átt að styðja við þá atvinnustarfsemi sem beið hnekki eftir hrun sovétviðskiptanna. Hann hefur beint spjótum sínum að fjármálaráðherranum og flokksbróður sínum, Iiro Viinanen sem, sem þykir fremur óvinsæll.

Fylgi við Hægriflokkinn hefur minnkað um fjórðung á fjórum árum samkvæmt mælingum Gallup á fylgi stjórnmálaflokka, úr 24% í 17%. Flokkurinn á aðild að ríkisstjórninni sem virðist þess ekki megnug að ráða bót á efnahagskreppunni. Á sama tíma og Hægriflokkurinn tapar fylgi eykst fylgi stjórnarandstöðuflokks jafnaðarmanna og hefur það aldrei verið meira eða 32% samkvæmt nýjustu könnun Gallup.

Þingmenn Hægriflokksins hafa margir krafist mannabreytinga í ráðherraliði flokksins. Í því sambandi hefur sérstaklega verið lagt til að þingforsetinn Ilkka Suominen, fyrrum viðskipta- og iðnaðarráðherra, taki við ráðherradómi en hann hefur sjálfur lagst gegn því.

Meðal ráðherra Hægriflokksins sem sæta gagnrýni eigin flokksmanna eru Ilkka Kaerva atvinnumálaráðherra og Sirpa Pietikäinen umhverfisráðherra. Hún er aðeins 34 ára og hefur sætt gagnrýni fyrir að greiða atkvæði gegn byggingu nýs kjarnorkuvers í Finnlandi.

Formaður Hægriflokksins, Pertti Salolainen utanríkisviðskiptaráðherra, hefur einnig sætt gagnrýni fyrir meint pólitískt litleysi og þvergirðingshátt. Á fimmtudag fjallaði vinsælasta vikurit landsins háðulega um hann og útnefndi hann nafnbótinni "John Major Finnlands."