Stefna Clintons forseta varð ofan á Þingið samþykkir fjárveitingar til herliðs í Sómalíu Washington, Mogadishu. Reuter.

Stefna Clintons forseta varð ofan á Þingið samþykkir fjárveitingar til herliðs í Sómalíu Washington, Mogadishu. Reuter.

ÖLDUNGADEILD Bandaríkjaþings staðfesti í gærmorgun þá áætlun Bills Clintons forseta að kalla bandarískt friðargæslulið heim frá Sómalíu 31. mars næstkomandi. Deildu þingmenn hart í tvo daga um málið og vildu fjölmargir þeirra að herliðið yrði kallað þegar í stað heim.

Öldungadeildin samþykkti fjárveitingar til hersveitanna í Sómalíu með 76 atkvæðum gegn 23. Atkvæði féllu ekki eftir flokkslínum. Felld var tillaga frá þingmönnum repúblikanaflokksins um að veita einvörðungu fé til að kalla sveitirnar heim þegar í stað með 61 atkvæði gegn 38.

Deildin setti það skilyrði fyrir fjárveitingunni að umsvif hersins í Sómalíu miðuðust einvörðungu við að verja starfsmenn og stöðvar hersins þar og aðstoða við að hjálpargögn kæmust til skila. Ennfremur að allt bandarískt herlið í Sómalíu lyti yfirstjórn bandarískra foringja sem hlýddu skipunum Bandaríkjaforseta. Með þessu er yfirstjórn bandarískra sveita sem tilheyrt hafa herliði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í Sómalíu færð undan yfirstjórn sveita SÞ.

Bandarískur þyrluflugmaður, Michael Durant, sem sveitir Mohameds Farah Aideeds stríðsherra tóku til fanga eftir skotbardaga í Mogadishu um fyrri helgi en slepptu í fyrradag, var lagður inn á bandarískan herspítala í Þýskalandi í gær.

Clinton