Yfirburðastaða norskra fiskeldismanna talin í hættu Óttast að EB setji innflutningshömlur á lax Ósló. Frá Jan Gunnar Furuly, fréttaritara Morgunblaðsins.

Yfirburðastaða norskra fiskeldismanna talin í hættu Óttast að EB setji innflutningshömlur á lax Ósló. Frá Jan Gunnar Furuly, fréttaritara Morgunblaðsins.

NORSKIR fiskeldismenn óttast að kröfur Breta og Íra um innflutningshömlur leiði til þess að Norðmenn verði að draga úr sölu á markaði Evrópubandalagsins, EB. Fiskeldismenn í þessum tveim EB-ríkjum saka norska starfsbræður sína um að hafa eyðilagt EB-markaði með gríðarlegu offramboði á laxi að undanförnu. Niðurstaðan sé að verð hafi hríðfallið.

Samkvæmt útreikningum Sambands norskra fiskframleiðenda gera norskir fiskeldismenn ráð fyrir að slátra um 170.000 tonnum af laxi á árinu sem er nýtt met. Milli 80 og 90% af framleiðslunni eru ætlað kaupendum á Evrópumörkuðum. Norsk sendinefnd átti nýlega fund með sérfræðingum framkvæmdastjórnar EB í Brussel á þessu sviði og reyndu Norðmennirnir eftir bestu getu að sannfæra þá um að betra væri að fara samningaleiðina en koma á innflutningshömlum.

"Ástandið á mörkuðunum er ískyggilegt," sagði Paul Birger Torgnes, framkvæmdastjóri Samtaka norskra fiskeldisfyrirtækja, í samtali við NTB-fréttastofuna eftir fundinn. "En við lögðum á það áherslu gagnvart fulltrúum EB að Norðmenn vildu nú einhliða minnka framleiðslu sína um um 10%. Hvorki Skotar, Írar né Færeyingar hafa lagt fram samsvarandi tilboð".

Yfirburðastaða

Norðmenn hafa sem stendur yfirburðastöðu í fiskeldi álfunnar, eru taldir framleiða um tvo þriðju hluta af öllum eldislaxi. Andvirði útflutningsins var í fyrra um 50 milljarðar ísl. króna; á þessu ári er gert ráð fyrir að það verði um 70 milljarðar.

Norskir fiskeldismenn hafa margsinnis orðið fyrir gagnrýni vegna meintrar offramleiðslu og undirboða, stundum hefur verið beitt innflutningshömlum gegn þeim. Á árunum 1991-1992 setti EB lágmarksverð á norskan fisk og Bandaríkjamenn hafa notað refsitolla. "Ef beitt verður innflutningstakmörkunum mun það verða miklu afdrifaríkara fyrir norska eldismenn og útflytjendur en lágmarksverð," segir Paul Birger Torgnes.