Verðbréfaþingið sjálft greiðir skatta af þóknun EIRÍKUR Guðnason, formaður stjórnar Verðbréfaþings Íslands, segir að Seðlabankinn greiði ekki skatt af greiðslum til stjórnarmanna í Verðbréfaþinginu.

Verðbréfaþingið sjálft greiðir skatta af þóknun

EIRÍKUR Guðnason, formaður stjórnar Verðbréfaþings Íslands, segir að Seðlabankinn greiði ekki skatt af greiðslum til stjórnarmanna í Verðbréfaþinginu. Hið rétta sé að stjórnarmenn fái ákveðna þóknun sem er föst upphæð eftir skatta. Verðbréfaþingið sjálft taki staðgreiðsluskattinn af þóknuninni en samkvæmt samningi við Seðlabankann um aðstöðu í bankanum greiðir hann út reikninga fyrir þingið. Hann segir fremur líklegt að stjórnarþóknun muni breytast með breyttu staðgreiðsluhlutfalli.

Í DV sagði í vikunni að Seðlabankinn greiði skatta af stjórnarlaunum hjá Verðbréfaþingi og kjör stjórnarmanna skerðist ekki þrátt fyrir skattahækkanir. Því lendi hækkun á staðgreiðsluskatti og hátekjuskattur í raun ekki á stjórnarmönnunum. Eiríkur Guðnason sagði að stjórnarlaunin væru að fullu gefin upp til skatts, "þ.e. þær 34 þúsund kr. og 17 þúsund kr. sem formaður stjórnar og stjórnarmenn fá í laun," sagði Eiríkur. Um er að ræða mánaðargreiðslur.

Hann sagði að ákveðið hefði verið að miða við að laun formanns stjórnar og stjórnarmanna yrðu 20 þúsund kr. og 10 þúsund kr. eftir skatt. "Mér skilst að slíkt sé til í dæminu hjá öðrum stjórnum en ég er nú ekki mjög kunnugur stjórnarlaunum yfirleitt. Ég geri þó ráð fyrir að í flestum tilfellum sé stjórnarþóknun ákveðin fyrir skatt og stjórnarmenn sjái sjálfir um að greiða skatt af henni. Þarna var ákveðið að miða við að þegar laun eru greidd til stjórnarmanna sé búið að taka staðgreiðsluskattinn af," sagði Eiríkur.

Eiríkur sagði að aðeins staðgreiðsluskatturinn væri tekinn af laununum og ætla mætti að stjórnarmenn verði sjálfir að gera skil á hátekjuskatti. "Ég get fullyrt að það var aldrei ætlunin með þessari útfærslu að tryggja mönnum það að þeir slyppu við hvers konar hækkanir á sköttum. Ef staðgreiðsluskatthlutfallið breytist er ekkert útilokað og meira að segja fremur líklegt að aðalfundur Verðbréfaþings ákveði öðruvísi stjórnarþóknun. Það er ekki gulltryggt að þóknunin verði svona til eilífðar," sagði Eiríkur.