Áfengisútsala opnuð í Borgarnesi Borgarnesi. NÝVERIÐ opnaði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins áfengisútsölu í Borgarnesi. Verslunin er til húsa á neðstu hæð verslunarhúss Kaupfélags Borgfirðinga við Egilsgötu.

Áfengisútsala opnuð í Borgarnesi Borgarnesi.

NÝVERIÐ opnaði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins áfengisútsölu í Borgarnesi. Verslunin er til húsa á neðstu hæð verslunarhúss Kaupfélags Borgfirðinga við Egilsgötu.

Verslunin er rekin af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins en Kaupfélagið leigir henni rúmlega 100 fermetra húsnæði og alla innréttingu og búnað annan en tölvubúnað. Gerður var 10 ára leigusamningur um húsnæðið. Verslunarstjóri er Birgir Þórðarson sem áður rak Bónusverslunardeild KBB.

Að sögn Þóris Páls Guðjónssonar kaupfélagsstjóra er þarna loks kominn einn þjónustuþáttur verslunar sem vantað hefur lengi í Borgarnesi. Kvaðst Þórir Páll vona að með tilkomu þessarar verslunar takist það markmið kaupfélagsins að auka ferðir fólks niður í bæinn og glæða þannig aðra verslun sem þar er staðsett.

Mjólk er líka góð

Við opnun verslunarinnar barst mikið af blómum og heillaóskum frá Borgnesingum og Borgfirðingum. Mesta athygli vakti þó gjöf frá Þorsteini Eyþórssyni sem var haganlega innpökkuð mjólkurferna með korti sem á stóð "mjólk er líka góð".

Á veggjum verslunarinnar er uppi málverkasýning Einars Ingimundarsonar frá Borgarnesi og sagði Birgir Þórðarson "ríkisstjóri" að fyrirhugað væri að vera með fleiri slíkar sýningar í versluninni framvegis.

TKÞ.

Morgunblaðið/Theodór

Í ríki sínu

Birgir Þórðarson verslunarstjóri ÁTVR í Borgarnesi við íslensku framleiðsluna í versluninni.