LEIÐARI Staðfest en staðlaust iðbrögð ríkja Evrópubandalagsins við þeim úrskurði þýska stjórnlagadómstólsins, að Maastricht-samkomulagið bryti ekki í bága við þýsku stjórnarskrána, voru mjög hófstillt þó að þar með væri nær tveggja ára staðfestingarferli...

LEIÐARI Staðfest en staðlaust iðbrögð ríkja Evrópubandalagsins við þeim úrskurði þýska stjórnlagadómstólsins, að Maastricht-samkomulagið bryti ekki í bága við þýsku stjórnarskrána, voru mjög hófstillt þó að þar með væri nær tveggja ára staðfestingarferli loks lokið. Flestar ríkisstjórnir Evrópu önduðu léttar, gáfu út hefðbundnar yfirlýsingar um hversu mikilvægt skref hefði verið stigið en fagnaðarlætin sem búast hefði mátt við létu á sér standa.

Samt átti Maastricht að vera upphafið að pólitískum og peningalegum samruna aðildarríkjanna og því að Evrópubandalagið breyttist í "Evrópusambandið", eins konar millistig milli núverandi ríkjasamvinnu og sambandsríkis aðildarríkjanna tólf. Það samband verður hins vegar líklega aldrei að veruleika. Þrátt fyrir að samkomulagið hafi nú loks verið staðfest hefur markmiðið um pólitískan samruna líklega aldrei virst fjarlægara frá stofnun EB en einmitt nú.

Niðurstaða stjórnlagadómstólsins í Karlsruhe kom í sjálfu sér ekki mjög á óvart. Flestir höfðu búist við, að hann myndi fallast á að Þjóðverjar staðfestu Maastricht-samkomulagið. Það sem stjórnmálamenn óttuðust helst var að dómstóllinn myndi setja það ströng skilyrði fyrir þátttöku Þjóðverja í Maastricht að samkomulagið yrði í raun marklaust.

Skilyrði stjórnlagadómstólsins eru ekki það afdráttarlaus en gætu samt sem áður orðið til þess að markmið Maastricht-samkomulagsins verði orðin tóm. Þannig ákvað dómstóllinn að Þjóðverjar muni ekki sjálfkrafa taka þátt í lokastigi hins peningalega samruna, þegar gjaldmiðlar einstakra ríkja verða teknir úr umferð og einn sameiginlegur gjaldmiðill tekinn upp í staðinn, heldur verður Sambandsþingið að taka um það ákvörðun þegar þar að kemur. Þá áskildi stjórnlagadómstóllinn sér þann rétt að taka upp málið að nýju á síðari stigum ef hinn evrópski samruni virtist ætla að taka á sig aðra mynd heldur en Maastricht kvæði á um. Strangt tiltekið gæti þetta þýtt að Þjóðverjar áskilji sér rétt til að draga sig út úr hverju því samstarfi, innan ramma Maastricht, sem þeir telja sig ekki geta tekið þátt í í framtíðinni!

Einn og sér hefði þessi úrskurður stjórnlagadómstólsins kannski ekki breytt miklu. Þegar hann er hins vegar settur í samhengi við þann pólitíska mótbyr sem Maastricht hefur mætt í Evrópu á undanförnum tveimur árum gæti hann ráðið úrslitum. Í stað þess að sameina þjóðir Evrópu í eina "evrópska" heild hefur samkomulagið frekar orðið til þess að ýta undir andstöðu við miðstýringu frá Brussel og þá þjóðernishyggju sem það átti að útrýma. Sú rígbinding gengisskráningar evrópskra gjaldmiðla innan EMS, sem tekin var upp til að ná fram markmiðinu um peningalegan samruna, varð til þess að splundra evrópska gengissamstarfinu í stað þess að styrkja það.

Enginn átti von á þessari megnu andstöðu almennings, sem hófst með því að Danir höfnuðu samkomulaginu í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní í fyrra. Eftir hótanir um útilokun og samkomulag um undanþágur frá Maastricht samþykktu Danir þó samkomulagið í annarri atkvæðagreiðslu í sumar. Í Frakkland reyndist einnig vera mikil andstaða við samkomulagið og var það samþykkt með mjög tæpum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrrahaust. Breska þingið var í uppnámi í marga mánuði vegna andstöðu við Maastricht og skoðanakannanir benda til að stór hluti þýsku þjóðarinnar sé því einnig andsnúinn. Maastricht-samkomulagið nýtur einungis víðtæks stuðnings í þeim ríkjum, sem búast mega við verulegum fjárframlögum úr sjóðum bandalagsins á næstu árum auk Beneluxríkjanna!

Á næsta leiðtogafundi Evrópubandalagsins, sem haldinn verður í Brussel í lok mánaðarins, má búast við að gefnar verði út yfirlýsingar eins og ekkert hafi í skorist. Þá er talið víst að fulltrúar ríkjanna sex, sem stofnuðu Evrópubandalagið árið 1957, Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Belgíu, Hollands og Lúxemborgar, auk fulltrúa Spánar, vilji álykta um að áfram sé stefnt að peningalegum samruna árið 1999.

Með því væru leiðtogar Evrópubandalagsins að flýja veruleikann enn einu sinni og taka skref í átt frá nánari samvinnu aðildarríkjanna í stað þess að nálgast hana. Maastricht var aldrei annað en draumsýn byggð á veruleika sem ekki er til staðar lengur. Ef hugmyndin um "sameinaða Evrópu" í þeim skilningi að öllu eigi að steypa saman hefur einhvern tímann átt við þá á hún það ekki nú. Styrkur Evrópu er fólgin í fjölbreytni hennar en ekki einhæfni. Ríki Evrópu eiga margt sameiginlegt en alls ekki allt. Þó náin samvinna sé nauðsynleg á mörgum sviðum má hún aldrei verða til þess að draga um of úr áhrifum grunneininganna, ríkjanna sjálfra. Evrópuþing getur aldrei leyst þjóðþingin af hólmi rétt eins og framkvæmdastjórn í Brussel getur aldrei komið í stað ríkisstjórna einstakra ríkja.

Þessu virðast flestir hafa gert sér grein fyrir. Þótt áfram verði rætt um efnahagslegan og pólitískan samruna trúa fæstir því að þau markmið eigi eftir að verða að veruleika. Maastricht-samkomulagið er ekki dautt í þeim skilningi að það heyri nú sögunni til. Það mun eflaust áfram verða ofarlega í umræðunni næstu misserin. Hins vegar eru markmið þess að mestu leyti staðlausir stafir. Lærdómurinn af atburðum undanfarinna tveggja ára er að hinn pólitíski vilji er ekki til staðar. Og án pólitísks vilja skipta sáttmálar litlu.