Leikfélag Reykjavíkur frumsýnir Engla í Ameríku í Borgarleikhúsinu Ást og stjórnmál RÉTTLÆTI er einfalt. Lýðræði er einfalt. Ást er miklu erfiðari viðfangs. Hún er vægðarlaus og það fer illa fyrir þeim sem brýtur vægðarlaus lög hennar.

Leikfélag Reykjavíkur frumsýnir Engla í Ameríku í Borgarleikhúsinu Ást og stjórnmál

RÉTTLÆTI er einfalt. Lýðræði er einfalt. Ást er miklu erfiðari viðfangs. Hún er vægðarlaus og það fer illa fyrir þeim sem brýtur vægðarlaus lög hennar. Einn af þeim sem við sögu koma í leikritinu Englar í Ameríku bregst svona við þegar kunningi hans biður fyrir ástarkveðju til fyrrverandi sambýlismanns síns. Sá liggur fyrir dauðanum og horfði þegar hann varð veikur á bak þessum vini, sem vill helst útkljá mál með vitsmunalegri orðræðu um pólitík. Englar í Ameríku fjallar um ást og stjórnmál. Um að bregðast sjálfum sér og öðrum. Um ábyrgð og um völd. "Og um að menn stjórnist frekar af tilfinningum en hagfræði," bætir leikstjóri verksins við. Hlín Agnarsdóttir setur þetta bandaríska ádeiluverk á svið í Borgarleikhúsinu og frumsýnt verður næstkomandi föstudag. Það hefur vakið gríðarlega athygli þau tvö ár sem liðin eru frá fyrstu sýningu vestanhafs. Kannski má allt eins kalla það áhættuverk, tekið er á spurningum sem einhverjum kann að þykja erfiðar, óþægilegar og óviðurkvæmilegar. En ekki óverðugar.

insegin tilbrigði við þjóðmálastef (A Gay Fantasia on National Theme) er undirtitill Englanna. Eða öllu heldur fyrri hluta þeirra því höfundurinn Tony Kushner hefur samið framhald. Fyrra leikritið, sem sýnt verður í Borgarleikhúsinu, gerist þegar nýtt árþúsund nálgast en hið síðara á tímum "perestroiku". Hvers konar þíða það verður er aðeins hægt að spá í þegar horft er á þann aldamótaboðskap sem fer á undan. Það er enginn lofsöngur og ekki gott að segja eins og nútíma Pollýanna hvort "eina leiðin liggi upp" þegar svo langt er sokkið niður.

Þegar Kushner sótti um ritlaun til hins opinbera vegna skrifa Englanna, sagðist hann ætla að semja leikrit um homma, mormóna og Roy Cohn ­ alræmdasta kommaveiðara MacCarthy-tímans. Honum kom á óvart að fá fjárstyrk til þess arna í stjórnartíð Ronalds Reagan, aðallega vegna efnis verksins en einnig þar sem Reagan er harkalega gagnrýndur í fyrsta leikriti hans.

Kushner er sjálfur hommi, hálffertugur að aldri. Hann er gyðingur og segist einmitt þess vegna gagnrýninn á gyðinga í leikritinu. "Hommafóbía þeirra reitir mig til reiði ... eftir allt sem við höfum gengið í gegnum síðustu sex hundruð árin ... þjáningar ættu að kenna umburðarlyndi."

Hann kveðst hafa komið sér upp furðulegu samsafni hugmynda fyrir Englana og ekkert vitað hvernig koma mætti heillegri mynd á þær. Aðeins treyst því að tengsl yrðu. Eftir fyrsta og annan þátt hefði hann verið kominn í tímahrak og ekkert gengið. "Þannig að ég settist niður og bað Louis, sem er sú persóna verksins sem ég skil hvað best, að segja mér um hvað það fjallaði svo ég gæti lokið því. Þetta hljómar kjánalega, en ég byrjaði að skrifa og atriðið [um lýðræði] varð til á 25 mínútum ... Vera kann að persóna í verkinu vilji bara ekki gera eitthvað og ef ég neyði hana til þess verður atriðið ómögulegt."

Kushner hafði tiltekna leikara í San Francisco í huga við skrif Englanna. Þar var leikritið fyrst frumsýnt og síðan farið með það til Los Angeles og New York. Það kom honum á óvart að þjóðleikhúsið breska vildi setja verkið á svið, hann hélt að það höfðaði aðeins til Ameríkana. En svo virðist ekki vera, fjölmörg leikhús í Evrópu keppast nú við æfingar Englanna og hér á Íslandi segist leikstjórinn telja að þeir geti gerst hvar sem er. "Leikritið sprettur úr veruleika sem við þekkjum mætavel og það er þannig vestrænt ádeiluverk allt eins og bandarískt, utan tilvitnana í bandaríska stjórnmálasögu.

Höfundurinn stillir upp persónulegu lífi og pólitísku, heilindum og svikum, samhygð og eiginhagsmunum. Hann spyr hvernig nokkuð gott geti sprottið þar sem enginn andlegur arfur sé hafður í heiðri. Þó að ástir karlmanna séu í brennidepli upphefjast kynhlutverkin þegar á líður og við sjáum að það skiptir ekki máli hver elskar. Tilfinningin eru eins. Þetta hefur hins vegar verið tabú hjá mörgum og alnæmi hefur ekki orðið til að draga úr fordómum gagnvart hommum."

Kushner skrifaði Engla í Ameríku fyrir átta leikara og segir afar mikilvægt að hver þeirra fari með fleiri en eitt hlutverk. Þannig verði til eins konar samfélag og hlutirnir gangi upp. Í seinni hlutanum verði líka allir englar.

Áhorfendur fylgjast með þrem sögum: Um Harper og Joe, sem lifa í hjónabandi án hjónalífs, plöguð af grun hennar um að hvatir hans leiði hann annað. Hún lifir á valíum og lætur sig dreyma um Suðurskautslandið þar sem alltof kalt er fyrir tilfinningar, hann þykist vilja halda áfram þessu "eðlilega" sambandi. Einnig um hommana Louis og Prior, sem veikist af alnæmi og sér á eftir sambýlismanni sem ekki þolir álagið ­ þótt hann elski hann. Og um Roy Cohn, sem hatar alla menn og mest sjálfan sig. Hann er valdamikill og reynir að nota Joe til að bjarga eigin skinni. Segir honum að ást sé gildra, rétt eins og ábyrgð. Hann fær alnæmi í leikritinu, eins og hinn raunverulegi Cohn sem lést fyrir sjö árum, en viðurkennir það aldrei. "Hvað getur dauðinn fært mér sem ég hef ekki horfst í augu við?" spyr hann. "Ég hef lifað, lífið er það versta."

Í uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur fara með þessi og fleiri hlutverk Árni Pétur Guðjónsson, Ellert Ingimundarson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Jakob Þór Einarsson, Jón Hjartarson, Magnús Jónsson, Margrét Ólafsdóttir og Steinunn Ólafsdóttir.

Í viðtali vegna sýningar Englanna í London segir Tony Kushner að enginn hafi lengur lausnir á pólitískum vandamálum. "Við erum í algerri þoku ... Kerfi í kringum okkur hafa hrunið ... Sósíalisminn gaf veröldinni "díalektíska dýpt" ... með vissum hætti tvær hliðar sem nú eru ekki lengur til. Aðeins hræðileg flatneskja, eða þannig er tilfinningin í Ameríku. Leikritið hlýtur að spegla þessa tilfinningu, að fólk leitar í fáti einhverra svara og skilur eftir sig óreiðu."

Þ.Þ.