Í leit að bók sem ekki er til Toni Morrison hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1993 EINS og hlýtur alltaf að vera með verðlaun fyrir listsköpun eru Nóbelsverðlaunin í bókmenntum ætíð umdeild.

Í leit að bók sem ekki er til Toni Morrison hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1993

EINS og hlýtur alltaf að vera með verðlaun fyrir listsköpun eru Nóbelsverðlaunin í bókmenntum ætíð umdeild. Þegar tilkynnt var í Stokkhólmi í síðustu viku að bandaríska blökkukonan Toni Morrison hefði hlotið verðlaunin var þó óvenju fátt um ólund gagnrýnenda og bómenntavitringa um heim allan, enda Morrison einkar vel að verðlaununum komin.

yrir nokkrum árum spaugaði ritari verðlaunanefndarinnar, Lars Gyllensten, með það að hinn fullkomni Nóbelsverðlaunahafi væri glæsileg, svartur kvenrithöfundur, sem nyti almennrar virðingar og vinsælda. Þó þau orð hafi verið sögð í gamni sönnuðust þau þegar tilkynnt var að Toni Morrison hlyti verðlaunin að þessu sinni, enda hefur hún allt áðurnefnt til að bera og ekki spillir fyrir að bækur hennar hafa þann höfuðkost allra bókmennta að spegla heiminn og gefa lesandanum þannig innsýn í sjálfan sig. Meðal þess sem gagnrýnendur hafa tínt til er að hún hefur skapað nánast eigin mál og frásagnarmáta, enda segist hún helst vilja skapa nýjan svartan rithátt; sem taki mynd af þjáningum svartra íbúa Ameríkuálfu og sársauka, en Morrison hefur verið óþreytandi í baráttu gegn hvers kyns kynþáttafordómum og þess sér hvarvetna stað í bókum hennar.

Verkamannsdóttir

Toni Morrison fæddist í Lorrain í Ohio 1931 og var skírð Cloe Antony Wofford. Faðir hennar var verkamaður og fullur tortryggni í garð allra hvítra manna sem hann umgekkst; nokkuð sem átti eftir að hafa sterk áhrif á Morrison. Móðir hennar hafði aftur á móti óbilandi trú á að breyta mætti heiminum þrátt fyrir þrengingar kreppunnar, sem bitnuðu sérstaklega á litum íbúum Bandaríkjanna, og ekki síður á trú á að framtíðin myndi bera með sér batnandi hag allra, ekki bara hvítra. Þrátt fyrir knöpp kjör fjölskyldunnar komst Morrison í langskólanám og fékk síðan vinnu hjá útgáfunni Random House og lagði í því stafi mikla áherslu á að koma á framfæri svörtum rithöfundum. Hún segist hafa farið að skrifa í kjölfar leitar sinnar að bók sem enginn virtist hafa skrifað. Fyrsta bók Morrisons, Bláustu augun, The Bluest Eyes, var gefin út 1970 af öðru forlagi en hún starfaði hjá og þannig var höfundarnafnið Toni Morrison til komið. Bókin vakti hæfilega athygli og svo var um næstu bók, Sula, sem kom út 1973. Með bókinni Söngur Salómons, Song of Solomon, sem kom út 1977 komst Morrison á allra varir, bókin vann meðal annars verðlaun bandarískra gagnrýnenda og þykir mikið listaverk. Meðal annars hafa gagnrýnendur borið hana við Hundrað ára einsemd Gabriels Garcia Marquesar, og Morrison viðurkennir fúslega að hún hafi ætlað að skapa eins ríkulegt sögusvið og í bók Marquesar. Liður í trú móður Morrison á framtíðina var að hún forðaðist að ræða um fortíðina, um þrælahald, kúgun, auðmýkingu og vesæld. Í Söng Salómons og víðar í ritstörfum sínum hefur Morrison aftur á móti dregið upp mynd af fortíðinni; miskunnarlausa og fordómalausa, enda sagði hún þegar Söngur Salómons kom út að fyrir sér vakti að segja frá því "hvernig svartir upplifa það að vera svartir, ekki sem herhvöt, heldur bara sem bók eftir svartan höfund, um svarta fyrir svarta - og hvíta". 1981 kom út bókin Tjörubarn, Tar Baby, þar sem Morrison skrifar í fyrsta og eina sinn, hingað til, um hvíta, eða réttara sagt um samskipti hvítra og svartra. Annars eru bækur hennar skrifaðar fyrir svarta, eins og áður er rakið, enda segist Morrison ekki sjá ástæðu að skrifa fyrir hvíta, hvítir gagnrýnendur líti til að mynda alltaf niður á verk svartra höfunda sem fróðlegra frásagna af lífi minnihluta, en meti ekki sem bókmenntaverk. Ástkær, Beloved, sem er eina bókin eftir Morrison sem hefur verið þýdd á íslensku, kom síðan út 1987 og vann Pulitzer verðlaunin árið eftir. Síðasta bók Morrisons, Jazz, kom svo út 1992 og sama ár sendi hún frá sér greina- og fyrirlestrasafnið Playing in the Dark, þar sem hún rekur m.a. áhrif kynþáttafordóma á marga af helstu rithöfundum Bandaríkjanna fyrri tíma og vakið hefur athygli og deilur.

Toni Morrison er fyrsti svarti Bandaríkjamaðurinn sem fær bókmenntaverðlaun Nóbels, en níundi Bandaríkjamaðurinn sem fær þá eftirsóttu viðurkenningu. Margir vilja meina að með verðlaunaveitingunni sé verðlaunanefndin ekki síst að beina augum manna að þeirri vakningu sem er að verða í bókmenntum í Bandaríkjunum, sérstaklega meðal minnihlutahópa og litra rithöfunda. Verðlaunin skipa vitanlega fjárhagslegu máli fyrir Morrison, verðlaunaféð er rúmar 55 milljónir króna, en best af öllu er að bækur hennar verða enn víðar lesnar en hingað til og herma fregnir að til að mynda í Þýskalandi hafi 300.000 eintök selst af Jazz þegar verðlaunin voru tilkynnt.

Árni Matthíasson tók saman og byggði á Observer, Independent, Berlingske Tidende og Weekendavisen m.a.