Fossar og fjöllin blá Myndlist Bragi Ásgeirsson Í Ásmundarsal heldur ungur málari, Torfi Ásgeirsson að nafni, fyrstu einkasýningu sína og stendur hún til 24. október.

Fossar og fjöllin blá Myndlist Bragi Ásgeirsson Í Ásmundarsal heldur ungur málari, Torfi Ásgeirsson að nafni, fyrstu einkasýningu sína og stendur hún til 24. október. Torfi nam við málunardeild MHÍ á árunum 1984­88, og virðist ekki hafa tekið stefnuna á framhaldsnám heldur öllu frekar verið að líta í kringum sig og leita fanga í íslenzkum sjónhring.

Á sýningu Torfa eru aðallega málverk, en það voru þó litlar vatnslitamyndir er aðallega vöktu athygli mína í fyrstu og á meðan ég var að átta mig á málverkunum. Þau eru nefnilega dálítið seintekin og hörð og hafa eins og yfir sér yfirbragð nákvæmni og fálætis.

Vatnslitamyndirnar hins vegar eru ólíkt innilegri í útfærslu og hafa þannig yfir sér meiri nánd og eru að auki frjálslegar málaðar, sem þó felst ekki einungis í tækni í þessu tilviki. Nema að því leyti að liturinn er látinn "renna" eins og það heitir.

En um leið og vatnsliturinn býr yfir þokka og litbrigðum, sem erfiðara og í sumum tilvikum ókleift er að ná í olíu, er tæknin mjög erfið ef menn stefna að úrskerandi árangri.

Torfa hefur tekist að ná sérstökum tökum á vatnslitunum, en þar vaka veðrabrigðin fyrir honum og túlkun þeirra og það tekst helst í myndum eins og "Vonskuveður" (14), "Í skjóli gróðurs" (15) og "Farið að hausta" (17), sem allt eru vel og nærfærnislega málaðar myndir.

Málverkin eru allt annar handleggur og hér markar Torfi sér nákvæman og hnitmiðaðan ramma hvað formræna útfærslu snertir og er umhyggjan fyrir lýtalausri útfærslu fullmikil á köflum. En þessi árátta getur líka leitt til óvæntra lausna eins og t.d. í mynd nr. 7 "Dynur í fossum", sem er sér á báti á sýningunni og jafnframt áhrifaríkust í myndbyggingu.

En annars vöktu nær samtóna myndir einna mesta athygli mína, eins og t.d. "Við ána að vetri" (1), "Vetrarmjöll" (5), og "Fegurð vetrar" (9). Einnig er lifandi spil í hinum fossmyndunum "Lækjarfoss" (4) og "Við fossinn" (12). Þykir mér einsýnt að sterkasta hlið Torfa um þessar mundir séu form sem byggjast í hægri stígandi með einn grunntón sér til fulltingis.

Þótt þessar myndir sumar hverjar virki harðar, kaldar og óvægar á skoðandann í fyrstu, er alveg víst að þær vinna á við nánari skoðun. Einfaldlega vegna þess af hve mikilli einlægni þær eru útfærðar og maður finnur að hér er á ferð málari sem liggur eitthvað á hjarta og kemur til dyranna eins og hann er klæddur.

"Mistur á heiði".