17.000 símnotendur sambandslausir Engar skýringar á bilun í fjóra tíma BILUN varð í sjálfvirku símstöðinni í Landsímahúsinu í gær sem stóð yfir í rúma fjóra tíma. Alls voru það um 17.000 notendur sem urðu sambandslausir og auk þess var mikið álag á þeim...

17.000 símnotendur sambandslausir Engar skýringar á bilun í fjóra tíma

BILUN varð í sjálfvirku símstöðinni í Landsímahúsinu í gær sem stóð yfir í rúma fjóra tíma. Alls voru það um 17.000 notendur sem urðu sambandslausir og auk þess var mikið álag á þeim hluta kerfisins sem ekki datt út. Danskir sérfræðingar fyrirtækisins Ericsson sem er framleiðandi hugbúnaðarkerfisins í símstöðinni voru væntanlegir til landsins í gærkvöldi til að reyna að leita uppi orsakir bilunarinnar en starfsmenn Pósts og síma höfðu engar skýringar á henni. Að sögn lögreglu í Reykjavík var bilunin afar bagaleg og að sögn starfsmanna leigubílastöðva hreyfðist varla bíll í gær.

Hrefna Ingólfsdóttir upplýsingafulltrúi Pósts og síma sagði að bilunin hefði verið í hugbúnaði símstöðvarinnar. Númer sem byrja á 61, 62 og 1, þó ekki númer sem byrja á 17 og 18, voru sambandslaus þennan tíma en neyðarsími lögreglu og slökkviliðs, 0112, var þó í lagi allan tímann.

Skipt um hugbúnað í fyrra

Í fyrradag varð bilun í símstöðinni í um tuttugu mínútur en skipt var um hugbúnað í stöðinni í fyrra eftir tíðar bilanir og fenginn samskonar búnaður og notaður er í Danmörku. Áður hafði verið í notkun búnaður eins og í Svíþjóð.

Hrefna sagði að vissulega yrði Póstur og sími fyrir tjóni af völdum þessarar bilunar, og einkum biði ímynd Pósts og síma sem þjónustustofnunar skaða. Skaði notenda væri þó öllu meiri en lagaleg rök hefðu verið leidd að því þegar fyrri bilanir komu upp að stofnunin er ekki skaðabótaskyld gagnvart notendum.

Starfsmenn hjá Bifreiðastöð Reykjavíkur kváðust sjaldan hafa átt svo náðugan dag og fjárhagslegt tjón bílstjóra hjá stöðinni væri umtalsvert þar sem enginn viðskipti fóru fram í gegnum síma. Aðalvarðstjóri lögreglunnar í Reykjavík sagði að síminn hefði þagað mestan hluta dagsins en þó hefði nokkur fjöldi símhringinga komið í gegnum neyðarsíma lögreglu og slökkviliðs, 0112.