Dæmdur til fangelsisvistar fyrir að nauðga sambýliskonu sinni Sakfelling meðal annars byggð á framburði geðlæknis mannsins 28 ÁRA gamall maður hefur verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir að hafa nauðgað sambýliskonu sinni á heimili hennar í Reykjavík...

Dæmdur til fangelsisvistar fyrir að nauðga sambýliskonu sinni Sakfelling meðal annars byggð á framburði geðlæknis mannsins

28 ÁRA gamall maður hefur verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir að hafa nauðgað sambýliskonu sinni á heimili hennar í Reykjavík aðfaranótt 28. desember sl. Hann er einnig dæmdur til að greiða henni 250 þúsund krónur í miskabætur. Maðurinn játaði verknaðinn hjá lögreglu en breytti framburði sínum fyrir dómi. Í rökstuðningi fyrir sakfellingu er m.a. vísað til vitnisburðar geðlæknis mannsins. Áður en nauðgunin var framin hafði hann m.a. greint lækninum frá löngun sinni til að svívirða konur en hann taldi sig almennt hafa orðið illa úti í samskiptum við þær.

Slitnað hafði upp úr sambúð fólksins viku fyrir atvikið en sættir höfðu tekist með þeim kvöldið fyrir nauðgunina og var maðurinn fluttur inn að nýju. Þá kom til deilna með þeim sem jukust orð af orði og kvaðst maðurinn hafa ákveðið að nauðga konunni. Hann afklæddi hana þar sem hún lá í rúmi sínu og hélt henni á grúfu meðan hann kom fram vilja sínum við hana. Hann skar á símasnúrur áður en hann yfirgaf heimilið vitandi að konan hygðist kæra hann til lögreglu vegna nauðgunarinnar. Maðurinn var handtekinn síðar um nóttina þegar hann kom aftur á heimilið.

Tjáði geðlækni óbeit á konum

Hann játaði verknaðinn hjá lögreglu en ekki fyrir dómi. Dómari taldi breyttan framburð hans ekki trúverðugan, m.a. í ljósi þess að fram var komið að maðurinn hafði áður lýst því við geðlækni sem hann gekk til að hann fyndi fyrir löngun til að nauðga eða svívirða konu og að læknirinn teldi að maðurinn væri sakhæfur en hafi að lokum látið undan hvötum sínum og draumórum. Fyrir lá að maðurinn hafði lýst yfir reiði sinni út í konur almennt og taldi sig hafa orðið illa úti í samskiptum sínum við þær.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari dæmdi í málinu.